þriðjudagur, ágúst 28, 2007

28. ágúst 2007 – Það er ekkert gaman...



.... að fara í bíó ef þú ert ein á ferð. Því plataði ég Guðrúnu Helgu vinkonu mína með mér í bíó. Ég veit ekki hvort ég gerði henni grikk með þrákelkni minni að draga hana með hvernig svosem staða hennar var að öðru leyti.

Eftir viku heldur hún af landi brott í austurveg, en hún ætlar að heimsækja Georgíu og fleiri ríki í námunda við Kákasus og ég dauðöfunda hana af ferðinni góðu. Ég gerði mér vonir um að geta dreift huga hennar með bíóferð, en í reynd olli bíóferðin enn fleiri ósvöruðum spurningum en áður var.

Kvikmyndin fjallaði um heilbrigðismál. Lengi vel töldust Kákasusbúar meðal elstu íbúa þessa heims og minnist ég frétta af konu einni sem talin var hafa náð 170 ára aldri á seinnihluta síðustu aldar. Ýkjurnar voru þó ekki hið versta, heldur óttinn við að hinn Kákasusfæddi Jósef Stalín tæki upp á því að lifa lengur en æskilegt þótti.

Eins og gefur að skilja sáum við kvikmyndina “Sicko” eftir Michael Moore, frábæra mynd sem í öllum sínum ýkjum sýndi fram á þá staðreynd að fólk í Evrópu hefur það gott þegar kemur að heilbrigðismálum. Sjálf fékk ég að kenna á slæmri heilbrigðisþjónustu á Íslandi tuttugustu aldar og flúði land. Ég fékk það sem ég þurfti í Svíþjóð og enn í dag er ég að horfa á fólk berjast við gamaldags heilbrigðiskerfi á Íslandi.

Ég kalla umfjöllun um bandarískt heilbrigðiskerfi ýkjur því ég veit betur. Ég segi ýkjur því að bandaríska heilbrigðiskerfið býður upp á möguleika á leiðréttingum, atriði sem er ekki boðið upp á á Íslandi þótt slíku sé fyrir að fara í mörgum siðmenntuðum ríkjum Evrópu.

--

P.s. Vinkona mín sem er trans fór fram á að komast í aðgerð á Íslandi til leiðréttingar á kyni. Henni var neitað. Þá flutti hún til Bandaríkjanna og fékk aðgerð þar, sér að kostnaðarlausu. Hún sér enga ástæðu til að flytja heim aftur!


0 ummæli:







Skrifa ummæli