föstudagur, ágúst 31, 2007

31. ágúst 2007 - Fortíðarþrá!


Einhverjir leiðinlegustu bílar sem ég ek heita Landrover. Ég hefi “notið” þess að aka svonefndum Landrover Defender sem mun vera einskona her- eða landbúnaðarútgáfa af þessum jeppum og fæ alltaf þá tilfinningu að ég sé komin aftur til unglingsáranna þegar annar hver bóndi átti svona eðalvagn. Allt hristist og glamrar eins og maður sé kominn á gömlu malarvegina jafnvel þótt rennt sé eftir eggsléttu asfaltinu. Skiptir þá litlu máli hvort ekið er á Defender eða Discovery. Að auki er hávaðinn slíkur að nota þarf heyrnarskjól til að glata ekki síðustu leifunum af heyrn sem eftir er. Þá eru lopapeysan og föðurlandið nauðsynleg til að halda líkamshitanum eðlilegum á keyrslunni.

Í byrjun áttunda áratugarins komu Range Rover sem í Morgunblaðinu í dag eru sagðir vera undirútgáfa af Landrover. Ekki voru þeir alveg gallalausir heldur, þótt sagðir væru vera lúxusjeppar. Lengi vel var hávaðinn slíkur að teppaleggja þurfti hvert einasta eintak áður en hægt var að bjóða þeim upp á að aka eftir íslenskum vegum til að æra ekki bílstjórann og alla farþegana.

Það má eiginlega segja að einasti lúxusinn við þessi landbúnaðartæki sé verðið, en það er slíkt að einungis þeir sem vita ekki hvernig þeir geti eytt peningunum sínum, fá sér slíka bíla og fá væntanlega sláttuvél í kaupbæti þótt ekki vilji ég fullyrða neitt um það. (Umboðið er allavega kennt við landbúnað.)

Nú montar umboðið sig af því að nokkrir íslenskir milljarðamæringar eigi svona gripi. Ég held að það sé ekki vegna þægindanna heldur sé það gamla fortíðarhyggjan sem ræður för. Þá dreymir enn um sumardvöl í sveit á sínum unglingsárum og margir komnir með jörð til að hvílast frá erlinum við að græða peninga í höfuðborginni. Þá er ekki verra að hafa eitt stykki Landrover eða Range-Rover á hlaðinu og lofa minningunum að flæða um hugann. Svo eiga þessir menn yfirleitt öðruvísi bíla á hlaðinu heima hjá sér í höfuðborginni til nota innanbæjar.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

30. ágúst 2007 - Ekkert hætt, bara löt

Stundum kemur yfir mig einhver bloggleti. Ég hefi ekkert að segja en þarf að halda uppi merkjum einhverra ímyndaðra vinsælda um dugnað á blogginu. Ég nenni því ekki lengur.

Ég tel hyggilegra að blogga eftir tilfinningunni, segja eitthvað ef ég hefi eitthvað að segja, en þegja þess á milli. Það getur vel verið að ég komi með eitthvað gáfulegt í kvöld, ef ekki í kvöld, þá á morgun eða hinn daginn.

Ég er allavega ekkert hætt, bara löt.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

29. ágúst 2007 - Æsland og hin ruslheitin


Ég hefi stundum hæðst að þessum enskuslettum sem virðast komin til að vera í íslensku máli, svo mjög að góð og gild íslensk orð eru látin víkja. Flugfélagið Íslenskar hraðferðir er látið heita Æsland Express (skrifað Iceland Express) og skólabíllinn frá gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli er látinn heita Reykjanes Express. Á síður íslensku varðskipanna stendur risastórum stöfum Coast Guard. Blandaður hópur Íslendinga og útlendinga mótmælti virkjanaframkvæmdum undir heitinu Seifing Æsland (eða var það Seivíng Æsland?) og popparar landsins ætla allir að meika það á ensku. Fræg var deilan árið 2001 þegar sigurlagið Birta úr undankeppni Evrópusöngvakeppninar breyttist í Angel, þeir félagar Kristján og Gunnar breyttust í Two tricky og voru svo rassskelltir í lokakeppninni. Ísland heitir reyndar Island víða í Evrópu, jafnvel Islande eða Ijsland en enska útgáfan virðist samt ráðandi í túrhestaverslunum. Allt er merkt þessu Æslandi og erfitt að fá neitt sem merkt er Íslandi eða Island.

Það var ágætis viðtal við Spánarbúann Kristin Ólafsson í síðdegisútvarpinu á þriðjudag þar sem hann benti á þessa óheillaþróun tungumálsins. Þar ræddi hann meðal annars atvikið þar sem hann ætlaði að fá sér rauðvínsglas á veitingahúsi í Reykjavík, en stúlkan sem ætlaði að afgreiða hann kunni ekki íslensku. Á endanum þurfti að kalla til einhvern íslenskan yfirmann sem afgreiddi hann.

Með því að krefjast þess að íslenska sé ráðandi tungumál á Íslandi er ekki verið að kreista fram einhvern þjóðrembing, heldur einungis verið að krefjast þess að móðurmálið verði áfram ráðandi eins og síðustu þúsund árin. Um leið er engin ástæða til hafna öllum tökuorðum því oft hafa erlendar slettur fest sig í málinu þegar Íslendingar hafa búið til stirðleg orð yfir einstöku þætti mannlegrar tilveru, orð eins og bíll, bíó, pólitík og svo framvegis. Vonandi mun alþjóðlega orðið trans sömuleiðis festast í málinu í stað rangnefnisins kynskiptingur. (orðið trans er upphaflega komið úr latínu en Þjóðverjar byrjuðu að nota það í tengslum við það er líkamlegt kynferði fólks er ekki í samræmi við tilfinningar þess).

Mér kom til hugar að nýja áætlunarferðin á milli gömlu herstöðvarinnar og Reykjavíkur mætti heita Kleppur hraðferð, en það væri svo sannarlega rangnefni rétt eins og kynskiptingarnir. Því skulum við bara kalla áætlunarferðirnar Reykjanes-hraðferð!

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

28. ágúst 2007 – Það er ekkert gaman...



.... að fara í bíó ef þú ert ein á ferð. Því plataði ég Guðrúnu Helgu vinkonu mína með mér í bíó. Ég veit ekki hvort ég gerði henni grikk með þrákelkni minni að draga hana með hvernig svosem staða hennar var að öðru leyti.

Eftir viku heldur hún af landi brott í austurveg, en hún ætlar að heimsækja Georgíu og fleiri ríki í námunda við Kákasus og ég dauðöfunda hana af ferðinni góðu. Ég gerði mér vonir um að geta dreift huga hennar með bíóferð, en í reynd olli bíóferðin enn fleiri ósvöruðum spurningum en áður var.

Kvikmyndin fjallaði um heilbrigðismál. Lengi vel töldust Kákasusbúar meðal elstu íbúa þessa heims og minnist ég frétta af konu einni sem talin var hafa náð 170 ára aldri á seinnihluta síðustu aldar. Ýkjurnar voru þó ekki hið versta, heldur óttinn við að hinn Kákasusfæddi Jósef Stalín tæki upp á því að lifa lengur en æskilegt þótti.

Eins og gefur að skilja sáum við kvikmyndina “Sicko” eftir Michael Moore, frábæra mynd sem í öllum sínum ýkjum sýndi fram á þá staðreynd að fólk í Evrópu hefur það gott þegar kemur að heilbrigðismálum. Sjálf fékk ég að kenna á slæmri heilbrigðisþjónustu á Íslandi tuttugustu aldar og flúði land. Ég fékk það sem ég þurfti í Svíþjóð og enn í dag er ég að horfa á fólk berjast við gamaldags heilbrigðiskerfi á Íslandi.

Ég kalla umfjöllun um bandarískt heilbrigðiskerfi ýkjur því ég veit betur. Ég segi ýkjur því að bandaríska heilbrigðiskerfið býður upp á möguleika á leiðréttingum, atriði sem er ekki boðið upp á á Íslandi þótt slíku sé fyrir að fara í mörgum siðmenntuðum ríkjum Evrópu.

--

P.s. Vinkona mín sem er trans fór fram á að komast í aðgerð á Íslandi til leiðréttingar á kyni. Henni var neitað. Þá flutti hún til Bandaríkjanna og fékk aðgerð þar, sér að kostnaðarlausu. Hún sér enga ástæðu til að flytja heim aftur!

mánudagur, ágúst 27, 2007

27. ágúst 2007 - Umhverfissóðinn "Vatn á flösku"


Íslenskt vatn hefur mikið verið dásamað af Íslendingum að undanförnu, svo mjög að stöku ofurfjárfestar hafa veðjað á átöppun á vatni á flöskur, en svo virðist sem ekki verði allt vatnið sopið þótt í flöskuna sé komið.

Í Dagens nyheter er sagt frá því að vatn á flöskum sé nú bannað á opinberum vinnustöðum í San Fransiskó í Bandaríkjunum og víða um heim hafa betri veitingahús hætt að bjóða upp á vatn í flöskum, en bjóða þess í stað kranavatn. Ástæðan: Vatn á flöskum er umhverfissóði.

Vatn á flöskum inniheldur oft of mikið magn af flúor og natrium auk þess sem plastflöskurnar gefa frá sér antimon (hvað sem það nú er), en meira en milljarður af tómum vatnsflöskum hafna á ruslahaugunum ár hvert í San Fransiskó. Verstir af öllu eru þó vatnsflutningarnir. Þannig hefur verið reiknað út að vatnsflutningarnir í Svíþjóð einni samsvari koldíóxíðmengun frá 12500 bifreiðum.

Úr því að vatn á flöskum er orðið svona slæmt og ég svona umhverfisvæn, velti ég því fyrir mér hvort ég haldi mig ekki bara við bjórinn í framtíðinni?

sunnudagur, ágúst 26, 2007

26. ágúst 2007 - Moggabloggið bakar

Fyrirsögnin er kannski ekki alveg í samræmi við fréttina á mbl.is og prentMogganum því þar stóð: “Bloggkirkjan bakar”. Mér finnst þetta snilld og greinilegt að Morgunblaðið ætlar að draga hina ýmsu hagsmunahópa í dilka, ofurkristna í einn dilk og ofurhægrisinnaða í annan nema þeir falli saman í sama dilkinn. Við hin getum svo staðið fyrir utan og horft á dýrðina.

Síðastliðið vor var haldið Moggabloggmót í litla uppáhaldskaffihúsinu hennar Gurríar á Akranesi og fór vel á með fólki. Þar var heldur engin til að troða upp á okkur refsingum Guðs. Við komum einfaldlega saman til að spjalla og fá okkur kaffi og kökusneið. Ekki kom orð um það í Morgunblaðinu enda höfum við vart verið nægilega trúuð til þess að fá pláss á baksíðu Morgunblaðsins svona fyrir mætinguna. Áður hafði ég reyndar mætt í svipað kaffiboð á Mokkakaffi til heiðurs Parísardömunni sem þó var ekki Moggabloggmót þar sem við bloggum flest á Blogspot.

Þetta er kannski framtíðin, að “kristnir” hafi sín bloggmót, múslímar sín og íhaldsmenn sín. Þetta verður auðvitað allt vandlega auglýst á útsíðum Morgunblaðsins til að tryggja næga þátttöku.

Nema auðvitað að Morgunblaðið hafi verið að veita Guðrúnu Sæmundsdóttur örlitla áminningu með því að auglýsa öfgarnar og mannfyrirlitninguna hjá henni.

laugardagur, ágúst 25, 2007

25. ágúst 2007 - Stóra þvagleggsmálið!

Nei mínar kæru lesendur. Ég ætla ekki að þreyta ykkur frekar með skrifum um stóra þvagleggsmálið eða tjá mig frekar að sinni um Þvaglegg sýslumann. Ég bíð þess frekar að eitthvað verði aðhafst í málinu, að dómstólar verði látnir skera úr um lögmæti þeirra aðgerða sem beitt var. Síðan skal ég tjá mig.

Látum frekar Bolina á Moggabloggi ljúka sér af fyrst. Svo skal ég.

föstudagur, ágúst 24, 2007

24. ágúst 2007 - Ástandið í miðborginni

Þessa dagana gengur maður undir manns hönd og kvartar yfir miðborginni okkar, sóðaskap, sígarettustubbum og rónum, allt eins og þetta sé í fyrsta sinn. Fólk sé jafnvel hætt að þora að fara niður í bæ um hábjartan dag. Sem ég hefi alltaf vitað. Þessir útlendu ferðamenn eru stórhættulegir! Eða hvað?

Ég skal fúslega viðurkenna að það er miklu meira um sígarettustubba en áður. Restin eru ýkjur. Ég man eftir heimsþekktum fyrrum íþróttamanni illa til reika að betla fyrir kogara á Hallærisplaninu (Ingólfstorgi) á sjöunda áratugnum svo ekki sé talað um menn sem ég starfaði með á sjó á svipuðum tíma og lentu á götunni. Það var í rauninni miklu meira um þá á götunum fyrir 30-40 árum en nú er. Þegar farið er niður í bæ á daginn að sumri til hitti ég orðið sárafáa Íslendinga, vissulega einn og einn heimilislausan vesaling, en byrði hefur mér aldrei orðið af þeim, ekki fremur en útlendingum alsaklausum af nokkrum óhæfuverkum á Íslandi. Það væri kannski nær fyrir borgarstjórann að koma upp fleiri heimilum og meðferðarúrræðum fyrir ógæfumenn en nú er og þannig losna við þetta annars ágæta fólk af götunum.

Hið einasta sem ég þarf að óttast niðri í bæ eru stöðumælaverðir, en jafnvel þeir láta mig í friði á meðan ég á nóg af klinki til að greiða í stöðumælirinn.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

23. ágúst 2007 - Heimskupör forsetans í Venesúela?


Ég rak augun í litla frétt á forsíðu Blaðsins á miðvikudag þar sem sagt er frá því, að því er virðist í hæðnistón, að Hugo Chaves og Venesúela fái eigið tímabelti. Samkvæmt fréttinni muni Venesúela færa klukkuna fram um hálftíma um næstu áramót tilkynnti Hugo Chavez.

Er þetta virkilega rétt? Ætlar Venesúela virkilega að fara að fordæmi Íslendinga og stilla klukkuna löngu á undan sólartíma og taka upp sama tíma og Nýfundnaland um áramótin? Allir sem vilja vita, gera sér grein fyrir því að Reykjavík er einum og hálfum tíma á undan hnattstöðu sinni í tímasetningu sem gerir það að verkum að sólin nær ekki inn á svalirnar hjá mér fyrr en klukkan 14.00 í stað þess að skína á þær fyrir klukkan 13.00.

Ég renndi augunum snögglega yfir netið og sá strax eina síðu þar sem talað er um að það eigi að seinka klukkunni um hálftíma um áramótin en ekki flýta henni. Þá fer þetta að verða skiljanlegra. Venesúela liggur á milli 60°V og 73°V. Höfuðborgin Caracas er nærri miðjunni eða um 67°V. Það þýðir að sólin er hæst á lofti í höfuðborginni fjórum og hálfum tíma eftir sömu sólarstöðu í Greenwich. Ef ég hefi skilið síðuna rétt, er Venesúela einfaldlega að rétta af skekkjuna og miða hádegi við hádegisstöðu sólar í Caracas sem er hinn eini rétti tími.

Klukkan í Nepal er 5 klukkustundum og 45 mínútum á undan Greenwich. Það kalla ég einstakan tíma og mun réttari en fáránleiki klukkunnar á Íslandi, enda er Katmandu um það bil 85°Austur sem svarar til rúmlega fimm og hálfs tíma mismunar frá Greenwich!

Það þarf kannski að kenna þeim á klukku í Hádegismóunum?

http://www.timeanddate.com/worldclock/timezone.html?n=472

22. ágúst 2007 - Um ættfræðina


Ég á mér uppáhaldsvegg hér í litlu íbúðinni minni, en veggurinn góði er þakinn bókum, þykkum bókum og þunnum bókum, niðjatölum, manntölum, stéttatölum, byggðatölum, upplýsingum um vesturfara og afkomendur þeirra, en einnig eru í hillunum allmargar bækur sem tengjast ættfræðinni óbeint eins og jarðabækurnar og einstöku ævisögur með ættfræðiívafi. Þegar ég er að grúska í ættfræðinni er stutt að teygja sig í bækurnar og ná í þær sem ég þarf að lesa í það og það skiptið.

Ég viðurkenni fúslega að ég á ekki til allar íslenskar ættfræðibækur þótt ég eigi flestar þær sem komið hafa út á síðustu árum, en helst vantar mig fjöldann allan af litlum niðjatölum sem komið hafa út í tengslum við niðjamót sem njóta sífelld meiri vinsælda og eru haldin víða um land á hverju sumri.

Öfugt við suma er ég ekki það sem kallað er ættfræðingur. Ég reyni að beita fræðilegum aðferðum hvað snertir vinnslu úr frumgögnum þar sem prentaðar heimildir hrökkva ekki til og svo reyni ég að skrá heimildir eins kostgæflega og mögulegt er. Það gefur mér samt engan rétt á að nota þetta ágæta vísindaheiti yfir grúskið mitt. Hólmfríður Gísladóttir fyrrum formaður Ættfræðifélagsins og atvinnumanneskja í faginu notar starfsheitið ættgreinir um rannsóknir sínar.

Á þriðjudag birtist viðtal við ónefndan ættfræðing í Ríkisútvarpinu Rás 1. Þar hélt hann því fram að ættfræðibækurnar hans skiptu tugum þúsunda. Ég fór að virða fyrir mér vegginn góða með ættfræðinni. Merkilegt nokk, þá á ég rúmlega sex hundruð ættfræðirit og er yfirmáta stolt yfir þessum bókakosti. Hvað þarf ég marga svona veggi til að komast upp í tugi þúsunda? Ef mig misminnir ekki á Friðrik Skúlason rúmlega þúsund ættfræðibækur og á hann þó eitt af stærstu ættfræðisöfnum á Íslandi. Var ættfræðingurinn ónefndi kannski bara að ýkja aðeins um bókakostinn sinn?

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

21. ágúst 2007 - Um mígildi í miðborginni


Undanfarna daga hefur orðið vart við ramakvein í þeim bloggurum sem búa í miðborg Reykjavíkur yfir hávaða í unglingum og því að migið sé utan í hús þeirra. Íbúar miðborgarinnar geta sjálfum sér um kennt.

Ég bý og vinn í Árbæjarhverfi og kem orðið sjaldan niður í 101 Reykjavík og enn sjaldnar er ég að þvælast þar á kvöldin og nóttunni hvað þá að ég mígi utan í húsin hjá miðbæjarrottunum. Ástæðan er einföld. Ég vil hafa kyrrð og ró í kringum mig á nóttunni, ekki þau læti sem eru í miðborg Reykjavíkur. Ef ég vildi hafa slík læti við heimili mitt myndi ég selja eins og skot í Árbænum og flytja niður í bæ. Þetta er nákvæmlega það sem miðbæjarrottunum stendur til boða. Ef þær vilja frið og ró í kringum sig, selja þær einfaldlega útmigna kofana sína og flytja í rólegt úthverfi eins og Breiðholt eða Árbæ, svo ekki sé talað um nærsveitir á borð við Mosfellsbæ.

Varðandi miguna má hinsvegar benda borgaryfirvöldum á einfalda bráðabirgðalausn sem notuð er í Amsterdam á Queens day þann 30. apríl, en borgaryfirvöld þar töldu betra að koma upp slíkri salernisaðstöðu fyrir karla fremur en að unglingarnir skiluðu bjórnum út í síkin frægu.

-----oOo-----

Ég skrapp upp á Akranes á mánudag (fyrir íbúa miðborgarinnar skal þess getið að hægt er að fá póstkort með myndum af Akranesi). Á leiðinni til baka lenti ég fyrir aftan gamla konu á bifreiðinni TK-306. Hún ók á um 60 km hraða þar sem hámarkshraðinn var 90 km/klst og datt aldrei til hugar að víkja fyrir hinni miklu eftirmiðdagsumferð sem vildi komast hraðar. Því horfði ég á eftir hverjum bílnum á fætur öðrum taka dauðasjensinn í von um að komast framfyrir gömlu konuna og held ég að öllum hafi tekist það. Allavega heyrði ég ekki um neitt dauðaslys á Vesturlandsveginum þar sem bíll ók framan á þann sem á móti kom.

Er ekki samt kominn tími til að ráða gömlu konunni heilt og benda henni á að það ganga strætisvagnar á milli Akraness og Reykjavíkur auk Sæmundarrútunnar á milli Reykjavíkur og Borgarness.

-----oOo-----

Loks fær Þórður áhafnarkapteinn á Monarch of the Seas hamingjuóskir með 38 ára afmælið. Nú er hann aftur búinn að ná Schumacher og Hakkinen í aldri.

mánudagur, ágúst 20, 2007

20. ágúst 2007 - 17. júní í ágúst?


Auðvitað ekki. Engum dettur til hugar að halda upp á 17. júní í ágúst þótt Hollendingar haldi upp á daginn 30 apríl og Norðmenn í maí. En það má samt velta því fyrir sér af hverju 17. júní er ekki jafnmikilvægur og áður fyrir þorra almennings en hátíðarhöldin komin yfir á ágúst mánuð.

Í mínu ungdæmi var 17. júní helsti samkomudagur sumarsins ásamt 1. maí. Þessa tvo daga þyrptust fjöldi Reykvíkinga niður í bæ og héldu daginn hátíðlegan undir lúðrablæstri og söng. Ég ætla ekki að eyða innslættinum í að ræða af hverju 1. maí hefur orðið jafndauflegur og raunin er undanfarin ár, en af hverju 17. júní? Allavega getum við ekki kennt vondri verkalýðsforystu um dauflegan 17. júní.

Ég viðurkenni fúslega að ég hefi ekki farið niður í bæ í mörg ár á 17. júní. Ég nenni ekki að fara niður á Austurvöll eða vestur í gamla kirkjugarð til að heyra gamla og leiðinlega pólitíkusa mæra dauða pólitíkusa, sjálfa sig og ríkisstjórnina. Ég nennti ekki heldur austur á Þingvelli á kristnihátíð sumarið 2000 þar sem ein þjóð sat í stólum og hin þjóðin, þjóðin í landinu, átti að horfa undirdánug á alþingismennina hreykja sér.

Öfugt við þjóðhátíðardaginn þar sem þjóðinni gefst kostur á að hylla pólitíkusana og forsetann ásamt mökum, þá erum við nú með tvær miklar hátíðir í ágúst, jafnvel fleiri ef við teljum verslunarmannahelgina og þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum með, þar sem þjóðin skemmtir sér á eigin forsendum á Gay Pride og Menningarnótt.

Hvernig væri að hylla íslensku þjóðina á 17. júní 2008 í stað þess að hylla forsætisráðherrann og forsetann og reyna þannig að endurvekja 17. júní sem ÞJÓÐhátíðardag?

sunnudagur, ágúst 19, 2007

19. ágúst 2007 - Lifandi bókasafn


Hvar varst þú í dag þegar ég ætlaði að heimsækja þig í tjaldið við Austurvöll í dag? spurði ein vinkona mín sem átti leið um miðbæinn í gær. Svarið var einfalt. Ég var í útláni!

Ég tók að mér það merkilega hlutverk á “menningarnótt” að taka þátt í lifandi bókasafni á Austurvelli. Ekki get ég sagt að hlutverkið hafi verið mjög íþyngjandi, enda vantaði mikið upp á að allt væri tilbúið rétt áður en opna átti “bókasafnið” og hálflosaralegur bragur á því framan af. Þó gekk öllu betur þegar frá leið og var ég lánuð út nokkrum sinnum til fólks sem vildi fræðast um transgender og mig.

Ég er ekki frá því að slíkt lifandi bókasafn eigi fullan rétt á sér, ekki einvörðungu á “menningarnótt” heldur og við mörg önnur tækifæri. Það hefði mátt fínslípa vinnubrögðin við skipulag bókasafnsins og hægt er að gera alveg stórkostlega uppákomu með slíkri lifandi baráttu gegn fordómum af ýmsu tagi.

Meðfylgjandi mynd er frá annarri svipaðri uppákomu undir sömu merkjum og hér heima, þ.e. "all different-all equal"

laugardagur, ágúst 18, 2007

18. ágúst 2007 - Ég eigna mér afrek!


Um síðustu helgi var haft samband við mig. Vinafólk í Hvalfirði var með Vestur-íslenska fjölskyldu í heimsókn og vantaði að finna ættingja á Íslandi. Ekkert mál hugsaði ég og nokkrum mínútum síðar sendi ég þeim 16 síðna skjal um fólkið sem flutti til Kanada ásamt niðjum eina bróðurins sem eftir var á Íslandi. Áður en ég sendi þeim skjalið renndi ég yfir það og sá að Herdís Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og bloggvinkona mín af Moggabloggi er meðal niðjanna og því sendi ég henni afrit af skjalinu.

Um kvöldið hringdi ég í Herdísi og benti henni á hvernig hægt væri að nálgast þessa ættingja sína. Að sjálfsögðu hlaut ég miklar þakkir fyrir, ekki síst frá föður Herdísar sem hafði staðið í þeirri trú að hann væri eins og ættlaus, enda hefi ég sannfrétt að hálfgert ættarmót hafi verið haldið á fimmtudagskvöldið þar sem Herdís og fjölskylda hittu Vestur-íslenska ættingja sína.

Sannleikurinn er samt sagna bestur.

Einn hinna yngri afkomenda Vesturfaranna dvaldi um skeið á Íslandi fyrir nokkrum árum og ætlaði að leita hér ættingja sinna. Hann gaf mér upp nauðsynlegar upplýsingar um skagfirskan uppruna sinn og í framhaldi af því hafði ég samband við Magnús Haraldsson verkfræðing og sérfræðing í skagfirskum ættum. Hann sendi mér síðan niðjatal frá Jóni Pálssyni og Margréti Halldórsdóttur sem bjuggu meðal annars á Álfgeirsvöllum í Lýtingsstaðahreppi um miðja nítjándu öld en öll uppkomin börn þeirra nema eitt fluttu vestur um haf á síðari hluta nítjándu aldar. Áður en ég fékk niðjatalið í hendur hafði ég tapað netfangi drengsins. Er ég fann það aftur, var hann farinn aftur til síns heima. Því lá niðjatalið og rykféll í tölvunni minni þar til beiðnin kom síðasta sunnudag.

