laugardagur, febrúar 16, 2008

16. febrúar 2008 - MH-ingar, æææ...

Með stúdentspróf frá MH í vasanum hlýtur hjarta mitt ávallt að vera með MH-ingum í Gettu betur. Svo hefur einnig verið öll þessi ár og jafnoft hefur gleðin breyst í vonbrigði, oftast þó á síðustu metrunum.

Þennan veturinn held ég þó aðallega með MH af gömlum vana. Mér finnst liðið ekki standa sig með sama glæsileika og oftast áður þótt þeir séu búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitum. Ég get svosem fyrirgefið þeim að muna ekki nafnið á braskaranum í Société Générale sem og nafnið á Vonarskarði, en að klikka á einföldustu eðlisfræðispurningum eins og Beaufort-kvarðanum finnst mér öllu grátlegra í óvenju léttri keppni föstudagsins svo ekki sé talað um dæmigerðar hraðaspurningar úr nágrenni okkar eins og Þerney, styttuna af Jónasi og gamla konsúlatið að Höfða og síðan laufléttar spurningar um Sigurhæðir Matthíasar og Monróvíu, höfuðborg Líberíu.

Vissulega unnu MH-ingar keppnina naumlega á föstudagskvöldið, en það var einhvernveginn enginn sigurvegarabragur á þeim. Ef þeim á að takast að sigra keppnina sem ég vona svo sannarlega, verða þeir að standa sig betur en að vonast eftir sigri með heppninni einni.

Um leið fannst mér hálfgerð synd að Kvennaskólinn komst ekki lengra í þetta sinn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli