fimmtudagur, ágúst 02, 2007

2. ágúst 2007 - Að eiga fyrir skattinum eftir andlátið

Ein uppáhaldsfrænka mín átti fjölda barna með manni sínum sem var sjómaður. Oft var erfitt í koti þeirra, en þau börðust í sameiningu fyrir velferð barna sinna þrátt fyrir fátækt og basl. Þegar loksins fór að rofa til í fjárhag þeirra og eldri börnin farin að heiman og farin að stofna eigin heimili, kom stóra áfallið. Faðirinn fékk hjartaáfall og hné niður örendur um borð í skipi sínu.

Hann lést í desember nokkrum árum áður en staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp á Íslandi. Í stað bjartrar framtíðar tóku við erfiðleikar og barátta við skattinn. Eftir að hafa verið á hinum ýmsu fiskiskipum mestallt sitt líf, hafði hann verið með góð laun í heilt ár á nýlega keyptum skuttogaranum og nú þurfti ekkjan að greiða keisaranum það sem keisaranum bar.

Hún frænka mín hafði það af. Hún fékk að vísu einhvern afslátt af skattinum og útsvarinu, en mest um vert var að hún skilaði sínu til samfélagsins með stolti rétt eins og fátæka ekkjan í dæmisögu Nýja testamentisins. Í dag er hún á elliheimili og getur stolt litið yfir farinn veg og sagt við hvern sem heyra vill:
“Ég hefi skilað mínu til samfélagsins.”

Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er vinafólk mitt sem fékk kröfu frá skattinum á mánudaginn. Faðir hans lést á síðasta ári í byrjun mánaðar eftir að hafa fengið greidd eftirlaun með persónuafslætti þann mánuðinn. Börnin gerðu upp dánarbúið og öll enduðu þau sátt við sitt. En fjarri þeim var stóri bróðir, Ríkið.

Ríkið (eða kannski keisarinn umræddi) vill ávallt sitt. Nú sitja systkinin uppi með skattaskuld vegna manns sem lést í byrjun mánaðar en hafði ekki vit á að deyja fyrir mánaðarmót til að sleppa við skuldina og persónuafsláttinn. Allt vegna þess að ríki og lífeyrissjóður vinna ekki saman.

Af hverju eru tekjuskattar ekki einfaldlega strikaðir út við andlát?


0 ummæli:







Skrifa ummæli