Eins og fólk veit, hefi ég ávallt verið mjög kirkjurækin manneskja. Ég sæki því bæði brúðkaup og jarðarfarir eins og mér er unnt, en að auki minnst eina almenna messu á ári. Það er meira en sumt fólk getur státað sig af. Auk þessa reyni ég ávallt að komast í kvennamessuna við Þvottalaugarnar hvernig sem veður er, en viðurkenni að ég hefi ekki náð þeim öllum.
Að sjálfsögðu var ég við messuna á þriðjudagskvöldið þar sem Dr. Sigrún Gunnarsdóttir prédikaði og séra Yrsa Þórðardóttir stjórnaði í fjarveru móður sinnar séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Þessi messa var með þeim fjölmennari enda kom ekki deigur dropi úr lofti og var hún að öllu leyti vel heppnuð. Þarna hitti ég fjölda fólks sem ég þekkti ágætlega af blogginu í fyrsta sinn, m.a. Silju Báru Ómarsdóttur, Andreu Ólafsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, smellti af myndum og naut lífsins eins og hægt er á hátíðarstundu.
http://public.fotki.com/annakk/blanda-efni/kvennamessa-2007/
-----oOo-----
Í tilefni 19. júní birtust í blöðum heillar opnu auglýsingar frá Landsbankanum þar sem teiknimyndir eftir Halldór Baldursson birtust af ýmsum þekktum konum, allt frá Evu (hans Adams) til nútíma íþróttakvenna. Ég skoðaði auglýsinguna og þekkti allmörg andlit, þó alls ekki öll. Þar sem ég var á vaktinni var ég að ræða við einn starfsmanninn í síma og vildi hann meina að ég væri á meðal andlitanna. Ég finn hvernig frægðin stígur mér til höfuðs. :)
miðvikudagur, júní 20, 2007
20. júní 2007 - Að aflokinni kvennamessu
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:25
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli