mánudagur, júní 25, 2007

25. júní 2007 - Himnaríki?



Guðríður vinkona mín Haraldsdóttir hefur löngum þótt hnyttin í tilsvörum og daglegri umgengni. Þegar hún flutti frá Reykjavík og út á land keypti hún sér íbúð á efstu hæð í blokkinni, en eins og allir vita eru bara tvær blokkir úti á landi, blokkin í Vestmannaeyjum sem stendur ofan við Friðarhöfn og svo hin blokkin í sjávarþorpi úti á landi og sem stendur við sjóinn.

Af alkunnri hógværð sinni fann Gurrí fljótt að gott væri að búa í blokkinni úti á landi og horfa á brimið koma æðandi á Langasand og að blokkinni. Eftir að hafa séð þessar ógnvænlegu aðfarir brimsins sá hún að hún væri ekki flutt í nágrenni við Helvíti og eftir það hefur íbúðin hennar í blokkinni aldrei verið kölluð annað en Himnaríki.

Ég hefi nokkrum sinnum komið í kaffi í Himnaríki og vissulega hrifist af útsýninu, reyndar ekki út á sjó, heldur í hina áttina, upp á Akrafjall, en þaðan mun vera skemmtilegra útsýni en úr blokkinni þótt íbúðin sé á fjórðu hæð. Þá hefi ég örstöku sinnum boðist til að aka frúnni heim eftir vinnu, en það tekur hún aldrei í mál því slíkt gæti leitt til þess að frú Guðríður missti af ferð með Tomma mági sínum að óskum.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er að ég fann Himnaríki á laugardaginn, reyndar allt annað Himnaríki. Það var þó hvergi í námunda við sjó, heldur til fjalla. Það er nánar tiltekið á virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar og staðsett í gám á Skarðsmýrarfjalli. Ef mig mismnnir ekki, rakst ég þjóðhátíðartjald frá Vestmannaeyjum þarna í fyrrasumar. Það er því ljóst að Eyjamenn hafa séð heim til Eyja af fjallinu og orðið svo uppnumdir af sýninni að þeir hafa eftir þetta kallað staðinn Himnaríki.

Megi Eyjamenn vel njóta nafngiftar sinnar á Skarðsmýrarfjalli, en ég er viss um að Gurrí lætur sitt Himnaríki ekki svo auðveldlega af hendi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli