fimmtudagur, júní 21, 2007

21. júní 2007 - Meðvirkir bloggarar og endurtekningar

Það er verið að stofna nýtt bloggsetur, http://eyjan.is/. Það mætti ætla að nóg væri að gert með hinum mörgu bloggsamfélögum sem þegar eru til, en það er ljóst að núverandi bloggsamfélög fullnægja ekki hinum fróðleiksfúsu, þá sérstaklega þeim sem reyna að taka þátt í skapandi frjórri samfélagsumræðu.

Þegar ég fór yfir á Moggabloggið í vetur, var það mikið til vegna þægilegs notendaviðmóts, en þá hafði ég notast við blogspot í eitt ár og stundum orðið að dunda mér við innsetningu pistla minna eins og handavinnu. Þrátt fyrir illan bifur á Moggabloggi í upphafi, fór ekkert á milli mála að móttökurnar á Moggabloggi voru góðar og ljóst að ég var að skrifa fyrir verulega fleiri lesendur en áður þótt ég héldi áfram að skrifa pistla í sama dúr og áður, þ.e. samblöndu af persónulegri reynslu, almennum pistlum um menn og málefni og pólitík.

Að undanförnu hefur mér fundist skemmtileg bloggskrif á Moggabloggi fara verulega halloka fyrir ítrekun á fréttaskrifum og meðvirkni. Sumt fólk veður upp vinsældarlistana fyrir það eitt að segja eitt eða tvö meiningarlaus orð um einhverja frétt. Sjálf laumaðist ég til að koma með eina og eina frétt af Mogganum í þeim tilgangi einum að hækka mig aðeins á vinsældarlistanum þótt ég hafi lagt slíka hegðun af að mestu.

Verri finnst mér þó meðvirknin. Það keyrði um þverbak er einhver kom með þá tillögu að lögreglan gripi til þess að nota naglamottur til að stöðva mótorhjól í hraðakstri. Fylltist þá bloggið af hinum meðvirku sem leist vel á hugmyndina, hugmynd sem gengur út á að lögreglan svipti fólk lífinu fyrir að aka of hratt, en í besta falli að stórslasa fólkið. Þá blöskraði mér! Ég fór að efast um tilveru mína á Moggabloggi og er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi heima á bloggsvæði með aulum sem fagna slíkum tillögum.

Mér hefur verið boðið að vera með á http://eyjan.is/. Ég hefi enn ekki þegið boðið því þrátt fyrir allt líður mér vel á Moggabloggi. En ef Moggabloggið endar sem Aulablogg, fer ég á eftir öllum þeim sem senn kveðja Moggabloggið, Vísisblogg hinna háu (þ.e. ekki blog.central) Blogspot og Kaninku og sameinast um eitt öflugt bloggsvæði.


P.s. Sem betur fer eru til margir góðir pennar á Moggabloggi og þeir þurfa ekki að taka orð mín til sín.


0 ummæli:







Skrifa ummæli