Ég held að sumir sem hafa gert athugasemdir við skrif mín í síðasta pistli séu að misskilja mig. Ég er ekki að setja neitt út á stafsetningu fólks, ofnotkun eða vannotkun á ypsilon né fjölbreytta notkun zetunnar. Fólk má sömuleiðis hafa skoðanir og á að hafa skoðanir á samfélaginu. Það eru meðvirkni og athugasemdalausar áherslur í fréttabloggum sem ég var að setja út á.
Með meðvirkni á ég við hið stórhættulega atferli þegar hópur fólks tekur sig til og lætur hafa sig út í fylgilag við skoðanir sem oft eru hættulegar samfélaginu. Sorglegasta slíkt dæmi var þegar Adolf nokkur Hitler taldi þýsku þjóðina á að fylgja sér að málum og síðan hvernig hann beitti því valdi sem honum var fengið gegn þjóðinni og gegn mannkyninu. Því er full ástæða til að hafa vara á þegar einhver slær fram í keskni sinni hugmynd um notkun naglabelta til að stöðva mótorhjól sem fara yfir löglegan hámarkshraða. Ég vil meina að sá sem varpaði fram hugmyndinni og settist síðan á útbrunnar leifar af mótorhjóli til myndatöku hafi verið að grínast með hugmyndina, en blaðamaðurinn og síðan lesendur tekið hugmyndina alvarlega.
Hugmyndin sem slík er auðvitað fáránleg. Hvaða lögregluvarðstjóri vill t.d. taka á sig ábyrgðina af notkun slíks naglabeltis? Hver verður sök hans og hvernig verður dæmt í slíku máli ef ökumaður hjólsins ferst vegna notkunar naglabeltisins? Orð verða til alls fyrst. Því er best að þagga slíka hugmynd niður í upphafi og áður en hún fer á flug og verður að framkvæmd.
Hitt atriðið sem ég gagnrýndi eru fréttablogg án nokkurrar frjórrar hugsunar, til þess eins sett fram að fá fólk til að kíkja á bloggið. Þar með er ég ekki að gera athugasemdir við gagnrýnt fréttablogg, en gott fréttablogg er t.d. þar sem nokkrir aðilar bentu á þá staðreynd að skemmtiferðaskipið Queen Elizabeth 2 er einungis miðlungsstórt í dag þrátt fyrir fyrirsögn fréttar um að það væri stærsta skemmtiferðaskip í heima og síðan eitt hið stærsta. Sömu sögu er að segja um fréttablogg sem bæta upphaflegu fréttina. Ég var hinsvegar að gera athugasemd við meiningarlausa bullið sem rýrir gildi fréttabloggsins og gerir að verkum að fólk hættir að nenna að lesa það.
Þess má geta að blaðamaður Morgunblaðsins tók viðtal við ágætan vin minn og birti í Sjómannadagsblaði Morgunblaðsins á dögunum. Þórður var stýrimaður á skemmtiferðaskipi sem er miklu stærra en QE2 og er nú að fara sem aðstoðarskipstjóri (staff captain = áhafnarskipstjóri) á annað skip sömuleiðis mun stærra en QE2, Monarch of the Seas.
-----oOo-----
Ég held að ég sé komin með málverk í bakið eftir að hafa skrapað og málað svalagólfin hjá mér á fimmtudag.
föstudagur, júní 22, 2007
22. júní 2007 - Meira um meðvirkni!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 09:03
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli