sunnudagur, ágúst 26, 2007

26. ágúst 2007 - Moggabloggið bakar

Fyrirsögnin er kannski ekki alveg í samræmi við fréttina á mbl.is og prentMogganum því þar stóð: “Bloggkirkjan bakar”. Mér finnst þetta snilld og greinilegt að Morgunblaðið ætlar að draga hina ýmsu hagsmunahópa í dilka, ofurkristna í einn dilk og ofurhægrisinnaða í annan nema þeir falli saman í sama dilkinn. Við hin getum svo staðið fyrir utan og horft á dýrðina.

Síðastliðið vor var haldið Moggabloggmót í litla uppáhaldskaffihúsinu hennar Gurríar á Akranesi og fór vel á með fólki. Þar var heldur engin til að troða upp á okkur refsingum Guðs. Við komum einfaldlega saman til að spjalla og fá okkur kaffi og kökusneið. Ekki kom orð um það í Morgunblaðinu enda höfum við vart verið nægilega trúuð til þess að fá pláss á baksíðu Morgunblaðsins svona fyrir mætinguna. Áður hafði ég reyndar mætt í svipað kaffiboð á Mokkakaffi til heiðurs Parísardömunni sem þó var ekki Moggabloggmót þar sem við bloggum flest á Blogspot.

Þetta er kannski framtíðin, að “kristnir” hafi sín bloggmót, múslímar sín og íhaldsmenn sín. Þetta verður auðvitað allt vandlega auglýst á útsíðum Morgunblaðsins til að tryggja næga þátttöku.

Nema auðvitað að Morgunblaðið hafi verið að veita Guðrúnu Sæmundsdóttur örlitla áminningu með því að auglýsa öfgarnar og mannfyrirlitninguna hjá henni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli