mánudagur, júní 18, 2007

18. júní 2007 - Enn um umferðarslys!

Daginn sem kosið var til Alþingis í vor vann ég í sjálfboðavinnu við að aðstoða fólk við að komast að og frá kjörstað, aðallega eldra fólk og fólk sem af einhverjum ástæðum átti erfitt með að komast ferða sinna. Meðal þess fólks sem ég aðstoðaði var maður um sextugt sem þurfti að komast að heiman frá Öryrkjablokkinni við Hátún á kjörstað á Kjarvalsstöðum og til baka aftur. Þetta var að kvöldi kosningadagsins og maðurinn var greinilega mjög illa haldinn líkamlega og þurfti að styðjast við göngugrind til að komast allra sinna ferða.

Á leiðinni til og frá kjörstað sagði hann mér ýmislegt af lífi sínu, t.d. því að hann hefði lent í bílslysi um 1984 og hefði slasast svo illa að honum var ekki hugað líf í fleiri mánuði, haldið sofandi á gjörgæslu. Er við komum á Kjarvalsstaði, aðstoðaði ég hann inn og að sinni réttu kjördeild, eiginlega allt nema að kjósa, síðan aftur út í bíl og til baka í Hátúnið. Eftir að ég kvaddi manninn fór ég að velta fyrir mér af hverju er ekki reynt að notast meira við fórnarlömb umferðarslysa til að vekja athygli á orsökum umferðarslysa.

Þetta atvik á kosningadaginn rifjaðist upp fyrir mér að kvöldi þjóðhátíðardagsins er ég heyrði í fréttum að farþegi minn hefði látist af völdum brunaslyss sem hann lenti í um miðjan maí, nokkrum dögum eftir að ég ók honum á kjörstað. Megi dætur Ómars Önfjörð, barnabörn og aðrir aðstandendur eiga samúð mína alla.

-----oOo-----

Dagurinn í dag minnir mig annars ávallt á það er ég kastaðist út úr bíl í veltu 18. júní 1960 skammt frá Blikastöðum í Mosfellssveit. Bíllinn gjöreyðilagðist, en ég lagaðist ekkert við slysið.

-----oOo-----

Í tilefni dagsins er kannski tilefni til að viðra þriðja umferðarlögmál Önnu, sem þó kemur ekkert við áðurnefndum atburðum, en það má orða á eftirfarandi veg:

Höldum okkur til hægri í umferðinni en vinstri í pólitíkinni!

-----oOo-----

Svo verður fróðlegt að vita hver verður gestur númer 200.000 á Moggablogginu mínu!


0 ummæli:







Skrifa ummæli