Ég hefi oft séð Hallgrímskirkju sem og Bláa lónið. Ég hélt þó að ég hefði aldrei komið inn á þennan heimsfræga skemmtistað sem ber nafnið Sirkus þegar ég heyrði fyrst af undirskriftasöfnun til bjargar staðnum sem er frægari en Bláa lónið og Hallgrímskirkja ef marka má aðstandendur umræddrar söfnunar.
Þegar ég fór að skoða betur Klapparstíginn, áttaði ég mig á því að ég hafði rangt fyrir mér. Þetta var þá húsið sem hýsti Grand Rokk þar til sá ágæti staður flutti yfir á Smiðjustíginn fyrir nokkru síðan þegar til stóð að rífa hjallinn sem geymdi skemmtistaðinn. Þá áttaði ég mig á því að saga Sirkus spannar yfir svo örskamma stund af sögunni að auðvelt er að finna honum stað hvar sem er þótt þetta hús víki fyrir öðru betra, rétt eins og að Grand Rokk flutti aðeins um 50 metra og komst á miklu betri stað. Ef minnið svíkur mig ekki, byrjaði Innipúkahátíðin fyrst á Grand Rokk á meðan hann var enn á Klapparstígnum, svo saga Grand Rokk á þessum stað og víðar er miklu merkilegri en saga þessa nýlega stofnaða Sirkus.
-----oOo-----
Ég er að velta einu fyrir mér. Segjum ég leggist í rúmið í einhverja mánuði og verð mér úti um læknisvottorð á meðan ég er frá vinnu. Síðan mæti ég aftur til vinnu eins og ekkert hafi í skorist og held því að auki fram að ekkert hafi verið að mér, einungis andlegt mótlæti. Hvort ætli ég yrði rekin eða hýrudregin um þessa mánuði sem ég skráði mig veika þótt ekkert væri að mér annað en andlegt mótlæti?
fimmtudagur, janúar 31, 2008
31. janúar 2008 - Frægari en Bláa lónið og Hallgrímskirkja?
miðvikudagur, janúar 30, 2008
30. janúar 2008 - Af vísdómi Tótu pönk
“Sá maður sem ekki má gera grín að, hann er ekki í góðum málum,” sagði einhver gamall vinnufélagi minn sem ég tók alltaf mark á. Þess vegna finnst mér að það megi gera grín að flestöllu sem yfir okkur mannfólkið dynur, nema einmitt þeim sem alls ekki eru í góðum málum. Tildæmis fórnarlömbum ofbeldis; misnotuðum börnum, nauðguðum konum og öllu því fólki sem í sársauka og niðurlægingu megnar ekki að bera hönd fyrir höfuð sér.”
Þessi orð eru sem töluð úr mínum gáfaða munni. Því miður á ég ekkert í þeim því þetta eru orð sem Tóta pönk vinkona mín hafði eftir einhverjum vinnufélaga sínum. Hvað á svo að segja um það fólk sem ekki þolir að gert sé grín að því? Því miður er nokkuð um slíkt, meðal annars innan borgarstjórnar Reykjavíkur. Þar er ég hvorki að tala um vesalings Villa né Björn Inga sem báðum var slátrað í síðasta Spaugstofuþætti án þess að þeir sæu ástæðu til andmæla. Þá hefur löngum verið talið fólki til tekna að Spaugstofan hafi gert grín að þeim, jafnvel þótt grínið hafi verið talið eiga þátt í snautlegum endi á glæsilegum pólitískum ferli (engin nöfn nefnd).
Ónefndir pólitíkusar mega þakka fyrir að það var hin meinlausa Spaugstofa sem gerði grín að þeim á laugardagskvöldið var. Mig grunar að þeir hefðu fengið mun verri meðferð hjá ýmsum öðrum grínistum, bæði hér heima og erlendis.
mánudagur, janúar 28, 2008
29. janúar 2008 - Pólitískt sjálfsmorð
Ég viðurkenni alveg að ég var oft mjög gagnrýnin á þá félaga Björn Inga Hrafnsson og Óskar Bergsson í kosningabaráttunni 2006, þó fremur Óskar. Ég var þó mjög ósátt við það hvernig Birni Ingi skyldi vera hampað framyfir Önnu Kristinsdóttur, en þótt ég væri ekki tengd Framsóknarflokknum, þekkti ég ágætlega til verka hennar í borgarstjórn auk þess sem ég er ágætlega kunnug stórfjölskyldunni hennar, þar á meðal kollega mínum sem er bróður hennar.
Þrátt fyrir pólitíska andstöðu mína við Björn Inga kunni ég ágætlega við hann og hreifst jafnvel af ákafa hans og pólitískri framagirnd. Þá var ég ágætlega sátt við stuðning hans og vesalings Villa við hið stórkostlega útrásarverkefni sem beið Orkuveitunnar í samsteypu REI og GGE þótt það hafi fallið á formsatriðunum.
Mér hefur aldrei líkað við Guðjón Ólaf Jónsson. Þegar hann hóf að rægja Björn Inga Hrafnsson var það eins og vondi kallinn í skáldsögunni væri mættur og ætlaði sér að fremja enn eitt illvirkið. Ég var enn ekki búin að gleyma að fullu áróðri hans gagnvart Salvör Gissurardóttur fyrir nokkrum árum og fékk á tilfinninguna að Björn Ingi væri næsta fórnarlamb. Auðvitað er hann ekkert fórnarlamb, en Guðjón Ólafur beitti kolvitlausri aðferð við að fella fyrrum félaga sinn úr valdastóli.
Nú er Björn Ingi Hrafnsson hættur og farinn. Um leið grunar mig að hann sé ekki síðasta fórnarlambið sem fellur í vígum Framsóknarflokksins. Satt best að segja grunar mig að framferði Guðjóns Ólafs sé pólitískt sjálfsmorð og að flokkurinn verði að losa sig við hann sem fyrst svo hann dragi ekki allan flokkinn með sér í fallinu.
28. janúar 2008 - Að týna fólki og finna fólk aftur
Í lífinu er maður alltaf að kynnast nýju fólki á meðan annað fólk hverfur út úr lífi manns, flytur á nýjan stað, hættir í vinnunni eða hvaðeina. Þrátt fyrir það skilur það eftir fallegar og ljúfar minningar sem maður geymir með sér í mörg ár á eftir.
Ein slík manneskja er Linus. Hún starfaði við heilsufarmál og þjálfun hjá sama fyrirtæki og ég í Stokkhólmi og vorum við ágætis vinir á þeim tíma sem ég starfaði þar. Þegar ég flutti heim héldum við uppi bréfasambandi um skeið en svo lognaði það útaf þegar hún hætti hjá Orkuveitunni í Stokkhólmi og flutti út á land.
Um daginn var ég að fara í gegnum gömul bréf og póstkort og fór þá að velta henni fyrir mér, en gat ómögulega fundið hana í sænsku símaskránni. Að lokum settist ég við tölvuna og sendi bréf til sameiginlegs vinar okkar í Stokkhólmi. Hann svaraði fljótlega og nefndi að Linus hefði skipt um eftirnafn þegar hún gifti sig, starfaði sjálfstætt og byggi í Stokkhólmi. Með nýjar upplýsingar var auðvelt að finna manneskjuna.
Í gær sendi ég henni bréf með netpóstinum og viti menn. Svarið kom um hæl.
Nú er bara að gæta þess að glopra ekki sambandinu niður aftur.
sunnudagur, janúar 27, 2008
27. janúar 2008 - Ekkert grín í Árbæ
Auðvitað var ég að grínast með því að stofna nýtt sveitarfélag í Árbæ á tímum þegar verið er að sameina sveitarfélög og fækka þeim. Það er nefnilega til önnur lausn vandamáls þess sem fylgir hinum nýja borgarstjóra í Reykjavík.
Hinn nýi borgarstjóri Reykjavíkur hefur boðað endurreisn nítjándu aldar götumyndar Laugavegarins í Reykjavík. Ég skil ekki af hverju hann vill rífa flest eða öll hús við Laugaveginn, en úr því honum er nítjánda öldin svo hugleikin, af hverju má ekki færa alla Reykjavík til nítjándu aldar? Það mætti t.d. hugsa sér að færa bæjarmörk Reykjavíkur til þess horfs sem var í lok nítjándu aldarinnar þegar Ólafur F. Magnússon var ungur drengur á Akureyri.
Eins og við vitum sem erum eldri en tvævetur, náði Reykjavík einungis inn að Elliðaám um aldamótin 1900. Hinir ýmsu bæir þar fyrir austan tilheyrðu Mosfellssveit, þar á meðal Árbær, Ártún, Gufunes og Grafarholt. Því legg ég til að gömlu hreppamörkin verði færð til fyrri vegar sem hlýtur einnig að vera fróm ósk hins nýja borgarstjóra.
Rafmagn hafa íbúar Reykjavíkur ekkert að gera við með svo heitan borgarstjóra, hvað þá heitt vatn. Það var hvort eð er ekkert heitt vatn eða rafmagn í Reykjavík við lok nítjándu aldarinnar svo það hlýtur að vera krafa hins nýja borgarstjóra að lokað sé fyrir rafmagnið og skrúfað fyrir heita vatnið vestur fyrir Elliðaár.
Með sameiningunni við Mosfellssveit þarf ekkert nýtt stjórnvaldsbatterí. Við höfum prýðilegan forseta bæjarstjórnar í Mosfellsbæ og ég trúi ekki öðru en að hinir nýju íbúar bæjarfélagsins muni flykkja sér um Kalla Tomm í áframhaldandi embætti sem forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Að auki höfum við ágætis bæjarfulltrúa úr öllum flokkum sem munu örugglega veita okkur þá þjónustu sem okkur vantar. Við erum hinsvegar með ágætis kandidat í bæjarstjórastólinn, sjálfan Dag B. Eggertsson. Vart verður hann verri bæjarstjóri í Mosfellsbæ en Árni Sigfússon Johnsen í Reykjanesbæ.
Ég var ánægð með Spaugstofuna á laugardagskvöldið, dálítið illkvittin, en leikarinn sem lék hinn nýja borgarstjóra lék sitt hlutverk með prýði.
P.s. Hver ætli verði heildarkostnaðurinn við Laugaveg 4-6 þegar búið verður að endurbyggja hjallana? Milljarður? Hver vill borga milljarð fyrir þessa hjalla eftir endurbyggingu í nítjándu aldar stíl án vatns, hita og rafmagns?
Sem fyrr legg ég til að draslið verði rifið og byggð hús á lóðinni.
laugardagur, janúar 26, 2008
26. janúar 2008 - Sjálfstætt sveitarfélag í Árbæ?
Mér er enn í fersku minni er Árni Johnsen hélt því fram í útvarpsviðtali nokkru fyrir gos, að Eyjamenn gætu séð um sig sjálfir og stofnað sjálfstætt ríki í Vestmannaeyjum. Nú þegar komin er fjandsamleg borgarstjórn í Reykjavík sem að auki ætlar sér að byggja nýtt Árbæjarsafn í miðborginni í samkeppni við hið eina sanna Árbæjarsafn, má velta því fyrir sér hvort Árbæingar þurfi ekki að velta þessu sama fyrir sér og stofna nýtt sveitarfélag austan við Elliðaár?
Rétt eins og í Vestmannaeyjum fyrir gos, þá höfum við allt til alls í Árbænum. Ríkið er hér í Hálsaskógi, sömuleiðis blandið og mjólkin, osturinn og smjörið. Einhver kjötvinnslufyrirtæki eru hér, en ef það nægir ekki, má ávallt sækja meira austur í sveitir. Þrjú dagblöð eru hér sem og ýmis önnur menningarrit eins og Nýtt líf og Vikan svo ekki skortir menninguna. Þá má ekki gleyma því að í hjarta Árbæjar trónir sjálf Orkuveitan eins og drottning meðal þegna sinna og stjórnar vatni og rafmagni til hins nýja borgarstjóra og þegna hans í Reykjavík sem senn munu taka aftur upp hið gamla heiti, Vík í Seltjarnarneshreppi til samræmis við átjándu aldar hugsunarhátt sinn.
Vissulega vantar okkur flugvöll enn sem komið er. Það mál leysist farsællega þegar nýr flugvöllur verður gerður á Hólmsheiði og verður hann öllu fullkomnari en Vatnsmýrarflugvöllur. Efa ég ekki að allt innanlandsflug muni flytja þangað að frátöldum þeim ferðum þegar þingmaður Akureyrar og hinn nýi borgarstjóri í Vík í Seltjarnarneshreppi þurfa að fara norður að vitja fæðingarheimilis síns.
Einhver kynni að halda að þetta nægði ekki til að tryggja innkomu íbúa Árbæjar, en því er auðvelt að svara. Við leggjum einfaldlega vegaskatt á alla sem hyggjast aka í gegnum Árbæinn á leið til Reykjavíkur, en einnig má selja þeim heitt vatn, kalt vatn og rafmagn á viðráðanlegu verði, þ.e. þeim fáu sem enn vilja búa í Reykjavík Ólafs F. Magnússonar.
Ekki þurfum við að gráta skort á stjórnendum. Fyrir svona lítið og sætt samfélag sem Árbærinn er og þar sem allir búa í sátt og samlyndi eins og dýrin í Hálsaskógi, nægir að hafa þrjár manneskjur í bæjarstjórn til að gæta lýðræðis og Árbæingurinn Dagur Bergþóruson Eggertsson verður að sjálfsögðu bæjarstjóri í Árbæ.
Ef gos kemur upp í Hengli eða Bláfjöllum og hraun fer að renna hraðbyri til Árbæjar, þurfum við ekkert að flýja til Reykjavíkur. Veit ég að við eigum góða að í Mosfellsbæ en þar var vel tekið á móti Eyjamönnum eftir gosið 1973, svo vel að sumir Eyjamenn eru þar enn.
föstudagur, janúar 25, 2008
25. janúar 2008 - Róstur í ráðhúsi
Það var góður dagur fyrir Samfylkinguna þegar Anna Pála Sverrisdóttir gekk til liðs við hana fyrir einu eða tveimur árum og kosið var til stjórnar Ungra jafnaðarmanna. Það býr einhver fítonskraftur í henni sem þarf svo sannarlega að virkja, þó án þess að brenna hana út með yfirálagi.
Ég kom við í ráðhúsinu í gær nokkru áður en borgarstjórnarfundur átti að hefjast og þótt ekki væri neitt fjölmenni á gangstéttinni í kuldanum, þá fór ekkert á milli mála hver stjórnaði aðgerðum. Sjálf er ég orðin það gömul að ég nenni ekki lengur að öskra mig hása, heldur læt ég yngra fólk um slíkt. Þegar komið var að því að fólk flykktist inn og upp á áhorfendapallana þar sem hvítliðarnir voru þegar viðbúnir, nennti ég ekki einu sinni að að fylgja með upp heldur lét mér nægja að standa neðan við stigann og bíða átekta ásamt mörgum öðrum. Vissulega heyrði ég ekkert hvað fór fram, en það leið ekki langur tími uns okkur var bent á að það væri ekki gott að standa þar sem við stóðum þegar kæmi að því að ryðja áhorfendastæðin.
Þá varð mér það ljóst að versta tegund af hægristjórn væri komin til valda í Reykjavík. Þá verður gott að kominn er hópur ungs fólks fram á sjónarsviðið sem er reiðubúinn til að berjast fyrir betra þjóðfélagi. Á meðan Anna Pála Sverrisdóttir er fremst í flokki þarf ekki að kvíða framtíðinni.
fimmtudagur, janúar 24, 2008
24. janúar 2008 - Valdaskiptin í borginni
Ég ætlaði fyrst að nota fyrirsögnina Haltur leiðir blindan, en hætti við það því öryrkjar eiga það ekki skilið að vera kenndir við hinn nýja meirihluta í borginni.
Fólki hefur fundist ég vera óvenju fámál um valdaskiptin sem nú eru að eiga sér stað í Reykjavíkurborg. Það er eðlilegt að ég sé fámál. Þessi atburðarás kom mér ekkert sérstaklega mikið á óvart, ekki síst eftir kjökur Ólafs F. Magnússonar þegar vesalings Villi ákvað fremur að ganga til hjónabands með Binga en Ólafi vorið 2006.
http://velstyran.blogspot.com/2006/05/30-ma-2006-skjta-fyrst-og-spyrja-svo.html
Þegar ég frétti svo að Ólafur F. Magnússon væri kominn aftur til starfa eftir veikindaleyfi, jukust efasemdir mínar mjög um framhald þáverandi meirihlutasamstarfs ekki síst í ljósi reynslunnar og þess hve Ólafi var annt um að komast í meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokknum.
En fátt er svo með öllu illt að eigi boði eitthvað gott. Með því að Dagur B. Eggertsson stígur úr borgarstjórastólnum, kemur öflugur liðsmaður inn í hverfapólitíkina að nýju. Rétt eins og hann hefur starfað þessa þrjá mánuði sem borgarstjóri af heilindum, mun hann einnig gera slíkt hið sama í stjórnarandstöðu og ég treysti því að næstu stjórnarskipti í borginni verði einnig af heilindum, ekki eins og nú þar sem sjá mátti vesalings Villa og Ólaf og á bakvið þá hina sex rýtinga haustsins sem nú bíða þess í ofvæni að geta greitt vesalings Villa hið andlega náðarhögg til að koma sjálfum sér í valdastólana.
Senn tekur fjórði stjórnarformaðurinn við Orkuveitu Reykjavíkur á innan við tveimur árum. Er ekki kominn tími til að skapa frið um þetta ágæta fyrirtæki okkar allra?
-----oOo-----
Einn er sá stjórnmálamaðurinn sem sannarlega getur glaðst vegna valdaskiptanna í borgarstjórn. Það er Árni Mathiesen sem var sem skorinn niður úr snörunni með því að fólk fékk skyndilega eitthvað annað að tala um.
miðvikudagur, janúar 23, 2008
23. janúar 2008 - Póstsending frá Argentínu
Ég fékk sendingu frá Argentínu með póstinum í dag. Sendingin hafði greinilega lent í einhverju misjöfnu á leiðinni því búið var að setja umslagið í glæran plastpoka merktum bresku póstþjónustunni og á plastpokann var prentuð yfirlýsing þess efnis að sendingin hefði komið skemmd til Englands.
Ég opnaði sendinguna og reyndist hún innihalda tvær bækur á ensku um mannréttindamál LGBT-hópa í Rómönsku Ameríku. Þar sem ég hefi verið virk í mannréttindasamtökum eins og Amnesty og víðar, koma bækurnar mér ekkert á óvart. Það eina sem kom mér á óvart var að enginn sendandi var skráður með sendingunni og ekkert fann ég bréfið með bókunum.
Það sem ég velti fyrir mér núna, hver sendi mér bækurnar? Var það einhver mannréttindahópur í Argentínu, eða annars staðar í Rómönsku Ameríku eða voru það vinkonur mínar frá Argentínu sem ég kynntist í Sviss fyrir tveimur árum? Hafði eitthvert bréf fylgt með frá upphafi? Vantaði eitthvað í sendinguna? Er kannski einhver kominn á bak við lás og slá fyrir þá sök eina að hafa dreift prentuðu efni um skort á mannréttindum í Rómönsku Ameríku um heiminn?
Ég þarf allavega ekkert að óttast skort á lesefni í kvöld eða næstu kvöld.
P.s. LGBT er skammstöfun fyrir Lesbian-Gay-Bisexual-Transgender
23. janúar 2008 - Gos
Það var á þessum degi árið 1973 sem ég vaknaði upp með andfælum klukkan fjögur um nóttina við að útvarpið var í gangi. Þetta var í þá gömlu “góðu” daga sem hér var aðeins ein útvarpsstöð og klukkan hálftólf á kvöldin fór útvarpið að sofa og vaknaði ekki aftur fyrr en klukkan sjö á morgnanna. Ég var í námi á þessum árum og nýtti mér þögn útvarpsins sem vekjaraklukku, fór að sofa fyrir miðnætti á kvöldin og vaknaði við að útvarpið fór í gang klukkan sjö, nægilega snemma til að koma mér á fætur og í skólann.
En nú var eitthvað skrýtið á seyði og í svefnrotunum heyrði ég stöðugar tilkynningar til fólks um að koma sér niður á bryggju úti í Vestmannaeyjum. Ég kom mér á lappir og ákvað að líta við hjá foreldrum mínum sem bjuggu ekki fjarri. Þegar þangað var komið var allt í fastasvefni. Ég vakti gömlu hjónin, en þau nefndu að einhver kall hefði hringt fyrr um nóttina og verið að spyrja eftir mér. Mig grunaði að það hefði verið í sambandi við gosið því ég var á einhverri skrá hjá Almannavörnum á þeim árum yfir fólk sem væri hægt að kalla til starfa. Rúmum klukkutíma síðar var ég komin upp í skýli Almannavarna í Mosfellsdal og tók þátt í að taka til ýmsan viðleguútbúnað fyrir neyðartilvik sem þetta og koma fyrir í skólum í Reykjavík.
Næstu vikur og mánuði var mikið umleikis hjá mér, var talsvert í aðstoð við búslóðaflutningana frá Vestmannaeyjum ásamt skólafélögum mínum, tók þátt í vikurmokstri í Eyjum og síðar við að ná upp búslóðum sem ekki hafði unnist að ná úr húsum í austurhluta bæjarins undan öskufallinu á fyrstu dögum gossins. Þarna kynntist ég Eyjum ágætlega og því skemmtilega og stórhuga viðmóti sem ávallt einkennir Eyjamenn. Síðar bjó ég og starfaði í Eyjum um nokkurra ára skeið og tók þátt í uppbyggingu samfélagsins í Eyjum eftir gosið.
Ég er að velta einu fyrir mér. Árin eftir gos var hitinn frá nýja hrauninu notaður til að hita upp nýja fjarvarmaveitu Vestmannaeyja. Nú spyr ég hvort Eyjamenn séu búnir að tengja varmadælur við fjarvarmaveituna sína? Það væri þeim líkt.
-----oOo-----
Mig langar til að votta Kolbrúnu Ragnheiði og öðrum aðstandendum Þórdísar Tinnu Aðalsteinsdóttur samúðarkveðjur mínar vegna fráfalls hennar.
þriðjudagur, janúar 22, 2008
22. janúar 2008 - Af ofurkisum
Ég hafði veitt því athygli að að Hrafnhildur ofurkisa virtist sem með einhverja óværu í afturendanum síðustu vikurnar og því ákvað ég að skreppa með þær systur í sína árlegu sprautu og læknisskoðun á mánudag. Vel gekk að koma kisunum í búrin sín og síðan á Dýraspítalann og þar var Tárhildur fyrst í skoðun. Áður en tókst að koma ofan í hana árlegri ormapillu, stökk hún af borðinu og undir skáp svo ég þurfti að skríða undir til að sækja hana.
Síðan kom að Hrafnhildi. Eftir sprautuna og ormalyfin kom að skoðun og notaði ég tækifærið og benti á þessa hegðun hennar að undanförnu. Dýralæknirinn setti upp gúmmíhanska og ég hélt kisunni að framan á meðan dýri þuklaði á henni afturendann, hóf svo að kreista bólginn kirtil í endaþarminum. Allt í einu var sem eitthvað losnaði, gröftur spýttist út og yfir dýralækninn og næsta nágrenni og slíkur ódaunn gaus upp að þurfti að sótthreinsa á eftir.
Þegar heim var komið, fengu kisurnar hrogn og malt í verðlaun fyrir dugnaðinn. Nú liggja þær hvor í sínu bælinu sælar og ánægðar eftir afrek dagsins. Ég hefi þó samúð með dýralækninum, ungri stúlku, fyrir óheppnina að fá gröftinn yfir sig.
Þetta fannst mér miklu merkilegra en meirihlutaskiptin í borgarstjórn þar sem Ólafur F. Magnússon komst loksins heim í faðm íhaldsins eftir langa útilegu, þangað sem hann hafði ávallt viljað vera.
mánudagur, janúar 21, 2008
21. janúar 2008 - II - Af hverju ekki?
Það á fyrir okkur að liggja að deyja, fyrr eða síðar.
Að undirbúa sig undir hið óvænta þykir mér vera hið besta mál, ekki eingöngu fyrir hið svokallaða fræga fólk, heldur einnig fyrir okkur hin. Reglulega heyrast fréttir af hálfgerðum harmleikjum innan fjölskyldna þegar kemur að minningargreinum um hinn látna, um skiptingu eigna, setu í óskiptu búi, auk ýmissa smáatriða.
Margt af þessu er hægt að gera á meðan allt leikur í lyndi og hinn látni er enn í fullu fjöri. Það er hægt að útbúa möppu með helstu fyrirmælum, hverjar eignirnar eru, leyndar sem ljósar, hver eigi að fá hvað við skyndilegt fráfall, hvað eigi að koma fram í ræðu prestsins og jafnvel hvaða lög og sálma eigi að flytja við jarðarförina.
Sjálf er ég með slíka möppu í fórum mínum þar sem fram kemur hver eigi að fá hvað af mínum fátæklegu eigum auk þeirra sem falla undir almenn erfðalög, hvaða prestur eigi að jarðsyngja, hver eigi að vera formáli að hugsanlegum minningargreinum, hvað eigi að gera við líkið. Ég get svo huggað mig við að ég get ávallt breytt innihaldinu á meðan ég er enn með réttu ráði. Ef ég skyldi deyja skyndilega, til dæmis í bílslysi eða af hjartaáfalli, er bara að leita uppi möppuna á heimilinu og skipta eignunum til samræmis við viljann.
Þrátt fyrir þessi fyrirmæli mín verður nóg eftir fyrir erfingjana að rífast um, hvaða sálma eigi að flytja þar sem Pink Floyd endar, hvort boðið verður uppá whiský fremur en kaffi í erfidrykkjunni. Þetta þýðir samt ekki að ég sé á leið í gröfina, enda vonast ég til að lifa í hundrað ár til viðbótar.
Á sama hátt er sjálfsagt að gera ráð fyrir hinu óvænta varðandi Britney og Parísi og öll hin. Eruð þið nokkuð búin að gleyma Díönu?
http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/01/21/minningargreinin_um_britney_tilbuin/
sunnudagur, janúar 20, 2008
21. janúar 2008 - Af íslenskum íþróttaafrekum
Sumum kann að þykja ég hafa verið býsna slæm í umfjöllun minni um íslenska landsliðið í handbolta. Því vil ég bæta aðeins úr þessari synd minni:
Það var árið 1920 sem hópur Kanadamanna af íslenskum ættum héldu með skipi til Antwerpen í Belgíu til þátttöku í sumarólympíuleikunum þar í landi. Þeir komu, sáu og sigruðu, fengu ólympíugull í íshokkí.
http://en.wikipedia.org/wiki/Winnipeg_Falcons
http://www.winnipegfalcons.com/
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=778461
Ég svipaðist um eftir sumum þessara manna í Minningarriti íslenskra hermanna og fann nokkra, meðal annars Konráð Jónasson Jóhannesson (með mynd) sem lék hægri bakvörð í liðinu, en þar segir:
Fæddur 10. ágúst 1896 í Argylebygð í Manitoba. Sonur Jónasar Jóhannessonar frá Geiteyjarströnd í Mývatnssveit og Rósu Einarsdóttur frá Húsavík, nú búandi í Winnipeg. Konráð gekk í herinn 18. mars 1916 og sigldi ári síðar til Englands. Þaðan var hann sendur til Egyptalands til að starfa þar við flugskóla. Hann kom aftur til Canada 19. maí 1919 og stundar nú háskólanám í Winnipegborg. Íþróttamaður góður. Var í Fálka-leikflokknum er sigur vannst í Olympisku leikjunum í Antwerp 1920.
Þess má geta að í seinni heimsstyrjöld rak Konráð flugskóla í Winnipeg þar sem hann þjálfaði flugmenn af íslenskum ættum sem tóku þátt í styrjöldinni. Hann lést 1968. Sonur hans, Brian Johannesson, hefur einna helst haldið minningu föður síns og Fálkanna á lofti meðal Íslendinga heima og heiman.
Sem ég hefi alltaf sagt, Íslendingar eiga að taka nána frændur sína sér til fyrirmyndar, hætta þessu handboltakjaftæði og snúa sér að íshokkí og krullu.
20. janúar 2008 - II - Þar fór 500 kallinn!
Það er ekkert hægt að treysta á þessa Frakka. Ég ætlaði að vera rausnarleg við þá og veðjaði 500 krónum upp á það að þeir myndu vinna leikinn gegn Íslandi með tveggja marka mun. En níu mörk var sko algjör óþarfi.
Það er einu sinni svo að allt umfram eitt mark í sigur er óþarfa erfiði þótt ég hafi gerst rausnarleg og gefið þeim eitt mark að auki í bónus.
En ljóst er að 500 kallinn sem ég veðjaði fer í vasann hjá ónefndum kisueiganda í Þingholtunum og verður væntanlega notaður til að kaupa fyrir kattamat.
20. janúar 2008 - Enn af þjóðrembu
Einn kennarinn minn í Gaggó átti ekki orð yfir það hve Danir og þá sérstaklega danskir fjölmiðlar væru lélegir, byggðu sér óhóflegar væntingar, gerðu sigrana í íþróttum enn stærri með risastórum fyrirsögnum og minntust einungis á töpin á innsíðum ef þeir gerðu það þá yfirleitt. Á þessum árum voru Íslendingar núll og nix í íþróttum og höfðu einungis einu sinni unnið silfur á ólympíuleikum, í Melbourne áratug fyrr og jafntefli í fótbolta var túlkað sem stórsigur. Orð kennarans brenndu sig inn á sálartetrið og hefi ég reynt að forðast þjóðrembu síðan og ekki haft ástæðu til þess.
Vissulega hefur stundum verið ástæða til að fagna, þótt lítið væri, Íslendingum sigri í handboltamóti B-þjóða, sænsku bronsi á heimsmeistaramóti í fótbolta 1994 og að sjálfsögðu stukkum ég og öll íslenska þjóðin með Völu Flosadóttur er hún náði bronsi í stangarstökki á Ólympíuleikum árið 2000. Samt hefi ég reynt að forðast ofurvæntingar og fremur reynt að draga úr fyrirfram ætluðum sigrum í hópíþróttum sem ávallt hafa endað með vonbrigðum nema í þetta eina skipti sem Ísland vann í handboltamóti B-þjóða.
Ísland hefur aldrei náð verðlaunasæti á heimsmeistaramóti eða ólympíuleikum í hópíþróttum ófatlaðra nema auðvitað í bridge. Því sé ég enga ástæðu til að tryllast fyrirfram af fögnuði fyrr en ég sé verðlaunagripinn í höfn þar sem hann hefur aldrei komið. Því síður fyllist ég þjóðrembu en geri gjarnan grín að Íslendingunum þegar kemur að keppni og allir fara að reikna sér stigin fyrirfram minnug orða kennarans míns forðum daga.
En Íslendingar eru þó langbestir miðað við fólksfjölda, segir þá einhver. Er það rétt? Ég sá einhversstaðar úttekt á skiptingu verðlauna á ólympíuleikum frá upphafi. Þar kom í ljós að Ísland stóð sig lakast af sjálfstæðu Norðurlöndunum miðað við fólksfjölda og vantaði, minnir mig, tólf verðlaunapeninga til að ná því sem næstlakast stóð miðað við fólksfjölda. Er þá ekki tekið tillit til málmtegundar verðlaunanna.
Þessa dagana er þjóðremban á fullu hjá íslensku þjóðinni. Ég get ekki annað en hæðst að grobbinu.
-----oOo-----
Einn er sá Íslendingur sem væri örugglega einn sá fremsti í heiminum ef keppt væri í hans sérgrein. Laddi er 61 árs í dag.
laugardagur, janúar 19, 2008
19. janúar 2008 - II - Slóvakía
Pistillinn sem ég setti inn á miðnætti var svo lélegur að gæðum að ég verð að bæta um betur. Ástæður þessa voru að ég var enn örþreytt og syfjuð eftir erfiði dagsins.
Ég hefi tvisvar komið til Slóvakíu. Ekki er það vegna einlægs áhuga míns á landinu, fremur vegna þess að það er ódýrt að fljúga með RyanAir til Bratislava í Slóvakíu og taka síðan strætó til Vínarborgar.
Einu sinni átti Tékkóslóvakía sterkt handboltalið. Liðið safnaði titlum fyrir hönd lands síns og var í fremstu röð handknattleiksþjóða. Síðan klofnaði landið í tvö ríki, en af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að nefna, lentu bikararnir og betri handboltastrákarnir í Tékkó en Slóvakar sátu eftir með sárt ennið og vindlausa tuðru. Þeir blésu svo lofti í tuðruna og komust í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn árið 2006 þar sem þeir lentu í 16. sæti, þessu ágæta sæti sem löngum hefur verið í uppáhaldi Íslendinga. Af botninum getur leiðin bara legið upp á við og óska ég þeim alls hins besta í handboltamótinu sem nú stendur yfir.
Fyrir Íslendinga er ekkert verra að fá mótherja sem eru af svipuðum gæðum hvað snertir getu og þol. Því getur leikurinn í dag farið á hvorn veginn sem er.
Af einhverri þjóðrembu tók ég þátt í einhverju veðmáli í gær þar sem ég gerðist svo djörf að spá Íslandi eins marks sigri í leiknum í dag. Ég er samt ekki viss um að sigurinn verði neitt auðveldur og sennilega eru aurarnir sem ég lagði í púkkið glataðir rétt eins og sigurvonir Íslands í handboltamótinu.
Ég stend enn við mín frómu orð, að Íslendingar eiga fremur að snúa sér að krullu í stað boltaleikja.
http://www.mbl.is/mm/sport/handbolti/2008/01/19/slovakar_eru_sannarlega_med_haettulegt_lid/
19. janúar 2008 - Útsvar
Ég er enn jafnhrifin af spurningunum í spurningaþættinum Útsvar og áður. Þær eru öllu skemmtilegri en spurningarnar í Gettu betur þetta árið.
Á föstudagskvöldið byrjaði ég á að halda með Selfyssingum, þó ekki vegna sýslumannsins sem er sonur kollega míns, enda er ég enn dálitið ósátt við hann vegna þvagleggsins umrædda. Hinsvegar er Soffía Sigurðardóttir gömul baráttusystir af vinstri vængnum, en bæði hún og eiginmaður hennar eru ágætis félagar frá yngri árum. Það dugði ekki. ÓlafsfjarðarSiglfirðingar mörðu sigurinn eftir frábæra spretti þess sem sat í miðjunni og svaraði flestum spurningunum.
Eiginlega hefðu bæði liðin átt að komast áfram, slíkir voru snilldartaktarnir á báðum borðum.
Þau svöruðu meira að segja spurningum sem ég gat ekki svarað.
föstudagur, janúar 18, 2008
18. janúar 2008 - II - Hann jarðaði Ísland
Um leið sakar ekki að geta þess að Tomas Svensson hefur að baki lífsreynslu sem sumum þykir nóg um. Hann var nefnilega farþegi í SAS-flugvélinni Dana Viking sem fórst í Gottröra nærri Arlanda flugvelli 27. desember 1991. Hann komst nærri ómeiddur úr flugslysinu, en 22 farþegar slösuðust alvarlega af 129 manns sem voru um borð í vélinni þegar hún missti afl skömmu eftir flugtak frá Arlanda og brotlenti.
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article304175.ab
http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/282548/
fimmtudagur, janúar 17, 2008
18. janúar 2008 - Annað stórafmæli!
Öfugt við manninn sem varð sextugur í gær (ég sá í blaðinu að Jóhann Ragnarsson, gamall kunningi minn frá Eimskip varð líka sextugur í gær, til hamingju Jói), þá nær einn sem í fjölskyldu minni þeim merka áfanga í dag að verða löggilt gamalmenni. Öfugt við Davíð og fjölda annarra hefur elsti bróðir minn ekki efni á því að fara á eftirlaun 67 ára gamall, enda greiddi hann ekki í lífeyrissjóð í fjölda ára sökum þess að hann starfaði sem verktaki og lagði ekki nóg fyrir til elliáranna.
Sjálf hefi ég greitt í lífeyrissjóð frá því á unglingsárum en er þó ekkert of sæl af því sem mér verður ætlað úr lífeyrissjóðum fyrri ára. Þar kemur fyrst og fremst til verðbólgan sem át upp stóran hluta lífeyrissparnaðarins sem ég aflaði á yngri árum auk þess sem stundum var einungis greitt í lífeyrissjóð af grunnlaunum en ekki heildarlaunum.
Sem betur fer er komið betra skikk á þessa hluti hin síðari ár sem ásamt viðbótarlífeyrissparnaði ætti að nægja mér til þokkalegrar afkomu síðustu æviárin. Það nægir hinsvegar ekki fyrir bróður minn sem mun hafa það skítt með þau eftirlaun sem honum verða úthlutuð úr almannatryggingakerfinu þegar kemur að því að starfsorkan bregst og hann neyðist til að hætta að vinna.
-----oOo-----
Ég veit að það er ljótt að nudda salti í sárin, en mér var boðið að taka þátt í getraun um úrslit í handboltaleik í gær. Þegar þrjár manneskjur voru búnar að ákveða að Svíar myndu vinna með tveggja marka mun, bætti ég um betur og bætti við þriðja markinu og fékk hiksta í kjölfarið. Flest sem tóku þátt veðjuðu þó á íslenskan sigur. En ekki bjóst ég við því að Svíþjóð myndi jarða Ísland í fyrsta leiknum á þessu móti.
Sem ég hefi alltaf sagt. Íslendingar eiga að snúa sér að krullu í stað boltaleikja.
miðvikudagur, janúar 16, 2008
17. janúar 2008 - Vesalings Árni!
Af hverju allir svo vondir við vesalings Árna Mathiesen? Það er eins og að hann hefði gert eitthvað af sér. Ég skil bara ekkert í þessu, ekki síst þegar haft er í huga að hann gerði bara skyldu sína.
Hvað hefði t.d. verið gert við vesalings Árna ef hann hefði ráðið einhvern þeirra sem töldust mjög hæfir í dómarastöðu á Akureyri? Hefði hann fengið að halda ráðherraembættinu? Ég efast um það. Hann átti engra kosta völ annars en að ráða fyrrum aðstoðarmann Björns Bjarnasonar í umrætt embætti. Björn mátti að sjálfsögðu ekki ráða fyrrum aðstoðarmann sinn í embættið og því var Árna fengið það hlutverk og að verja embættisveitinguna frammi fyrir alþjóð.
Ráðning Þorsteins Davíðssonar var ekki pólitísk embættisveiting, heldur var um að ræða fjölskylduveitingu. Ég ætla þó ekki að líkja ástandinu við Sikiley þar sem fjölskyldur ráða öllu. En það er engin tilviljun að þrjár mest umtöluðu embættisveitingar innan dómskerfisins á síðari tímum voru allar innan sömu fjölskyldunnar, fyrst náfrændinn, síðan besti vinurinn og loks sonurinn. Þetta mun hugsanlega ekki breytast fyrr en alþjóðlegir mannréttindadómstólar stöðva af spillinguna með dómi eins og átti sér stað þegar dómsvald og ákæruvald voru að hluta til í höndum sömu aðilanna fyrir 1989.
Þangað til verður Sjálfstæðisflokkurinn sem í helgreipum mannsins sem er ekki lengur heldri borgari heldur og hEldri borgari frá og með deginum í dag. Til hamingju Davíð Oddsson.
þriðjudagur, janúar 15, 2008
16. janúar 2008 - Ruslpóstur!
Fyrir nokkrum árum var ég komin með slíkt ógeð á prentuðum ruslpósti að ég kom við á pósthúsi og fékk gulan miða þar sem ég afþakkaði svokallaðan fjölpóst, öðru nafni ruslpóst. Í flestum tilfellum hefur verið farið eftir þessu og hefi ég verið að mesu leyti blessunarlega laus við ruslpóstinn síðan þá, en um leið má geta þess að ég lít ekki á Árbæjarblaðið sem ruslpóst heldur sem samfélagsupplýsingar þótt megininntakið séu auglýsingar.
Í blokkinni þar sem ég bý, eru átta íbúðir og flokkum við sorpið eins og okkur er unnt og erum með svokallaða bláa tunnu undir dagblöð og fjölpóst sem oftast fer ólesinn í tunnuna. Tunnan er ávallt troðfull í hvert sinn sem hún er losuð þannig að við þyrftum helst að vera með tvær bláar tunnur, en það kostar peninga. Því kjósum við frekar að fara með umframpappírinn út í næsta blaðagám þegar tunnan er orðin full.
Ég heyrði ávæning af þætti um ruslpóst í útvarpinu á þriðjudag. Þar kom fram að ekki er lengur hægt að fá gula miða hjá Póstinum til að setja á póstkassana og er það miður, auk þess sem auglýsendur ætlast til að ruslið sé borið í póstkassa fólks hvort sem því líkar betur eða ver.
Ég velti því fyrir mér hvað fyrirtækin sem auglýsa myndu gera ef fólk tæki sig til í stórum stíl og skilaði pappírnum til þeirra? Það má ímynda sér að fólk safni saman auglýsingunum frá Hagkaup eða BT og skili þessu inn í búðina næst þegar það á leið framhjá.
Ætli verslanirnar gætu neitað að taka við ruslinu sínu?
15. janúar 2008 - Hvað er hún stór?
Fjölmiðlar halda ekki vatni yfir söngkonunni Beyoncé Knowles og taka það sérstaklega fram að hún hafi tekið heila hæð hótels á leigu. Í sakleysi mínu spyr ég hversu stór hún er úr því hún þurfti heila hæð en ekki bara eitt herbergi?
Ég hefi aldrei heyrt umrædda söngkonu syngja. Ég er þó sannfærð um að Leoncie sé ekki síðri söngfugl en þessi stúlka.
http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/01/14/beyonce_a_hotel_keflavik_i_nott/
mánudagur, janúar 14, 2008
14. janúar 2008 - Um vaktavinnu
Samkvæmt fréttum Ríksiútvarpsins hefur slitnað upp úr viðræðum um bætt kjör vaktavinnufólks hjá hinu opinbera.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item185898/
Ég kom aðeins að viðræðum um kaup og kjör við síðustu kjarasamninga Vélstjórafélags Íslands og setti meðal annars fram kröfu um bókun þar sem viðræður skyldu eiga sér stað á milli samningsaðila á samningstímabilinu um vinnutímastyttingu vaktavinnufólks. Þegar mér var það ljóst að ekki átti að efna þessa bókun, gat ég ekki litið öðruvísi á en að um vantraust væri að ræða og neitaði þátttöku í samninganefndinni sem senn tekur til starfa.
Á Íslandi er samningsbundinn virkur vinnutími 37,05 tímar á viku þegar búið er að draga matar og kaffitíma frá virka vinnutímanum. Virkur vinnutími hjá vaktavinnufólki getur verið 40 stundir án sérstakrar yfirvinnugreiðslu fyrir þess þrjá umframtíma. Þessi mismunur er löngu orðinn viðurkenndur á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Þannig er tvískipt vakt í morgunvakt og kvöldvakt á virkum dögum í Svíþjóð 38 tímar en vaktir allan sólarhringinn sjö daga vikunnar 34,33 tímar. Þar sem ég vann í Svíþjóð fengum við að auki einn aukalegan frídag á sex vikna fresti til að vega á móti vaktaskiptum. Þannig var hann í reynd rúmir 33 tímar á viku.
Ísland er á eftir í þessum málum eins og svo víða. Mér er einungis kunnugt um vaktavinnufólk hjá Landsvirkjun og Landsneti sem fær ígildi 36 stunda vinnuviku vegna vakta sinna.
Ég get ekki kennt Orkuveitunni um þennan drátt á viðræðum. Þar má alveg eins og jafnvel frekar kenna um fyrrum formanni Vélstjórafélags Íslands eða hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er hinsvegar reiðubúin að berjast fyrir nauðsynlegri styttingu vinnutíma vaktavinnufólks og þótt ég hafi samþykkt síðustu samninga vegna falskra loforða formannsins, mun ég ekki hika við að segja nei þar til styttingin niður í 36 tíma vinnuviku vaktavinnufólks nær fram að ganga.
P.s. Það væri fróðlegt að vita hvort vitað sé um aðra hópa en hjá Landvirkjun og Landsnet sem hafa 36 tíma vinnuviku eða styttri.
sunnudagur, janúar 13, 2008
13. janúar 2008 - Skemmtanalífið í Reykjavík
Eins og fram kemur í síðasta bloggi, fékk ég mér í annan fótinn á föstudagskvöldið. Ekki bara það, heldur skrapp ég ásamt fleira fólki til miðborgar Reykjavíkur þar sem ætlunin var að kíkja á krár. Hvergi sá ég löggur, hvorki barðar né óbarðar. Ekki heldur sá ég neinn pissa utan í vegg, hvorki miginn né ómiginn.
Ég leit inn á tvo staði, B5 og Næstabar. Á B5 komum við okkur fyrir í fjárhvelfingum Verzlunarbankans. Þar var lítið um peninga en þess meira um plastkort og full ölglös. Eftir stutta viðkomu þar rölti ég svo yfir á Næstabar. Þar var fámennt og góðmennt.
Alveg merkilegt hvað reykbannið hefur farið illa með aðsóknina að þessum ágæta stað. Mér dettur til hugar úr því leyfilegt er að reykja í lokuðum rýmum í Alþingishúsinu og Leifsstöð, hvort ekki megi koma fyrir lítilli reykkompu á Næstabar og í eins og einu bankahólfi á B5.
Ekki veitir af. Næstibar er orðinn eitt af því fáa sem fær mig til að fara vestur fyrir Elliðaárnar.
laugardagur, janúar 12, 2008
12. janúar 2008 - Skoda Fabia ofl.
Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist á ævinni hét Skoda, nánar tiltekið Skoda Oktavia Super árgerð 1964. Þetta var óttaleg drusla þótt ég segi sjálf frá og helmingnum af líftíma bílsins var eytt undir húddinu á vagninum.
Síðan þetta var hefi ég ávallt haft hina mestu ímigust á Skoda. Sömu sögu er að segja um Skoda eftir að Volkswagen eignaðist meirahluta í verksmiðjunni og bjuggu til ný nöfn fyrir framleiðsluna. Þegar ég las umfjöllun um Skoda Fabia í Dagens nyheter komu neikvæðu ummælin mér ekkert á óvart. Þetta er bíll sem ekki þolir snjó og hálku.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=1064&a=732011
Dæmi hver sem vill en ég ætla að halda mig við japanskan eðalvagn enn um sinn.
-----oOo-----
Nýársteiti Orkuveitunnar var haldið á föstudagskvöldið. Ég var þar og þótt ég hefði tekið í höndina á stjórnarformanni og tveimur forstjórum, missti ég af hátíðarræðu kvöldsins sem haldin var af stjórnarformanni fyrirtækisins.
Skömmu á eftir kom deildarstjórinn og þakkaði mér fyrir gott samstarf. Ha, gott samstarf? En ég er ekkert að hætta. Í ljós kom að í ræðu ættingja míns, stjórnarformannsins, var tilkynnt um breytingar innan Orkuveitunnar þar sem Guðmundur Þóroddsson fráfarandi forstjóri REI verður forstjóri MEI, Helgi Pétursson blaðafulltrúi, en ég á að taka að mér boranir á nýjum vettvangi, þ.e. á tunglinu hjá nýja fyrirtækinu, Moon Energy Invest, skammstafað MEI.
Ég fagna nýjum stöðuhækkunum. :)
föstudagur, janúar 11, 2008
11. janúar 2008 - Púkinn og ég.
Þegar ég er að tala um Púkann í þessum stutta pistli mínum á ég ekki við púkann á fjósbitanum, heldur hinn eina sanna Púka sem heldur úti bloggsíðu og rekur mikilvægt fyrirtæki í Reykjavík.
Þótt ég og Púkinn séum langt í frá sammála í öllum málum, höfum við löngum átt ágætis samstarf og viðskipti. Púkinn gætir þess nefnilega að tölvan mín lendi ekki í ógöngum þegar óprúttnir aðilar reyna að smita hana af einhverjum óþverra eins og vírusum og ormum af ýmsu tagi. Það sem er þó mikilvægast er þó sameiginlegt áhugamál okkar sem kennt er við ættfræði. Þar stendur Púkinn sig öllu betur en ég, enda var hann með fjölda fólks í vinnu við skráningar á tímabili þegar ég var ein að slá inn upplýsingar af Þjóðskjalasafni inn á forritið sem Púkinn seldi mér fyrir áratug síðan fyrir örfáar krónur.
Í dag getum ég og Púkinn fallist í faðma yfir sameiginlegu áliti á vandamálum samfélagsins, en það hljóðar svo:
Kaupa, kaupa, kaupa.
Þótt ég sé enn í andlegum sárum eftir brostnar vonir mínar um stórfelldan gróða af hlutabréfum í REI, þá er ég hjartanlega sammála Púkanum um að nú sé rétti tíminn kominn fyrir litlu sparifjáreigendurna að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Það má vera að botninum sé ekki alveg náð, en það er ekki langt niður á botninn og síðan taka bréfin að hækka á ný og þá munu þau hækka verulega. Vandamál mitt er bara að ég á enga peninga fyrr en í vor, en þá kaupi ég líka fyrir allan peninginn.
-----oOo-----
Ég fékk boðskort á árshátíð Eimskipafélagsins í gær og gladdist mjög í hjarta mínu þótt ég hafi ekki verið í föstu starfi hjá félaginu í nærri tvo áratugi. Og þó, eitt og eitt viðvik á undanförnum árum. Það væri vissulega gaman að mæta og hitta gamla samstarfsfólkið sem ég hefi ekki hitt, sumt í jafnlangan tíma. Mig grunar samt að boðskortið hafi verið sent mér fyrir mistök, enda færi ég varla á árshátíð í Valsheimilinu nema vera sveipuð fána Aftureldingar, ef ekki, fána Vesturbæjarstórveldisins.
fimmtudagur, janúar 10, 2008
10. janúar 2008 - Spurningakeppni nördanna.
Eins og allir vita sem þekkja mig, þá er ég ekki nörd í spurningakeppnum. Þó fæ ég alltaf hiksta þegar kemur að slíkum keppnum í útvarpi svo ekki sé talað um keppni í sjónvarpi.
Í spurningakeppninni Gettu betur er spurt margvíslegra spurninga. Sumar spurningarnar þekki ég af ritum þeirra feðga, Páls Ásgeirs spurningahöfundar og dómara, og föður hans Ásgeirs Svanbergssonar. Mér telst svo til að ég eigi þrettán bækur eftir feðgana í bókasafni mínu en auk þess eiga þeir góða spretti í mörgum öðrum bókum í safni mínu, enda báðir í miklu uppáhaldi hjá mér sökum fræðistarfa sinna, hvor á sínu sviði.
Ekki er ég alveg sátt við svörin sem heyrast í útvarpi allra landsmanna. Skyndilega er Jón Baldvin orðinn síðasti móhíkaninn í Alþýðuflokknum og ég sem hélt að Sighvatur Björgvinsson hefði leyst hann af hólmi á endasprettinum, áður en Guðmundur Árni Stefánsson tók við keflinu eftir sameiningu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags ofl í Samfylkingunni. Þá þykir mér leitt að heyra að Noregur eigi ekki lengur landamæri að Rússlandi. Sömuleiðis þætti mér gaman að heyra hvað heyrðist í dómaranum ef ég svaraði því til að flugvöllurinn í Stokkhólmi héti Bromma en ekki Arlanda. (Arlanda er ca 45 km fyrir norðan Stokkhólm).
Gott ráð til spurningahöfunda er að sneiða hjá vafasömum spurningum, ef ekki, að leita í smiðju til Stefáns Pálssonar.
miðvikudagur, janúar 09, 2008
9. janúar 2008 - Á að friða Laugaveginn?
Nú hefur húsafriðunarnefnd ákveðið að leggja til við menntamálaráðherra að gamlir fúahjallar sem voru byggðir af vanefnum í lok nítjándu aldar verði látnir standa neðst á Laugaveginum um aldur og ævi til að sýna túrhestunum hvað við höfðum það skítt í lok nýlendutímans. Til þess að tryggja heilsteypta nítjándu aldar götumynd á þessum stað verður þá eðlilegast að þau hús sem voru byggð á þessum slóðum um miðja tuttugustu öld og síðar, verði rifin og litlir kofar verðir byggðir af vanefnum í þeirra stað. Í framhaldinu verður eðlilegast að setja upp hlið á horni Laugavegar og Klapparstígs og selja aðgang að hinu nýja minjasafni í miðbæ Reykjavíkur því eitthvað munu herlegheitin kosta væntanlegum túrhestum til yndisauka. Það má einnig hugsa sér að flytja gömlu húsin úr Árbæjarsafni niður á Laugaveg og byggja blokkir og verslunarhús á lóð Árbæjarsafns í staðinn.
Við hin munum halda áfram að sækja Kringluna og Smáralind heim og höfum fyrir bragðið ekkert niður í bæ að sækja lengur annað en að horfa á gamla fúahjalla. Reykjavík er hvort eð er að verða eins og borgir í Ameríku með dauðan miðbæ og verslunarmiðstöðvarnar í úthverfum.
þriðjudagur, janúar 08, 2008
8. janúar 2008 - Leti?
Ég veit vart hvað er að hrjá mig, en það var alveg hræðilega erfitt að komast framúr á mánudagsmorguninn. Ég nennti því varla. Ekki var flensan að herja á mig né heldur svartidauði eða stórabóla, en samt var ég ekki eins og ég átti að vera.
Ég lagði mig tvisvar eftir hádegið örþreytt eftir draumfarir næturinnar, var fúl í skapi og hafði allt á hornum mér þótt einungis kisur og nágrannar þyrftu að líða fyrir skapið í mér. Svo sofnaði ég yfir sjónvarpsfréttunum og náði rétt að vakna til að staulast á næturvaktina.
Nú er ég öll að hressast rétt eins og Lasarus sálugi.
-----oOo-----
Ekki má gleyma því að forsöngvarinn í stóru englahljómsveitinni hefði orðið 73 ára í dag. Til hamingju Elvis sálugi.
mánudagur, janúar 07, 2008
7. janúar 2008 - Bless Kertasníkir, sjáumst í vor.
Oft sakna ég jólanna og bíð þess í ofvæni að desember renni upp svo ég geti farið að hengja upp jólaseríur og spila jólalögin. Um leið finnst mér nánast eins og guðlast að spila jólalögin utan þessa tíma, þ.e. frá desemberbyrjun til og með þrettándans.
Í þetta sinn er ég fegin að jólunum er lokið og Kertasníkir farinn aftur til fjalla á vit bræðra sinna og móður. Þessi leiðindaveður sem hafa verið í gangi að undanförnu hafa valdið því að krakkarnir náðu því ekki að klára sprengjupakkana sína á gamlárskvöld og voru því að dunda sér við sprengjurnar allt fram á þrettándann mér og mörgum öðrum til armæðu og leiðinda, þó sérstaklega kisunum mínum sem hafa vart þorað út fyrir hússins dyr síðan um jól.
Með aflokinni jólahátíðinni get ég með góðri samvisku hent kínverska jólaseríudraslinu í ruslið og lofað sjálfri mér því að kaupa aðeins vandaðri seríur að ári, einhverjar sem kosta nokkrum krónum meira en sem endast jólin og nýárið.
Nú er að byrja gönguferðirnar á ný, ná af sér jólakílóunum og komast í form áður en farið er á fjöll í vor til móts við Kertasníkir og bræður hans á þeirra heimaslóðum.
-----oOo-----
Viðtal Evu Maríu við Pál Óskar var flott og með hreinskilni sinni stækkaði hann mikið í augum mínum. Ekki veitti af. Takk Palli
laugardagur, janúar 05, 2008
6. janúar 2008 - Löngu augnstungnir hjallar!
Þá er búið að stoppa af niðurrif húsanna við Laugaveg 4-6 í Reykjavík. Ég sé lítið spennandi við þessa kofa sem hafa staðið þarna og mun ekki sjá eftir þeim. Þau gengið í gegnum svo margvíslegar breytingar í gegnum árin að lítið er orðið eftir af upprunalegu húsunum annað en minningin. Eftir að húsunum var breytt til samræmis við nútímann og settir á þau risastórir verslunargluggar dettur manni helst til hugar að búið sé að stinga úr þeim augun eða sálina og ekkert annað eftir en fúatimbur.
Ef horft er á þessi hús frá gangstéttinni andspænis eða úr gluggum hússins á móti er bakhlið Skólavörðustígs 1 mest áberandi og því spurningamerki hvort ekki sé betra að fela hana með fallegri byggingu sem kemur í staðinn fyrir kofaræksnin. Þá er götumynd Laugavegarins orðin svo furðuleg blanda af nýjum og gömlum húsum að minnir helst á bastarð.
Ég vil taka fram að ég hefi ekkert á móti húsinu að Laugavegi 2. Það sómir sér vel á horni Laugavegar og Skólavörðustígs, en nær væri að byggja upp heilstæða götumynd frá því húsi og austur að næsta alvöruhúsi, en að henda fúatimbrinu sem er þar í dag.
Sú hugmynd að byggja upp lágreista húsaþyrpingu í Hljómskálagarðinum finnst mér góðra gjalda verð, en það hlýtur að vera margfalt ódýrara að byggja ný lágreist hús þar í gömlum stíl en að endurbyggja gamla draslið. Við höfum séð góðan árangur af slíku við sunnanvert Aðalstræti.
Ef Torfusamtökin vantar verkefni, geta þau krafist endurbóta framhliðar Lækjargötu 2a þar sem Iða er nú til húsa til að hressa upp á götumyndina þar. Ekki veitir af.
5. janúar 2008 - Enn af veggjakroti
Ég hefi fengið nokkra gagnrýni á mig frá tveimur vinkonum mínum sem starfa innan fjölmiðla fyrir að blanda fjölmiðlum inn í gagnrýni á veggjakrot. Því vil ég árétta eftirfarandi:
Það er alls ekki ætlunin að skamma fjölmiðla fyrir eitt né neitt. Það er hinsvegar svo að skemmdarvargar þeir sem klottra á húsveggi uppveðrast ef þeir fá myndir af verkum sínum í dagblöðum eða í sjónvarpi. Fyrir þeim er slíkt sem persónulegur sigur, að þeir hafi unnið eitthvert ímyndað stríð gegn genginu í næsta hverfi eða bara næsta klottraragengi.
Slíkt er löngu vitað og frægt dæmi er þegar margar sjónvarpsstöðvar ákváðu að hætta að sýna myndir frá aftökum gísla meðal hópa terrorista. Þegar sjónvarpsstöðvar hættu að sýna slíkar myndir fækkaði aftökum gísla verulega. Sama lögmál gildir um veggjakrot þótt um sé að ræða tiltölulega vægt afbrot. Það er í lagi að segja frá glæpnum, svo fremi engar myndir birtast opinberlega.
Því er nauðsynlegt að hætta að birta nýjar myndir af veggjakroti og nota einvörðungu gamlar myndir, helst nokkurra ára gamlar svo ungir skemmdarvargar þekki ekki aftur verk sín.
föstudagur, janúar 04, 2008
4. janúar 2008 - Röng skilaboð?
Fyrir nokkrum árum kvað mjög að veggjakroti unglingspilta á eignum Hitaveitunnar/Orkuveitunnar, stundum svo mjög að ástæða þótti til að kalla til lögreglu og gefa tjónaskýrslu á sóðaskapinn. Svo var hringt í málarana sem voru fljótir að koma og mála yfir skemmdirnar.
Ein dælustöðin varð sérstaklega fyrir barðinu á skemmdarvörgunum sem mættu nótt eftir nótt og sóðuðu út stöðina. Síðan mætti okkar fólk um morguninn og málaði yfir. Eftir nokkrar tilraunir gáfust unglingarnir upp og hefur stöðin fengið að vera að mestu leyti til friðs eftir þetta.
Einhverjir unglingar voru gripnir glóðvolgir við að merkja sér Laugaveginn á nýjársnótt. Að sjálfsögðu fagna ég handtökunni og vona jafnframt að sem flest fórnarlömbin muni að kæra verknaðinn áður en kærufrestur rennur út. Spurningin er hinsvegar sú hvort rétt hafi verið að auglýsa verk þeirra svo mjög í fjölmiðlum eins og gert var? Um leið og klottrararnir sjá verkin sín á sjónvarpsskjánum sem og þeir sem fá að hafa sínar myndir lengst uppi, hafa unnið sigur.
Því er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir endurtekningu sóðaskaparins, að taka myndir að klottrinu vegna skýrslugerðar og mála síðan yfir, helst samdægurs og áður en fjölmiðlar ná að opinbera glæpinn með myndasýningum. Þannig er hægt að koma drengjunum í skilning um að svona lagað sé ekki liðið.
fimmtudagur, janúar 03, 2008
3. janúar 2008 - Dýrir forsetar?
Þá er fólk byrjað að þrasa aftur um embætti forseta Íslands, hvort Ólafur Ragnar eigi að gegna embættinu eitt kjjörtímabil í viðbót eða hætta. Ég held að það liggi bara augum uppi hvað best er að gera. Auðvitað á karlinn að halda áfram og spara nokkrar krónur fyrir ríkissjóð.
Vigdís Finnbogadóttir hætti árið 1996, þá vart komin á eftirlaunaaldur, rétt orðin 66 ára. Ef Ólafur Ragnar hætti núna, væri hann einungis 65 ára þegar hann færi á eftirlaun. Það þýðir í reynd að greiða þarf tveimur forsetum hæstu eftirlaun allt til æviloka. Ekki þýðir að vonast eftir skjótum ævilokum hans því hann er kvæntur kornungri stúlku. Ef hann deyr, mun hún þiggja ekkjulífeyri forseta uns hún deyr.
Því er einfaldast að Ólafur Ragnar sitji áfram enda ekki gert neitt það af sér að ástæða sé til að hann hætti í skyndingu. Það ætti kannski helst að skamma Vigdísi fyrir að hafa hætt of snemma og stuðla þannig að því að launagreiðslum til tveggja forseta.
-----oOo-----
Úr því farið er að ræða um ellilífeyri forseta, er í lagi að fagna afmæli ellilífeyrisþegans Michael Schumacher sem á afmæli í dag, orðinn fullra 39 ára gamall. Þar fer kappi sem fór alltof snemma á eftirlaun, rétt eins og Vigdís Finnbogadóttir.
miðvikudagur, janúar 02, 2008
2. janúar 2008 - Völvuspá vélstýrunnar fyrir árið 2008
Það þykir góður siður á áramótum að lesa í kattagarnir eða rýna í kristalskúlu eða annað það sem dregur fram spádómsgáfuna. Þannig mun völva Vikunnar spá í tarotspil en ég læt mér nægja að skoða óhreinindin í skítugu ölglasi sem gleymdist að setja í uppþvottavélina í morgun.
Rétt eins og völva Vikunnar, get ég gumað af mikilli spádómsgáfu. Þannig spáði ég því að haldnar yrðu kosningar síðastliðið vor eins og reyndin varð, en einnig spáði ég því að Framsóknarflokkurinn myndi ekki þurrkast út á árinu sem einnig gekk eftir þótt hann hefði smækkað mikið. Sömuleiðis gekk Júróvisjónspá mín eftir þar sem ég hafði spáð því að Silvía Nótt myndi ekki vinna Júróvisjón fremur en árið á undan.
Veðurspáin brást mér illilega en þar hafði ég spáð risjóttu veðurfari allt árið. Þess í stað kom mánuður þar sem ekki kom dropi úr lofti og svo rigndi það sem eftir var. Þá varð ekkert eldgos á árinu.
Glasið fyllt og rýnt í gulan vökvann.
Af stjórnmálunum er það helst að það mun verða mun kyrrlátara á Alþingi en hefur verið. Vinstrigrænir munu halda áfram að tala mest allra, en munu þurfa að hlusta á bjöllu forseta í hverri ræðu vegna takmarkanna á ræðutíma. Ríkisstjórnin mun ekki falla á árinu, til þess þykir sumum of mikið vænt um stólana sína, en það munu verða sviptingar umhverfis Jóhönnu Sigurðardóttur. Það verður fjör í borgarstjórn og þar mun Svandís tala mest og hæst allra, en hvort hún segi eitthvað af viti skal ósagt látið. Þá mun Ólafi F. Magnússyni finnast hann hafa verið settur útundan á meðan hann var lasinn og mun hann þurfa að sýna öllum að hann hafi endurheimt heilsuna. Deilurnar um Vatnsmýrarflugvöll munu halda áfram á árinu og verður svo lengi, eða þar til flugvöllurinn verður færður, hvenær sem það verður.
Ástþór Magnússon mun reyna að verða forseti Íslands, en honum tekst það ekki fremur en venjulega, reyndar óvíst hvort honum takist að safna nógu mörgum meðmælendum. Hann verður því að bíða í fjögur ár í viðbót eftir stóra tækifærinu.
Glasið fyllt aftur og rýnt enn meir í gullinn vökvann.Íslendingar munu slá í gegn í Júróvisjón. Það verða þó hvorki Björk Guðmundsdóttir né Sigurrós sem þar verða að verki heldur Barði banggang ásamt arftaka Silvíu Nætur með dúettinum Jötunuxarnir sem munu slá á trumbur og slá í gegn í Belgrað í vor. Geir Ólafsson mun ekki slá í gegn né heldur mun Nancy Sinatra heimsækja hann á nýja árinu.
Af veðrinu er það helst að það mun rigna á nýja árinu. Þá verður hugsanlega eldgos á árinu en það verður vart fyrr en seint í haust, jafnvel ekki fyrr en um næstu áramót
Glasið enn fyllt af gylltum vökvanum.
Af persónulegum málum er það helst að ég mun fara í tvær utanlandsferðir árinu sem er einni ferð minna en ég hefði kosið. Þá mun ég halda áfram að eiga minn gamla góða vinstrigræna Súbaru í eitt ár enn, enda vagninn búinn að öðlast mikla reynslu af að aka mér hvert á land sem er í fjölda ára. Bréfin mín í REI verða verðlaus á árinu og þekking mín á góðakstri mun dvína umtalsvert eftir að Jón Ásgeir náði sýningarréttinum yfir til sýn og fyllti af auglýsingum. Nógu slæmt var það fyrir.
Kílóin sem ég bætti á mig í rigningunni munu hverfa aftur þegar líður á vorið og ég mun hlaupa á 15 tinda á árinu.
Ég mun ekki slá í gegn í bloggheimum, ekki frekar en fyrri daginn. Það verða þó einhverjar breytingar á bloggskrifum mínum, en frekar að dregið verði úr þeim til hagsbóta fyrir aðrar skriftir. Það munu hinsvegar margir reyna að komast í bolinn hans Bols Bolssonar og fara þau Stefán og Gerður þar fremst í flokki, en margir minni spámenn munu fylgja þeim eftir.
Semsagt, árið verður hefðbundið að flestu leyti
Þessi bloggfærsla er í boði Ölgerðar Egils Skallagrímssonar og áhafnarinnar á Hákoni sem færði mér þennan dýrindis ölkassa að gjöf fyrir jólin.
-----oOo-----
Svo fær hann Már Gunnþórsson hamingjuóskir með hafa næstum því náð mér í aldri, en ég verð samt alltaf hænufetinu á undan.
þriðjudagur, janúar 01, 2008
1. janúar 2008 - Gamlárskvöld
Ég fór á áramótafagnað hjá Elínu og Krumma í Barnasmiðjunni á gamlárskvöld. Alltaf jafn yndislegt að sækja þau heim, góður matur, gott vín og nóg af strákum að skjóta upp flugeldum.
Ég var sátt við áramótaskaupið, kannski að flugslysabrandarinn hafi verið full langdreginn á köflum, en gaman að sjá hve gamla toppstöðin við Elliðaár kemur að gagni sem sviðsmynd skömmu áður en hún verður rifin, en það má ske sem fyrst og engum til ama.
Með þessum orðum ítreka ég óskir mínar til allra um gæfuríkt nýtt ár 2008. Sjálf finn ég hve það er undir mér komið hversu vel árið 2008 mun verða heppnað. Ég þarf bara að taka ákvörðun og fylgja henni út í ystu æsar.
-----oOo-----
Aðsóknin að síðunni minni datt niður á gamlársdag. Því er gestur númer 100.000 enn ekki kominn . Hver verður númer 100.000 á Blogspot?