Fyrir allnokkrum árum var ég stödd við lagfæringar á heitavatnsborholu í Mosfellsdal er ég heyrði auglýsingu í útvarpinu. Það var verið að auglýsa útgáfudag á ónefndu vikublaði. Auglýsingin boðaði ekkert gott því ljóst var að ég var aðalumræðuefni umrædds vikublaðs á neikvæðan hátt, þó án þess að hafa tekið þátt í greininni sem auglýsingin vitnaði til.
Ég varð reið, hoppaði reyndar af bræði, hugsaði ritstjóranum og öðrum sem áttu þátt að máli þegjandi þörfina, en ákvað að sjá til hver framvinda mála yrði. Um kvöldið frétti ég meira af greininni og taldi hana vega að heiðri mínum og hugsanlega að mannorði mínu.
Daginn eftir höfðu tveir fréttamenn á sínhvoru blaðinu samband við mig og vildu fá viðbrögð mín við greininni. Ég tilkynnti þeim báðum að skaðinn væri skeður og að opinberar deilur við þessar aðstæður myndu í besta falli gera illt verra. Því ætlaði ég ekki að svara þessari grein á neinn hátt og vildi ég helst þegja hana í hel.
Það liðu einhver ár. Greinin gleymdist, deilur leystust og í dag sé ég að ég gerði hárrétt með því að svara engu og gera ekkert í bræði minni.
Einhver sá vitlausasti greiði sem Jón Helgi í Býkó gat gert Gunnari vini sínum Birgissyni var að setja tímaritið Ísafold í bann á sölustöðum sínum og reyna þannig að beita ritskoðun í þágu félagans. Með sölubanninu gaf hann Reynisfeðgum á Ísafold/Mannlífi höggstað á sér sem þeir nýttu til hins ítrasta. Skyndilega áttaði ég mig á því að þessi útgáfa af Ísafold er blað sem ég þarf að eignast. Þegar ég fór í Nóatún að versla á föstudagskvöldið var blaðið ekki fáanlegt og varð ég því að kaupa helstu nauðsynjar í Bónus, en þar var blaðið uppselt. Ég hlýt samt að ná blaðinu í einhverri sjoppu á laugardag.
Skyndilega er Ísafold orðin blað sem allir verða að eignast. Ég hefi lesið einhver blöð, ekki alltaf sammála blaðinu, ekki síst eftir að pistli sem ég sendi blaðinu sem svari við Breiðavíkuráróðrinum í vetur var nánast hafnað, en taldi samt að blaðið væri að stíga á líkþorn þjóðar sem má ekki vamm sitt vita, en með viðbrögðum sínum við banni Jóns Helga í Býkó hafa Reynisfeðgar auglýst blaðið rækilega sem og það sem miður fer í Kópavogi.
Ég bíð enn eftir gjafaeintaki af vikublaðinu forðum þar sem ég var aðalumræðuefnið.
laugardagur, júní 02, 2007
2. júní 2007 - Snilldarlegt útspil Reynisfeðga
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli