föstudagur, ágúst 31, 2007

31. ágúst 2007 - Fortíðarþrá!


Einhverjir leiðinlegustu bílar sem ég ek heita Landrover. Ég hefi “notið” þess að aka svonefndum Landrover Defender sem mun vera einskona her- eða landbúnaðarútgáfa af þessum jeppum og fæ alltaf þá tilfinningu að ég sé komin aftur til unglingsáranna þegar annar hver bóndi átti svona eðalvagn. Allt hristist og glamrar eins og maður sé kominn á gömlu malarvegina jafnvel þótt rennt sé eftir eggsléttu asfaltinu. Skiptir þá litlu máli hvort ekið er á Defender eða Discovery. Að auki er hávaðinn slíkur að nota þarf heyrnarskjól til að glata ekki síðustu leifunum af heyrn sem eftir er. Þá eru lopapeysan og föðurlandið nauðsynleg til að halda líkamshitanum eðlilegum á keyrslunni.

Í byrjun áttunda áratugarins komu Range Rover sem í Morgunblaðinu í dag eru sagðir vera undirútgáfa af Landrover. Ekki voru þeir alveg gallalausir heldur, þótt sagðir væru vera lúxusjeppar. Lengi vel var hávaðinn slíkur að teppaleggja þurfti hvert einasta eintak áður en hægt var að bjóða þeim upp á að aka eftir íslenskum vegum til að æra ekki bílstjórann og alla farþegana.

Það má eiginlega segja að einasti lúxusinn við þessi landbúnaðartæki sé verðið, en það er slíkt að einungis þeir sem vita ekki hvernig þeir geti eytt peningunum sínum, fá sér slíka bíla og fá væntanlega sláttuvél í kaupbæti þótt ekki vilji ég fullyrða neitt um það. (Umboðið er allavega kennt við landbúnað.)

Nú montar umboðið sig af því að nokkrir íslenskir milljarðamæringar eigi svona gripi. Ég held að það sé ekki vegna þægindanna heldur sé það gamla fortíðarhyggjan sem ræður för. Þá dreymir enn um sumardvöl í sveit á sínum unglingsárum og margir komnir með jörð til að hvílast frá erlinum við að græða peninga í höfuðborginni. Þá er ekki verra að hafa eitt stykki Landrover eða Range-Rover á hlaðinu og lofa minningunum að flæða um hugann. Svo eiga þessir menn yfirleitt öðruvísi bíla á hlaðinu heima hjá sér í höfuðborginni til nota innanbæjar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli