miðvikudagur, febrúar 20, 2008

20. febrúar 2008 - Leikur að tölum

Þær raddir heyrast æ oftar að nauðsynlegt sé að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 21 vegna mikils álags á sérhvern þeirra. Til þess að bæta úr þessu er sífellt meiri ábyrgð færð á hendur varaborgarfulltrúa.

Meirihluti Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks sem ríkti á árunum 1978 til 1982 gerði sér grein fyrir þessu álagi og samþykkti fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 21 fyrir kosningarnar 1982 og efa ég ekki að þetta ásamt skefjalausum áróðri Morgunblaðsins gegn skipulagsmálum hafi orsakað fall meirihlutans 1982 því auðvitað sér almenningur eftir aurunum sem fara í að fjölga borgarfulltrúum. Síðan var borgarfulltrúum fækkað aftur niður í 15 og hefur enginn þorað að impra á þessu síðan þá og nú sitja 15 borgarfulltrúar yfirhlaðnir verkefnum, en treysta æ meira á varaliðið til að leysa úr hinum ýmsu verkefnum.

En hvernig hefði staðan orðið ef borgarfulltrúarnir hefðu verið 21 við síðustu borgarstjórnarkosningar? Ég fór að reikna og fékk það út að við slíkar aðstæður hefðu Sjálfstæðismenn verið með níu borgarfulltrúa, Samfylking sex, Vinstrigrænir þrjá, F-listi með tvo og Framsókn með einn borgarfulltrúa. Þetta hefði með öðrum orðum þýtt að Framsókn hefði ekki komið til greina sem samstarfsflokkur Sjálfstæðisfloks eftir síðustu kosningar. Hinsvegar hefði ...... . ......... auðveldlega getað skriðið uppí hjá íhaldinu og þá væntanlega tekið Margréti með sér enda var þetta áður en allt fór upp í loft á milli þeirra tveggja. Þessi sami ...... ekki getað skriðið uppí hjá vesalings Villa nema Margrét væri einnig með. Ef hinsvegar Degi hefði auðnast að mynda meirihluta á sama hátt og átti sér stað síðasta haust, hefði ...... ekki getað sprengt þáverandi meirihluta þótt hann hefði komið sér heim til íhaldsins.

Ég veit hinsvegar ekki hvort hinn aukni fjöldi borgarfulltrúa hafi komið vesalings Villa inn í borgarstjórn 1982.

Til fróðleiks má þess geta að sveitarfélagið Jarmafellshreppur (Järfälla kommun) skammt norðvestan Stokkhólms þar sem ég bjó í Svíþjóð er með um 63 þúsund íbúa og fjöldi bæjarfulltrúa er 61.


0 ummæli:







Skrifa ummæli