fimmtudagur, febrúar 28, 2008

28. febrúar 2008 - Nýr frændi, 46 ára :)

Ég lenti á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík á miðvikudagskvöldið. Meðal fundargesta var fyrrum stjórnarmaður sem flutti stutta ræðu og fórst það verkefni vel úr hendi. Eitthvað fannst mér ég kannst við nafnið á kauða, hvort ekki væri um að ræða týnda frændann?

Föðurbróðir minn frá Stykkishólmi dvaldi í Reykjavík í tvö ár um tvítugt, tók bílpróf og lenti síðan í bretavinnunni þegar Bretar hernámu landið ásamt leiguakstri. Hann fór svo aftur vestur í Stykkishólm um 1942 þar sem hann bjó æ síðan og lést þar á miðjum áttræðisaldri um 1995. Nærri hálfri öld eftir að hann hafði dvalið í Reykjavík, fréttist að hann hefði skilið eftir sig lífsneista í Reykjavík, stúlku sem var farin að nálgast miðjan aldur.

Það var semsagt sonur hennar sem ég hitti á aðalfundinum, hinn myndarlegasti maður eins og von er og vísa. Að sjálfsögðu höfðum við ýmislegt að ræða um eftir fundinn og víst er að kynnum okkar er ekki lokið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli