laugardagur, febrúar 09, 2008

9. febrúar 2008 - Í upphafi voru engar auglýsingar

Þegar ég byrjaði að blogga voru engar auglýsingar á bloggsíðum. Ég byrjaði að blogga hjá því sem hét blog.central.is og hafði nýlega verið stofnað af tveimur ungum tölvunarfræðinemum og voru þeir ósparir á að láta notendurna vita að þeir þyrftu sennilega að fjármagna kostnaðinn við reksturinn á bloggkerfinu með eins og einni auglýsingu.

Svo birtist auglýsingin og við notendurnir vorum flest sæmilega sátt við framtak ungu mannanna, enda var þessi eina auglýsing lítil og hófleg. En þetta var bara byrjunin.

Nokkru síðar birtist ræma ofan við textann vel merkt fyrirtækjum 365 miðla. Með því að 365 miðlar höfðu náð eignarhaldi á umræddu bloggkerfi þurfti að ná í aura til að reka kerfið og skila arði til eigendanna. Því leið ekki á löngu uns öllum aukaþáttum var hent út og ekki hægt að fá þá inn aftur nema gegn hóflegri þóknun. Því til viðbótar komst ég í jólaskap af því að bloggið mitt fór að blikka eins og jólatré af auglýsingum. Ég veitti mér því þá jólagjöf að opna nýja bloggsíðu á blogspot.com og hefi verið með hana síðan í desember 2005. Reyndar sáu stjórnendur blog.central.is að sér síðar og felldu niður gjaldið fyrir aukahlutina og drógu eitthvað úr auglýsingaflóðinu. Ég hefi samt ekki séð ástæðu til að snúa til baka.

Ég byrjaði að blogga á Moggabloggi fyrir rúmu ári síðan, í desember 2006. Auk þess að vera með þægilegt notendaviðmót voru engar auglýsingar að því frátöldu að nokkrir bloggarar seldu auglýsingapláss á síðunum sínum. Ég kaus hinsvegar að halda áfram að skrifa án auglýsinga en hélt áfram að skrifa á blogspot til að hafa eitthvað að hverfa að ef Moggabloggið yrði fyllt af auglýsingum.

Nú er fyrsta auglýsingin komin á Moggabloggi og ég veit ekki mitt rjúkandi ráð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli