mánudagur, ágúst 13, 2007

14. ágúst 2007 - Bolur Bolsson


Ég hefi nokkrum sinnum látið í ljósi efasemdir mínar vegna ótrúlegrar meðvirkni sumra bloggara á Moggabloggi sem og andleysi nokkurra fréttabloggara. Þessar færslur mínar hafa farið mjög fyrir brjóstið á sumum bloggurum á Moggabloggi meðal annars Maríu Kristjánsdóttur sem er ekki búin að fyrirgefa Blaðinu þá yfirsjón að birta mynd af fórnarlambinu en ekki gerandanum þegar einstakir bloggarar skrifa illa um annað fólk

Það að María Kristjánsdóttir skuli taka til sín skrif mín um meðvirknina verður að skrifast algjörlega á Maríu sjálfa, en sjálf kaus ég að nafngreina ekki það fólk sem ég hafði í huga er ég skrifaði um Lúkas, naglabelti til að stöðva bifhjól eða harmleikinn á Sæbrautinni. Öðru máli gegnir um fréttabloggarana sem sumir hverjir hafa gefið lítið sem ekkert af sér þegar þeir endurtaka fréttirnar á meðan aðrir skrifa hundleiðinlegar og óspennandi langlokur um fréttirnar til að fróa athyglissýkinni.

Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki að hefja linnulausan áróður gegn ofangreindu liði, en áður en af því varð birtist Bolur Bolsson eins og engill á Moggabloggi. Af umsögnum Bolsins virðist hann vera sendibílstjóri, Lifrarpollsaðdáandi, Valsari og almennt séð ákaflega grunnhygginn og þver sem setur met í fjölda af bloggfærslum. Í örfærslum sínum fá margir það óþvegið, KR-ingar, Manchester United, útlendingar, herstöðvaandstæðingar, Stefán Pálsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Samúel Örn Erlingsson. Fáir fá hrós frá kappanum og þá helst einhver golfari sem drekkur Carlsberg í morgunmat.

Ljóst er að hér fer enginn venjulegur bloggari því eftir minna en viku á blogginu hefur honum tekist að skríða upp vinsældalistann og alla leið á toppinn, skotið öllum afturfyrir sig, fréttabloggurum, Ellý Ármanns og mér. Nú veltir fólk því fyrir sér hvaða snillingur er hér á ferð, hver eðalbloggari hann er þegar hann er ekki að skrifa í nafni Bols Bolssonar, því ljóst má vera að hér fer mjög ritfær maður sem hefur gaman af að hneyksla náungann og líklegt að hann skrifi gegn eigin skoðunum
.

Allavega er ljóst að hér er kominn maður sem virðist hafa mikla andúð á Moggabloggi og hefur þegar sent því kaldar kveðjur með færslum sínum. Það skyldi þó aldrei vera að hann hafi skammað sjálfan sig í einni færslunni í þeim tilgangi að hylja slóð sína?

Hvar var Stefán Pálsson þegar Bolur Bolsson var að setja færslur sínar á netið?


0 ummæli:







Skrifa ummæli