Á árum áður þótti það vart fréttnæmt fyrir fjölmiðla ef einhver sjómaður datt fyrir borð af skipi sínu og drukknaði. Það kom kannski smáklausa um það í einhverju dagblaði og ekkert endilega á forsíðu eða baksíðu. Svipað átti sér stað ef önnur dauðaslys áttu sér stað, t.d. önnur vinnuslys og jafnvel lítið fjallað um umferðarslys nema þegar fleiri manneskjur fórust í hverju slysi. Heima sátu nánustu aðstandendur og grétu.
Þetta var kannski eðlilegt. Ef hræðilegir atburðir ske oft og stundum oftar en einu sinni í viku, hætta slysin að verða fréttnæm ef aðstæður eru ekki þess alvarlegri. Fyrir fjórum eða fimm áratugum síðan voru að farast fleiri tugir á hverju ári og sem mest 104 menn á einu ári, flestir í sjó- og umferðarslysum. Slagsmál á dansstöðum voru fremur regla en undantekning fyrir hálfri öld og fjöldaslagsmál og það að gera atlögu að lögreglustöðinni þóttu árviss viðburður á gamlárskvöld á hverju ári.
Í dag þykir fréttnæmt ef einhver ekur of hratt eða gleymir að spenna öryggisbeltin svo ekki sé talað um jafnalvarlegan atburð eins og eyrnabitið um síðustu helgi. Eigum við ekki að vona að hið breytta fréttamat sé merki um betra þjóðfélag?
föstudagur, ágúst 03, 2007
4. ágúst 2007 - Breytt fréttamat eða betra þjóðfélag?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli