Það var fyrsta helgin í febrúar fyrir 40 árum. Ég var nýorðin 16 ára og hafði ráðið mig á vertíð á vélskipið Pétur Thorsteinsson BA-12 frá Bíldudal. Fyrstu dagana sem við rérum höfðu gengið sæmilega og við komum í land á laugardagskvöldi, lönduðum aflanum og svo fór áhöfnin á þorrablót í rækjuverksmiðjunni (Bíldudals grænar baunir). Ekki var unnt að halda þorrablótið í Baldurshaga sem hafði kviknað í um haustið og var enn í endurbyggingu.
Við vorum öll aðkomufólk á Bíldudal nema skipstjórinn og því kom mestöll áhöfnin um borð eftir þorrablótið. Um nóttina fór að hvessa og brátt var veðrið orðið snarvitlaust. Við fórum að fylgjast með veðrinu og ástandinu í talstöðinni aðeins norðar, í Ísafjarðardjúpi. Breskir togarar sendu út neyðarkall. Bátur hélt frá Bolungarvík í átt til Ísafjarðar. Í gegnum talstöðina var fylgst með samtölum áhafnar Heiðrúnar II og varðskipsins Óðins sem fylgdi henni áleiðis til Ísafjarðar allt þar til Óðinn þurfti að kveðja vegna bresks togara (Notts County) sem hafði strandað við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Frá Heiðrúnu II ÍS heyrðist aldrei framar. Hún fórst á leiðinni frá Bolungarvík til Ísafjarðar með sex manna áhöfn þar á meðal föður og tveimur sonum hans.
Vélstjórinn á Andra BA grét. Hann átti vini á Heiðrúnu II og maður grætur grimmileg örlög vina sinna. Það var líka óhugnanlegt að fylgjast með hamförunum í Ísafjarðardjúpi í talstöðinni, einn togari strandaður, öðrum að hvolfa og margir í erfiðleikum vegna veðurofsa og yfirísingar.
Það dró aðeins úr versta fárviðrinu þegar leið að hádegi. Það varð þó skammgóður vermir því um kvöldið var fárviðrið orðið síst betra en nóttina áður og þá slitnaði báturinn frá bryggjunni þrátt fyrir að hafa verið bundinn við bryggju með sextán endum. Það þurfti að binda bátinn betur og við héldum tvö út á bryggjuna til að taka á móti fleiri spottum. Það kom virkileg vindhviða. Mér tókst að grípa í endann á slitnu fastsetningartógi sem hékk utan í bryggjupolla og halda í það þótt lappirnar yrðu lárettar í veðrinu. Maðurinn sem var með mér á bryggjunni náði hinsvegar ekki neinu haldi og þar sem ég ríghélt í minn spotta horfði ég á eftir 100 kílóa manninum þar sem hann tókst á loft og sveif fleiri tugi metra yfir bryggjunni og magalenti síðan á bryggjusporðinum, lifandi og heill. Fljótlega eftir þetta var gefist upp á að reyna að halda skipinu við bryggjuna og haldið sjó skammt frá bryggjunni þar til veður tók að lægja um nóttina og hægt að leggjast aftur að bryggju og þá í betra skjóli innanvert við bryggjuna.
Það fórust 25 manns í Ísafjarðardjúpi af þremur skipum í þessu veðri sem gjarnan var líkt við Halaveðrið 1925, þar af 19 breskir sjómenn. Þar með höfðu 59 breskir sjómenn af fjórum togurum farist frá því um miðjan janúar 1968.
Þess má geta að vélstjórinn á Andra drukknaði sjálfur tveimur árum síðar með Sæfara frá Tálknafirði sem fórst 10. janúar 1970.
http://timarit.is/mbl/?issueID=418867&pageSelected=-2
sunnudagur, febrúar 03, 2008
4. febrúar 2008 - 40 ár!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli