miðvikudagur, júní 13, 2007

13. júní 2007 - Að lofa upp í ermina á sér!



Eftir góða göngu síðast liðinn laugardag var ég tilbúin í hvað sem er og lét hvern sem heyra vildi að ég ætlaði að fara snemma í fyrstu Esjugöngu ársins og ekki seinna en á þriðjudag. Nu var þriðjudagurinn runninn upp og ég vaknaði eldsnemma í þeim tilgangi einum að ganga á Esjuna.

Eftir því sem leið á morguninn fækkaði þeim sem vildu eða gátu komið með og eftir hádegið blasti við sú staðreynd að annaðhvort yrði ég ein að tölta upp fjallið eða svíkja gefin fyrirheit. Að svíkja loforð! Ekki ég. Ég ók af stað og alla leiðina að Mógilsá þar sem ég lagði bílnum, fór í gönguskóna og setti á mig bakpokann og rölti af stað alein með tár á hvarmi.

Það var ekki mikil umferð fólks á fjallinu þrátt fyrir gott veður. Það breytti ekki því að ég hafði ekki gengið lengi er mikill efi tók að sækja á mig. Er ekki bara nóg að segjast hafa farið upp? Kannski þarf þess ekki því ég er komin áleiðis upp fjallið og lýg engu þótt ég snúi við núna. Ég hélt samt áfram, ofar og ofar, móð og másandi. Brátt var ég komin svo hátt upp að einungis börn og gamalmenni gæfust upp á þessu stigi. Þá rölti einn maður framúr mér og greinilega kominn vel yfir sjötugt.

Ég hélt áfram og er ég kom upp að klettabeltinu komu Klaus verkfræðingur við Hellisheiðarvirkjun og frú framúr mér. Ég hélt í humátt á eftir þeim og brátt stóð ég við útsýnisskífuna ásamt fáum öðrum. Takmarkinu var náð, ekki bara náð, heldur á skemmri tíma en ég hafði áður farið á Esjuna og því ekkert annað eftir en að rölta niður aftur.

Klukkan var um fimm er ég hélt af stað niður aftur. Þegar komið var niður fyrir göngubrúna yfir Mógilsá, var umferðin upp fjallið orðin svo mikil að minnti helst á jólaumferðina í Kringlunni. Þar hitti ég meðal annarra gamlan skólafélaga úr Gaggó sem ég hafði ekki hitt síðan á Vífilsfellinu fyrir tveimur vikum síðan. En niður komst ég óbrotin og laus við skrámur og get nú með stolti merkt við fjórða fjall sumarsins við hjá mér, sjálfan bæjarhól Reykvíkinga.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/esja-12-jn-2007/


0 ummæli:







Skrifa ummæli