mánudagur, ágúst 20, 2007

20. ágúst 2007 - 17. júní í ágúst?


Auðvitað ekki. Engum dettur til hugar að halda upp á 17. júní í ágúst þótt Hollendingar haldi upp á daginn 30 apríl og Norðmenn í maí. En það má samt velta því fyrir sér af hverju 17. júní er ekki jafnmikilvægur og áður fyrir þorra almennings en hátíðarhöldin komin yfir á ágúst mánuð.

Í mínu ungdæmi var 17. júní helsti samkomudagur sumarsins ásamt 1. maí. Þessa tvo daga þyrptust fjöldi Reykvíkinga niður í bæ og héldu daginn hátíðlegan undir lúðrablæstri og söng. Ég ætla ekki að eyða innslættinum í að ræða af hverju 1. maí hefur orðið jafndauflegur og raunin er undanfarin ár, en af hverju 17. júní? Allavega getum við ekki kennt vondri verkalýðsforystu um dauflegan 17. júní.

Ég viðurkenni fúslega að ég hefi ekki farið niður í bæ í mörg ár á 17. júní. Ég nenni ekki að fara niður á Austurvöll eða vestur í gamla kirkjugarð til að heyra gamla og leiðinlega pólitíkusa mæra dauða pólitíkusa, sjálfa sig og ríkisstjórnina. Ég nennti ekki heldur austur á Þingvelli á kristnihátíð sumarið 2000 þar sem ein þjóð sat í stólum og hin þjóðin, þjóðin í landinu, átti að horfa undirdánug á alþingismennina hreykja sér.

Öfugt við þjóðhátíðardaginn þar sem þjóðinni gefst kostur á að hylla pólitíkusana og forsetann ásamt mökum, þá erum við nú með tvær miklar hátíðir í ágúst, jafnvel fleiri ef við teljum verslunarmannahelgina og þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum með, þar sem þjóðin skemmtir sér á eigin forsendum á Gay Pride og Menningarnótt.

Hvernig væri að hylla íslensku þjóðina á 17. júní 2008 í stað þess að hylla forsætisráðherrann og forsetann og reyna þannig að endurvekja 17. júní sem ÞJÓÐhátíðardag?


0 ummæli:







Skrifa ummæli