Einasta afrekið mitt að var átta mig á að bloggvinkona mín og einn niðjanna var sama manneskjan! Heiðurinn af öllu hinu er Magnúsar Haraldssonar.

föstudagur, ágúst 17, 2007

17. ágúst 2007 - Klaufaskapur?


Í gær voru 30 ár síðan Elvis nokkur gaf upp öndina og þá rifjaðist upp atvik sem ég lenti í á tíu ára dánardægri gamla mannsins.

Það var að kvöldi 16. ágúst 1987 sem við vorum að koma til Immingham í Englandi á honum Álafossi og ég á vaktinni. Nokkru áður en komið var að lóðsinum í mynni Humberfljótsins var ég mætt niður í vél eins og þykir sjálfsagt þegar siglt er innan um mikla skipaumferð og dundaði mér við að gera allt klárt fyrir komu til hafnar, skipta vélunum yfir á léttara brennsluefni af svartolíu og fasa aðra ljósvél inn á netið ef eitthvað skyldi bregða útaf.

Skyndilega heyrði ég í gegnum allan hávaðann að það dró niður í stóru ljósavélinni. Vitandi að ég hefði engan tíma til athugana á ástandinu flýtti ég mér að einni af minni ljósavélunum og startaði henni. Í sömu svipan varð allt svart. Þar sem við vorum skyndilega orðin stjórnlaus á fimmtán mílna ferð innan um hundrað skip, gaf ég mér ekki tíma til að bíða þessar fáu sekúndur eftir að neyðarlýsingin kæmi á, heldur stökk í átt að rafmagnstöflunni í þeim tilgangi að setja inn ljósavélina. Í myrkrinu varð mér það hinsvegar á að rekast á loka í gólfinu og steyptist á hausinn og niður á milli gólfpalla. Þrátt fyrir logandi sársauka í hægri öxlinni hélt ég áfram og sló inn ljósavélarrofanum með betri hendinni og síðan að gangsetja þau tæki sem höfðu slegið út við hið skyndilega rafmagnsleysi, síðan að koma inn fleiri ljósavélum og gat þá loks farið að aðgæta eigið líkamsástand.

Ég hafði einhverntímann lesið að ein manneskja gæti sett handlegginn í liðinn ein með því að leggjast og láta handlegginn hvíla niður. Ég prófaði þetta og fann þá hvernig handleggurinn small í liðinn aftur. Síðan var bara að halda áfram að vinna eins og ekkert hefði í skorist þótt ég væri enn með mikla verki, meðan siglt var upp fljótið til Immingham og aftur út þaðan eftir að skipið hafði verið losað og lestað á nokkrum klukkustundum um nóttina.

Sólarhring síðar var svo komið til Antwerpen þar sem ég komst loks til læknis sem leit á öxlina á mér og sendi mig heim með næstu flugvél. Þar með lauk sjómennsku minni til tveggja áratuga, en ég hefi ekki verið í föstu starfi á sjó síðan.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

16. ágúst 2007 - II – Aldrei nokkur maður hengdur .....

...fyrir neitt á Íslandi segir Eiríkur Ormur Víglundsson hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í viðtali við DV í gær í tilefni af klúðrinu vegna kaupa og breytinga á væntanlegri Grímseyjarferju.

Hjúkkitt segi ég bara. Eins gott að eiga það helvíti ekki yfir höfði sér þegar haft er í huga að sífellt er verið að þrengja á vikmörkum og herða á refsingum vegna umferðarlagabrota eins og þess að fara óvart yfir hámarkshraðann eða gleyma að gefa stefnuljós.

-----oOo-----

Ég hefi ekki séð DV í dag, en mér skilst að þar sé sagt frá því að ég hafi móðgast og sé hætt að blogga á Moggabloggi. Það er alrangt.

Ástæður þess að ég tók mér frí frá Moggabloggi eru þær að ég hefi bloggað á tveimur stöðum frá því um síðustu áramót, en auk þess er ég ekki ánægð með beintengingar bloggsins við fréttir á Mbl.is. Ég tók það fram á síðustu færslu minni á Moggabloggi að ég telji mun heppilegra að tengja fréttablogg við fréttirnar sjálfar en ekki við einstakar bloggsíður. Slíkt kemur í veg fyrir að hinir og þessir bolir vaði uppi og geri “óskunda” á blogginu eins og sífellt er að eiga sér stað.

En móðguð er ég ekki og líkar auk þess vel við þægilegt notendaviðmót Moggabloggsins!

16. ágúst 2007 - Olíuhreinsunarstöð í Hvestudal?


Nú hefur byggðarstjórn Vesturbyggðar sent frá sér viljayfirlýsingu vegna hugsanlegrar olíuhreinsistöðvar í Arnarfirði. Mér finnst þetta arfaslök hugmynd þótt verksmiðjan verði í hvarfi frá villunum þeirra hvort heldur er á Bíldudal eða á Patreksfirði.

Ég efa ekki að til sé nægilegt land undir slíka verksmiðju í Hvestudal, en er til nægilegt byggingaland undir 2000 nýja íbúa á Bíldudal? Það er alveg ljóst að ef af verður, mun þurfa að byggja heilt þorp undir starfsfólkið sem starfar við verksmiðjuna og fjölskyldur þeirra. Í fljótu bragði sé ég ekki hvar slíkt þorp getur risið í einum fallegasta firði Íslands, þá með tilliti til nægilegs undirlendis, snjóflóðahættu og samgangna. Það þarf einfaldlega að byggja upp nýtt samfélag frá grunni ef reisa á verksmiðjuna við vestanverðan Arnarfjörðinn.

Persónulega sé ég enga þörf á að reisa olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Það er nóg af þeim fyrir í heiminum á sama tíma og olíubirgðir heimsins fara þverrandi. Slík verksmiðja myndi því einvörðungu vinna í samkeppni við verksmiðjur úti í heimi og hugsanlega ávallt vera í varnastöðu gagnvart hinum verksmiðjunum vegna fjarlægðar frá mörkuðum og erfiðleika við mönnun verksmiðjunnar, en langstærsti hluti starfsfólksins yrði aðfluttur. Það má því velta fyrir sér hvaða lausn yrði fólgin í olíuhreinsunarstöð fyrir íbúana sem fyrir eru.

Það er vissulega rétt að það þarf að efla byggðir Barðastrandarsýslu, en það gerist ekki með mistökum á borð við olíuhreinsunarstöð sem myndi að auki eyðileggja það litla sem fyrir er af atvinnu íbúanna, sjávarútvegi og nýju kalkþörungaverksmiðjunni.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

14. ágúst 2007 - Schnilld

Ég get ekki annað en dáðst að Henry Birgi (Gunnarssyni?) frá Húsavík fyrir snilldarlegar færslur á Moggabloggi að undanförnu:

http://blogg.visir.is/henry/2007/08/14/a-topp-moggabloggsins-a-sjo-dogum/#comment-1344

Svo bið ég Stefán Pálsson afsökunar á að hafa grunað hann um græsku :)

mánudagur, ágúst 13, 2007

14. ágúst 2007 - Bolur Bolsson


Ég hefi nokkrum sinnum látið í ljósi efasemdir mínar vegna ótrúlegrar meðvirkni sumra bloggara á Moggabloggi sem og andleysi nokkurra fréttabloggara. Þessar færslur mínar hafa farið mjög fyrir brjóstið á sumum bloggurum á Moggabloggi meðal annars Maríu Kristjánsdóttur sem er ekki búin að fyrirgefa Blaðinu þá yfirsjón að birta mynd af fórnarlambinu en ekki gerandanum þegar einstakir bloggarar skrifa illa um annað fólk

Það að María Kristjánsdóttir skuli taka til sín skrif mín um meðvirknina verður að skrifast algjörlega á Maríu sjálfa, en sjálf kaus ég að nafngreina ekki það fólk sem ég hafði í huga er ég skrifaði um Lúkas, naglabelti til að stöðva bifhjól eða harmleikinn á Sæbrautinni. Öðru máli gegnir um fréttabloggarana sem sumir hverjir hafa gefið lítið sem ekkert af sér þegar þeir endurtaka fréttirnar á meðan aðrir skrifa hundleiðinlegar og óspennandi langlokur um fréttirnar til að fróa athyglissýkinni.

Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki að hefja linnulausan áróður gegn ofangreindu liði, en áður en af því varð birtist Bolur Bolsson eins og engill á Moggabloggi. Af umsögnum Bolsins virðist hann vera sendibílstjóri, Lifrarpollsaðdáandi, Valsari og almennt séð ákaflega grunnhygginn og þver sem setur met í fjölda af bloggfærslum. Í örfærslum sínum fá margir það óþvegið, KR-ingar, Manchester United, útlendingar, herstöðvaandstæðingar, Stefán Pálsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Samúel Örn Erlingsson. Fáir fá hrós frá kappanum og þá helst einhver golfari sem drekkur Carlsberg í morgunmat.

Ljóst er að hér fer enginn venjulegur bloggari því eftir minna en viku á blogginu hefur honum tekist að skríða upp vinsældalistann og alla leið á toppinn, skotið öllum afturfyrir sig, fréttabloggurum, Ellý Ármanns og mér. Nú veltir fólk því fyrir sér hvaða snillingur er hér á ferð, hver eðalbloggari hann er þegar hann er ekki að skrifa í nafni Bols Bolssonar, því ljóst má vera að hér fer mjög ritfær maður sem hefur gaman af að hneyksla náungann og líklegt að hann skrifi gegn eigin skoðunum
.

Allavega er ljóst að hér er kominn maður sem virðist hafa mikla andúð á Moggabloggi og hefur þegar sent því kaldar kveðjur með færslum sínum. Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi skammað sjálfan sig í einni færslunni í þeim tilgangi að hylja slóð sína?

Hvar var Stefán Pálsson þegar Bolur Bolsson var að setja færslur sínar á netið?

laugardagur, ágúst 11, 2007

12. ágúst 2007 - Rekin úr gönguklúbbnum!


Eins og lesendur mínir vita, hefi ég iðulega montað mig af afrekum mínum á göngusviðinu og þá sérstaklega fjallgöngum mínum og öðrum óbyggðaferðum. En nú er illt í efni því það hefur komist upp um mig.

Ég mætti á gleðigöngu Hinsegin daga að venju í gær og þekkt fyrir yfirlæti mitt, gat ég ekki látið sjá mig með almúganum og ganga niður allan Laugaveginn frá Hlemmtorgi og niður í Lækjargötu. Því lét ég mig hafa það að hengja nokkrar bleikar blöðrur á tveggja tonna Ford pallbíl og aka síðan alla leiðina niður í bæ og roðnaði ekki einu sinni þótt 50 þúsund manns horfðu á mig aka í gegnum mannþvöguna. Því miður eru til fáar myndir af afreki mínu, en þó bregður einhverjum fyrir í einkasöfnum þar sem múgurinn starir hugfanginn á mig.

Eftir gleðigönguna var kallað til skyndifundar í stjórn gönguhópsins og ég rekin úr klúbbnum með skömm. Ég verð sennilega að ganga ein á fjöll í framtíðinni.

-----oOo-----

Svo fær Gurrí hamingjuóskir með afmælið í dag og getur nú byrjað að safna þjóðbúningadúkkum.

föstudagur, ágúst 10, 2007

10. ágúst 2007 - Ættarmót gamalla vinstrimanna?

Á fimmtudagskvöldið mætti ég niður að Tjörn til að taka þátt í kertafleytingu. Ég hefi mætt reglulega frá 1997 og held ég geti fullyrt að ég hafi ekki misst úr eitt einasta skipti síðan þá. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem ég tek þátt sem vottar fyrir úrkomu að kvöldi minningardags fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar. Þó rigndi ekkert meðan á athöfninni stóð þótt eitthvað byrjaði að blotna á leið minni frá Tjörninni og í gegnum miðbæinn að bílnum sem var vel geymdur hjá Seðlabankanum.

Það var mun færra í þetta sinn en oftast áður. Fyrir bragðið saknaði ég margra gamalla vinstrisinna sem ávallt mættu og rifjuðu upp gamlar minningar frá Keflavíkurgöngum og sellufundum. Er það nema von? Þessar tvær dagsetningar friðarsinna, minningarathöfnin við Tjörnina í ágúst og friðargangan á Þorláksmessu eru sem ættarmót gamalla vinstrimanna sem hittast orðið aldrei nema við þessi tvö tækifæri eða þá við jarðarfarir gamalla baráttufélaga.

Það má ekki vanvirða fólkið sem ég hitti. Þannig staðfesti Björk Vilhelmsdóttir við mig að konan sem býr nú á fæðingarstað móður minnar við Lokastíg er systir hennar. Guðmundur Georgsson læknir var þarna og margan áhrifamanninn og konuna sá ég einnig sem teljast á vinstri væng stjórnmálanna en sem ég þekki ekki allt persónulega.

Regndroparnir voru ekki hið versta. Ef ég held rétt, þá rigndi í Nagasaki morguninn sem sprengjan féll. Það var ekki eins góð og heilnæm rigning.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

9. ágúst 2007 - Kappakstur við tímann!

Á miðvikudagsmorguninn þurfti ég að skreppa bæjarleið eftir næturvaktina. Það kom ekki til af góðu því gamli beinirinn minn (routerinn) sem hafði þjónað mér dyggilega í þrjú ár gaf upp öndina þegar starfsmenn Landsnets við Brennimel brugðust mér á þriðjudag. Ég þurfti því að fá mér nýjan beini og sótti hann strax um morguninn til Símans sem stendur sig ávallt með prýði þegar ég kvarta og kveina enda hefi ég verið með nettengingu frá Símanum síðan á síðustu öld.

Á leiðinni heim með nýjan beini í kassa við hlið mér, veitti ég því athygli að maður sem kom akandi niður Ártúnsbrekkuna blikkaði framljósunum án afláts. Takk, hugsaði ég og sló af niður fyrir 80 km/klst. Rétt á eftir sá ég hvar lögreglan var að mæla hraða bifreiða sem stefndu upp Ártúnsbrekkuna.

Það er engin ástæða til að kvarta yfir ökumanninum sem lét okkur vita. Lögreglumaður í Svíþjóð sem ég þekki og ræddi við fyrir löngu, benti á að slík gáfumenni fengju alla umferð til að hægja á sér og þá er tilgangnum náð, ekki satt! Auðvitað er möguleiki á því að lögreglan hugsi frekar um að safna sektum, en það gildir ekki um Svíþjóð þar sem markmiðið er að draga úr umferðarhraða.


-----oOo-----

Ég vil svo minna á kertafleytinguna við Reykjavíkurtjörn og við Minjasafnstjörnina á Akureyri klukkan 22.30 í kvöld til minningar þeim fjölmörgu sem létu lífið í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki árið 1945.

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

8. ágúst 2007 - Lánið leikur við Þórð.


Ekki veit ég hvað Þórður sjóari er að kvarta yfir sænsku stúlkunni sem er yfirmaður hans. Hann vælir eins og kelling af því einu að fararstjórinn hans er kona. Eða sé ég votta fyrir pínulítilli öfund?


Karin Stahre-Janson frá Strömstad á landamærum Svíþjóðar og Noregs er skipstjóri á skemmtiferðaskipinu Monarch of the Seas, 74,000 tonna og 268 metra löngum dalli með 850 manna áhöfn og pláss fyrir 2744 farþega. Næstráðandi hennar og aðstoðarkapteinn um borð er Íslendingurinn og göngufélagi minn Þórður.

Karin er 38 ára gömul eða jafngömul Þórði og bæði hafa þau gaman af að geysast um á mótorfákum þegar þau eru í landi og mér virðist í fljótu bragði hún vera ógift eins og Þórður. Allavega sé ég hvergi getið um maka eða börn. Spurningin er bara hvort Þórður þurfi ekki að skella sér á köfunarnámskeið þegar hann kemur heim í frí til að standa jafnfætis Karin í sportinu.


Nema auðvitað að Karin hafi fengið hærri sekt síðast þegar þau voru í landi og fóru saman í hjólatúr. Hvað veit ég? Allavega er Þórður öfundsverður af svona myndarlegum yfirmanni.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

7. ágúst 2007 - Brotið á grundvallarreglu

Ég hefi löngum haft þá grundvallarreglu í heiðri að stunda ekki viðskipti á frídegi verslunarmanna þeim til heiðurs. Ég hefi 360 aðra daga til að stunda viðskipti og get alveg setið á mér þennan dag sem og þá daga sem verslanir eru lokaðar.

Í gær braut ég á þessari góðu reglu. Þegar ég heyrði að það væru fjórfaldir vildarpunktar á bensínstöðinni renndi ég við og fyllti næstum tóman bensíntankinn og mundi ekki eftir gamla heitinu fyrr en heim var komið. Ég reyndi svo hugga mig við að slöngutemjarar á bensínstöðvum væru í Einingu en ekki í VR.

Ég lofa að standa mig betur næst verði ég í Reykjavík, en ekki á ferð um landið.

mánudagur, ágúst 06, 2007

6. ágúst 2007 - Reykleysi í 7 ár með meiru


6. ágúst er bæði slæmur dagur og góður dagur. Eitt ljótasta hryðjuverk seinni heimsstyrjaldar var framið þennan dag árið 1945 og með kjarnorkuárásinni á Hiroshima hófst nútíminn í hervæðingu þjóðanna, kjarnorkuöldin.

6. ágúst árið 1975 fæddist frumburðurinn, nú harðgift tveggja barna móðir í Garðabæ. Það er sjálfsagt og gott að óska henni til hamingju með daginn og megi hún njóta dagsins sem best.

Í tilefni af 25 ára afmæli dótturinnar og henni til heiðurs hætti ég að reykja þennan sama dag árið 2000 eftir að hafa verið stórreykingamanneskja í 30 ár. Ég hefi enn ekki treyst mér til að reykja eina einustu sígarettu eftir það, en baráttan við nikótínið eftir síðasta smókinn stóð yfir í sex mánuði. Þótt liðin séu sjö ár frá síðasta smóknum koma ennþá þau augnablik þar sem mig langar í sígarettu og sýnir það ágætlega hve fíknin getur verið langvarandi.


Þegar haft er í huga að talan 7 hefur oft verið talin happatalan mín, finnst mér alveg tilvalið að halda upp á sjö ára reykleysi. Þótt ég hafi ekki hugsað mér að taka þátt í áróðri góðra manna gegn Moggabloggi meir en ég hefi beint spjótum mínum að hinni varasömu meðvirkni auk endursagna frétta á Moggabloggi, þá ætla ég að taka mér hvíld frá Moggabloggi í nokkra daga á meðan ég velti fyrir mér stöðu minni í bloggheimum.

Það er þó aldrei að vita nema ég læði inn einni og einni færslu jafnframt færslum mínum á http://velstyran.blogspot.com/

sunnudagur, ágúst 05, 2007

5. ágúst 2007 - Tractatus Logico-Philosophicus

Um það er menn eigi vita, eiga þeir að þegja.

Eitthvað á þessa leið minnir mig að pistill númer 7.0 eftir Ludwig Wittgenstein hafi verið þýddur á íslensku í ofangreindu riti. Í tilefni dagsins ætla ég að taka þess orð til mín og þegja í dag.

föstudagur, ágúst 03, 2007

4. ágúst 2007 - Breytt fréttamat eða betra þjóðfélag?

Á árum áður þótti það vart fréttnæmt fyrir fjölmiðla ef einhver sjómaður datt fyrir borð af skipi sínu og drukknaði. Það kom kannski smáklausa um það í einhverju dagblaði og ekkert endilega á forsíðu eða baksíðu. Svipað átti sér stað ef önnur dauðaslys áttu sér stað, t.d. önnur vinnuslys og jafnvel lítið fjallað um umferðarslys nema þegar fleiri manneskjur fórust í hverju slysi. Heima sátu nánustu aðstandendur og grétu.

Þetta var kannski eðlilegt. Ef hræðilegir atburðir ske oft og stundum oftar en einu sinni í viku, hætta slysin að verða fréttnæm ef aðstæður eru ekki þess alvarlegri. Fyrir fjórum eða fimm áratugum síðan voru að farast fleiri tugir á hverju ári og sem mest 104 menn á einu ári, flestir í sjó- og umferðarslysum. Slagsmál á dansstöðum voru fremur regla en undantekning fyrir hálfri öld og fjöldaslagsmál og það að gera atlögu að lögreglustöðinni þóttu árviss viðburður á gamlárskvöld á hverju ári.

Í dag þykir fréttnæmt ef einhver ekur of hratt eða gleymir að spenna öryggisbeltin svo ekki sé talað um jafnalvarlegan atburð eins og eyrnabitið um síðustu helgi. Eigum við ekki að vona að hið breytta fréttamat sé merki um betra þjóðfélag?

3. ágúst 2007 - Á ég að hætta að kvarta?

Með því að Mannlíf birti launin mín fyrir árið 2006 í tekjublaðinu er ljóst að ekki þýðir lengur að vera með kvartanir, að minnsta kosti ef borið er saman við karlana sem eru á sama lista. Það er hinsvegar mjög erfitt að keppa við heimavinnandi “húsmæður” um hlunnindin af því að vera heima.

Með því að Mannlíf birti tekjurnar get ég með góðri samvisku sleppt því að telja fram á blogginu eins og einn krafðist. Um leið fæ ég á tilfinninguna að svona birting sé ekki alvond. Ég fæ til dæmis á tilfinninguna að ég sé einhvers virði í samfélaginu. Eins og ég hefi áður bent á, undirritaði ég einhverntímann einhverja trúnaðaryfirlýsingu sem meinar mér að gefa upp launin mín, en þá er bara að rölta út í búð og kaupa Mannlíf eða þá að skoða bloggið hennar Guðríðar Haraldsdóttur .

Svo sé ég líka að forstjórinn er með meira en fjórfaldar tekjur mínar á mánuði og því spurning um að krefjast launaleiðréttingar!

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

2. ágúst 2007 - Að eiga fyrir skattinum eftir andlátið

Ein uppáhaldsfrænka mín átti fjölda barna með manni sínum sem var sjómaður. Oft var erfitt í koti þeirra, en þau börðust í sameiningu fyrir velferð barna sinna þrátt fyrir fátækt og basl. Þegar loksins fór að rofa til í fjárhag þeirra og eldri börnin farin að heiman og farin að stofna eigin heimili, kom stóra áfallið. Faðirinn fékk hjartaáfall og hné niður örendur um borð í skipi sínu.

Hann lést í desember nokkrum árum áður en staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp á Íslandi. Í stað bjartrar framtíðar tóku við erfiðleikar og barátta við skattinn. Eftir að hafa verið á hinum ýmsu fiskiskipum mestallt sitt líf, hafði hann verið með góð laun í heilt ár á nýlega keyptum skuttogaranum og nú þurfti ekkjan að greiða keisaranum það sem keisaranum bar.

Hún frænka mín hafði það af. Hún fékk að vísu einhvern afslátt af skattinum og útsvarinu, en mest um vert var að hún skilaði sínu til samfélagsins með stolti rétt eins og fátæka ekkjan í dæmisögu Nýja testamentisins. Í dag er hún á elliheimili og getur stolt litið yfir farinn veg og sagt við hvern sem heyra vill:
“Ég hefi skilað mínu til samfélagsins.”

Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er vinafólk mitt sem fékk kröfu frá skattinum á mánudaginn. Faðir hans lést á síðasta ári í byrjun mánaðar eftir að hafa fengið greidd eftirlaun með persónuafslætti þann mánuðinn. Börnin gerðu upp dánarbúið og öll enduðu þau sátt við sitt. En fjarri þeim var stóri bróðir, Ríkið.

Ríkið (eða kannski keisarinn umræddi) vill ávallt sitt. Nú sitja systkinin uppi með skattaskuld vegna manns sem lést í byrjun mánaðar en hafði ekki vit á að deyja fyrir mánaðarmót til að sleppa við skuldina og persónuafsláttinn. Allt vegna þess að ríki og lífeyrissjóður vinna ekki saman.

Af hverju eru tekjuskattar ekki einfaldlega strikaðir út við andlát?

miðvikudagur, ágúst 01, 2007

1. ágúst 2007 - Laun þín eru ....

....nú til sýnis, segir Borgar Þór Einarsson formaður SUS í Fréttablaðinu í gær. Þar kvartar hann sáran yfir þeim yfirgangi skattayfirvalda að láta skattskrár einstaklinga liggja frammi í Tollstöðinni í tvær vikur eftir birtingu skattaálagningar.

Öfugt við drenginn, þá fagna ég þessu árlega framtaki skattayfirvalda. Nú getur hver sem er séð heildartekjur mínar á síðasta ári, en mér er óheimilt að segja frá þeim af hálfu vinnuveitandans. Þó getur hver sem er séð grunnlaunin með því að skoða launatöflur Vélstjórafélagsins eða hvað sem það heitir nú á þessum síðustu og verstu tímum.

Því miður segir skattskráin einungis hverjar heildartekjur mínar eru frá samtals þremur aðilum, en rétt eins og hjá fjölda Íslendinga, duga einfaldar tekjur illa til lífsframfæris. Ekki sést heldur hversu lág grunnlaunin eru, en rétt eins og hjá mörgum þarf að skila svo og svo mikilli yfirvinnu og vaktavinnu og aukavinnu til að láta enda ná saman, reka tíu ára gamlan bílinn og greiða afborganir og viðhald af íbúðarkytrunni, fæða mig og klæða og kannski njóta aðeins lífsins endrum og eins. Þrátt fyrir barlóminn telst ég heppin samanborið við fjölda fólks á Íslandi sem vart á til hnífs og skeiðar í öllu góðærinu.

Á landsfundi Samfylkingarinnar flutti Bjarni Ármannsson erindi þar sem hann hvatti til þess að launaleynd yrði aflétt á Íslandi. Það liðu ekki margar vikur frá landsfundinum þar til hann varð atvinnulaus þótt ekki vilji ég setja samasem merki á milli ágæts erindis hans og skyndilegs brotthvarfs úr starfi.

Sumum kann að þykja það brot á persónufrelsi að skatturinn sé gefinn upp opinberlega, en þeim hinum sömu finnst ekkert athugavert við að stúlkan við eitt borð má ekki vita laun karlmannsins á næsta borði. Slíkt kallast persónufrelsi á tungumáli SUS þótt það viðhaldi launamisrétti kynjanna. Sveiattan!