föstudagur, febrúar 22, 2008

22. febrúar 2008 - Jákvæð eða neikvæð afstaða?

Fyrir nokkru hitti góður vinur minn sameiginlegan kunningja okkar úr æsku sem kallaður er Lalli Johns þar sem hann var á leið í Félagsmálaráðuneytið til viðræðna við Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra. Að sögn vinar míns var erindi Lalla það að athuga hvað liði óskum Breiðavíkurdrengja um fébætur til handa þeim sem töldu sig hafa orðið fyrir skaða vegna dvalar sinnar í Breiðavík.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun er ég heyrði að skýrsla Breiðavíkurnefndarinnar yrði lögð fram í dag. Í útvarpsfréttum benti Róbert Spanó formaður Breiðavíkurnefndarinnar á það að réttur til skaðabóta vegna vistunar drengja á Breiðavíkurheimilinu sé fyrndur samkvæmt lögum. Orð hans eru eðlileg enda liðin 35-55 ár frá þeim brotum sem þar voru framin og þá helst því broti forstöðumanns til átta ára að “með illu skal illt út reka”.

Ég styð algjörlega þær raddir sem telja að greiða beri drengjunum bætur vegna vistunar sinnar að Breiðavík, en um leið velti ég fyrir mér orðum Róberts Spanó þar sem hann bendir á að það þurfi að koma til jákvæð afstaða til greiðslu skaðabóta. Því spyr ég hvort ekki megi líta á orð Róberts sem kröfu til ríkisvaldsins um skaðabætur þar sem enginn ráðherra vill fá á sig þann stimpil að framkvæma embættisfærslur sínar með neikvæðri afstöðu til mála.

Lalla vegna og annarra Breiðavíkurdrengja vona ég svo að ríkisstjórnin afgreiði málið fljótt og vel og með jákvæðum og örlátum hætti.


http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/02/22/tvenns_konar_grundvollur_fyrir_hugsanlegum_botagrei/


0 ummæli:







Skrifa ummæli