þriðjudagur, júní 19, 2007

19. júní 2007 - Kvennamessa við Þvottalaugarnar



Að venju mun Kvennakirkjan halda sína árlegu kvennamessu við Þvottalaugarnar að kvöldi 19. júní þar sem minnst verður vinnuframlags íslenskra kvenna um aldir, yfirleitt óþekktra kvenna, en einnig þeirra kvenna sem risu upp og kröfðust úrbóta á aðstæðum sínum.

Ég held að ég geti fullyrt, þótt ekki séu allar konur sammála mér, að miðpunktur hreyfingar kvenna á síðustu tveimur öldum hafi verið Þvottalaugarnar í Laugardal. Þar strituðu margar fyrir fáeinum skildingum, við þvotta fyrir sig og aðrar oft við hinar verstu aðstæður og vosbúð. Um leið voru Þvottalaugarnar einn helsti samkomustaður reykvískra kvenna um aldir þar sem þær gátu hist og rætt sín hjartans mál í friði fyrir körlum og svokölluðu heldra fólki bæjarins. Flestar gengu alla leiðina frá Reykjavík sem þá var að mestu bundin við kvosina, lengi vel í gegnum Skuggahverfið og meðfram sjónum inn í Laugardal með óhreina þvottinn á bakinu og síðan eftir að hafa þvegið hann og undið að mestu, aftur til baka að kvöldi. Síðar kom svo Laugavegurinn sem dregur nafn sitt af laugaferðunum og urðu þá ferðirnar öllu léttari, ekki síst eftir að hægt var að notast við kerrur til flutnings á þvottinum.

Sjálf hefi ég talið og ítrekað lagt til að Þvottalaugarnar verði rétti staðurinn fyrir Kvennasögusafn í Reykjavík og þá gjarnan í tengslum við upphaf hitaveitu í Reykjavík, en fengið lítinn hljómgrunn fyrir tillögum í þá átt.

Kvennamessan hefst klukkan 20.30 og verður undir ötulli stjórn sr. Yrsu Þórðardóttur og Kvennakirkjunnar að venju, en Sigrún Gunnarsdóttir mun prédika. Með þessum orðum óska ég öllum konum til hamingju með daginn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli