Þessi yfirskrift mín hefði verið óhugsandi fyrir einu ári síðan því sú var tíðin að ég sá hverja einustu keppni, stillti fartölvuna á beina útsendingu frá mótsstað, þ.e. textaboðin og var löngu búin að lesa um gang mála áður en íslensku þulirnir þuldu upp einhverja vitleysu sem í sumum tilfellum var vegna þess að þeir lásu ekki textann sem þeir höfðu fyrir framan sig.
Allt var þetta gott og blessað, enda hafði ég fylgst með Formúlunni allt frá því Ayrton Senna dó, en lát hans varð til þess að sænskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um kappakstur og líkindin með láti Ayrton Senna og láts vonarstjörnu Svía Ronnie Peterson nokkrum árum áður. Ég heillaðist þó fyrst og fremst af Michael Schumacher sem stefndi hraðbyri að sínum fyrsta heimsmeistaratitli.
Af eðlilegum ástæðum sá ég ekki mörg mót árin 1996 og 1997 eftir að ég flutti aftur til Íslands, en ég held að ég hafi séð næstum öll mót eftir það. Það komu vissulega fyrir undantekningar eins og haustið 2004 er ferð að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka var frestað um einn dag og varð því á sama tíma og keppni í Formúlunni. Fyrir bragðið missti ég af keppninni og verndarvængur minn ekki yfir heimsmeistaranum þann daginn.
Á þessu ári sá ég fyrstu mót ársins með hálfum huga. Þegar kom að leiðinlegustu keppni ársins valdi ég að ganga fremur á fjall en að horfa á keppnina í Mónakó. Í gær var ég að mála svalahandrið heima hjá mér um eftirmiðdaginn og rétt búin að því er kvöldfréttirnar byrjuðu í útvarpinu. Þá skyndilega var sagt frá kanadíska kappakstrinum og ég hafði ekki einu sinni kveikt á sjónvarpinu.
Ég verð greinilega að setja rauða slaufu á vísifingur vinstri handar fyrir skemmtilegustu keppni ársins í Indianapolis. Og þó. Meistarinn er kominn á eftirlaun og fáu hægt að gleðjast yfir.
mánudagur, júní 11, 2007
11. júní 2007 - Ég gleymdi Formúlunni!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:32
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli