mánudagur, ágúst 06, 2007

6. ágúst 2007 - Reykleysi í 7 ár með meiru


6. ágúst er bæði slæmur dagur og góður dagur. Eitt ljótasta hryðjuverk seinni heimsstyrjaldar var framið þennan dag árið 1945 og með kjarnorkuárásinni á Hiroshima hófst nútíminn í hervæðingu þjóðanna, kjarnorkuöldin.

6. ágúst árið 1975 fæddist frumburðurinn, nú harðgift tveggja barna móðir í Garðabæ. Það er sjálfsagt og gott að óska henni til hamingju með daginn og megi hún njóta dagsins sem best.

Í tilefni af 25 ára afmæli dótturinnar og henni til heiðurs hætti ég að reykja þennan sama dag árið 2000 eftir að hafa verið stórreykingamanneskja í 30 ár. Ég hefi enn ekki treyst mér til að reykja eina einustu sígarettu eftir það, en baráttan við nikótínið eftir síðasta smókinn stóð yfir í sex mánuði. Þótt liðin séu sjö ár frá síðasta smóknum koma ennþá þau augnablik þar sem mig langar í sígarettu og sýnir það ágætlega hve fíknin getur verið langvarandi.


Þegar haft er í huga að talan 7 hefur oft verið talin happatalan mín, finnst mér alveg tilvalið að halda upp á sjö ára reykleysi. Þótt ég hafi ekki hugsað mér að taka þátt í áróðri góðra manna gegn Moggabloggi meir en ég hefi beint spjótum mínum að hinni varasömu meðvirkni auk endursagna frétta á Moggabloggi, þá ætla ég að taka mér hvíld frá Moggabloggi í nokkra daga á meðan ég velti fyrir mér stöðu minni í bloggheimum.

Það er þó aldrei að vita nema ég læði inn einni og einni færslu jafnframt færslum mínum á http://velstyran.blogspot.com/


0 ummæli:







Skrifa ummæli