Ekkert skil ég í því af hverju sumir eru svo vondir við Vilhjálm Þórmund Vilhjálmsson fyrrum borgarstjóra. Það er eins og að hann hafi gert eitthvað hræðilegt af sér. Hér loga bloggsíðurnar af heift út í manninn af því einu að hann þurfti að grípa til örlítillar hagræðingar á stóra sannleik til að bjarga sínu eigin skinni.
Ég er þess sannfærð að aldrei hafi Vilhjálmur beitt óheiðarlegum vinnubrögðum til að auðgast á kostnað skattgreiðenda og störf hans í REI málinu voru framkvæmd í góðri trú manns sem taldi sig vera að vinna mikið og gott starf fyrir eigendur OR þ.e. íbúa Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga.
Vissulega féll samrunaferlið um sjálft sig á röngum aðferðum og vissulega má benda á eitt og annað sem bendir til gleymsku vesalings Villa, en mér finnst hann of góður maður til að láta smámál um orðalag eyðileggja orðspor hans til frambúðar.
Ég bakka svo ekkert með það að stýrihópnum svokallaða með hjálp stuttbuxnadeildar Sjálfstæðisflokksins, tókst að eyðileggja eitthvert stórkostlegasta útrásartækifæri Íslands sem hægt var að hugsa sér þar sem Íslendingar gátu svo sannarlega komið að gagni úti í hinum stóra heimi með sérþekkingu sinni á jarðhita. Þar getur Villi borið höfuðið hátt sama hver verða úrslit þeirra væringja sem nú eru uppi um persónu
hans.
sunnudagur, febrúar 10, 2008
10. febrúar 2008 - Vesalings Villi
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:34
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli