Það var ekki amaleg veðurspáin, sól og blíða, þegar ég og nafna mín og nágrannakona lögðum að heiman á laugardagsmorguninn og var förinni heitið á Hengilinn.Það var ekið sem leið lá og bílnum lagt skammt frá Víkingsskálanum og lagt þaðan í brekkurnar upp að Sleggjubeinsskarði.
Ekki höfðum við gengið lengi er við fórum að efast um vísindi veðurfræðinnar því þar var hífandi rok með hæfilegum sandstormi. Þetta hlýtur að lagast þegar þegar komið er upp á Húsmúlann tautaði ég. Ónei, þar reyndist sama rokið og jafnvel verra ef eitthvað var því það var beint í andlitið á köflum og svo hvasst að erfitt var að fóta sig. Þarna hefði ekki veitt af eins og einum stórum Þórði til að halda sér í. Hann var samt með okkur í anda og rifjaðar upp sögur af kappanum frá því í fyrra.
Áfram var haldið af gamalkunnri þrjósku. Brátt var komið að Þórðarkleif (Hún heitir kannski eitthvað allt annað, en mér er ókunnugt um það). Er ég fór yfir klifið kom slík vindhviða frá norðri að ég varð að leggjast niður til að fara ekki sömu leið og Þórður forðum daga og síðan skríða yfir að klettinum framundan. Nafna mín hló bara að aðförum mínum og gekk yfir eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Áfram var haldið og átt að Skeggja. Síðasta haftið, örmjótt einstigi reyndist okkur óframkvæmanlegt vegnaveðurhamsins sem stóð á fjallið úr norðri frá heiðinni. Því var snúið við, haldið sem leið lá niður í Innstadal og þaðan til baka niður í Sleggjubeinsdal.
Heim komumst við veðurbarðar, útiteknar og sandblásnar, en með alla útlimi í lagi. Ég náði veðrinu bæði á Stöð 2 og Ríkisútvarpinu og á Stöð 2 var enn sama himnablíðan og spáð hafði verið um morguninn og kvöldið áður. Þó sögðu þeir frá moldroki á Suðurlandi í fréttunum. Sjálf var ég svo þreytt eftir ferðina að ég treysti mér ekki til að koma þessari færslu inn fyrr en komið var nærri hádegi.
http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/hengill-23-jn-2007/
sunnudagur, júní 24, 2007
24. júní 2007 - Ljúga veðurfræðingar?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 11:55
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli