fimmtudagur, febrúar 21, 2008

21. febrúar 2008 - Köttur á ferð og flugi

Það var fyrir nærri tuttugu árum síðan að sænsk kisa sá opinn gám fyrir utan hús eitt í Lundi í Svíþjóð. Þetta var stór og mikill gámur í augum kattarins, blár að lit og fólk í kring við að setja búslóð inn í gáminn.

“Best að kíkja inn og sjá hvað er fleira áhugavert þarna inni” hugsaði kisa og læddist inn án þess að nokkur yrði hennar var. Svo kom einhver og lokaði gámnum og vesalings kisa var innilokuð í myrkrinu.

Svo var gámurinn hífður upp á flutningabíl og honum ekið til Hälsingborgar. Einhverjum dögum síðar kom svo skip og tók gáminn, hélt síðan sinni áætlun og síðan yfir hafið til Íslands. Í Reykjavík var gámnum skipað í land og eftir hefðbundna pappírsvinnu var hann fluttur vestur á Seltjarnarnes og settur niður á jörðina framan við hús eitt þar sem hann var opnaður. Hið fyrsta sem fólkið sá er það opnaði gáminn með búslóðinni sinni var glorhungruð kisa sem reynt hafði að leita sér matar í húsgögnum í myrkri gámsins án árangurs. Þá hafði hún gert ítrustu þarfir sínar inni í gámnum og lyktin var ógeðsleg af rifnum og tættum húsgögnum.

Ekki var þrautagöngu kisu lokið með þessu því henni var tafarlaust ekið upp á dýraspítala þar sem hún lauk ævi sinni samkvæmt lögum og reglum um innflutning dýra. Hennar hefur vafalaust verið sárt saknað af heimili sínu í Lundi í Svíþjóð.

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/02/21/kottur_a_ferd_og_flugi/


0 ummæli:







Skrifa ummæli