Vilhjálmur Þórmundur Vilhjálmsson borgarfulltrúi lýsti því yfir á sunnudag eftir fund með nánustu flokkssystkinum sínum, að hann ætlaði að halda áfram að leiða borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins. Þetta var mikil frétt að mati fjölmiðla. Fyrir okkur hin var þetta dæmigerð ekkifrétt.
Minnst þrisvar sinnum á síðustu tveimur vikum hefur vesalings Villi gengið framfyrir skjöldu og lýst því yfir að hann ætli að halda áfram að leiða borgarstjórnarhópinn sinn. Heldur hann virkilega að við trúum honum ekki? Við trúum honum alveg, líka þau sem hafa kvatt Sjálfstæðisflokkinn á síðustu vikum vegna þess að enginn vill axla ábyrgð á mistökunum í REI-málinu.
Einhvernveginn fer Villi að minna mig á Göran Persson síðustu dagana áður en hann tók við formennsku í Socialdemokratiska Arbetarpartiet og forsætisráðherraembætti í Svíþjóð í mars 1996, en hvað eftir annað lýsti hann því yfir að hann væri ekki á leiðinni að taka við forsætisráðherraembættinu, síðast þegar hann fór inn á lokaðan fund þar sem hann var valinn forsætisráðherra eftir afsögn Ingvars Carlssonar. Með þessum stælum sínum féll hann gjörsamlega í áliti hjá mér.
Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna eftir að hafa margheyrt þessar yfirlýsingar vesalings Villa, að hann sé að undirbúa sig undir að fylgja fordæmi Alfreðs vinar okkar Þorsteinssonar, hætta og setjast í helgan stein.
mánudagur, febrúar 25, 2008
25. febrúar 2008 - Ekkifrétt sunnudagsins
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli