mánudagur, desember 29, 2008

30. desember 2008 - Enn ein fertug sagan.

Eins og ég hefi margoft komið inn á í pistlum mínum á árinu 2008, var árið 1968 mikið tímamótaár, ekki aðeins fyrir mannkyn heldur einnig fyrir mig. Þetta var árið sem brestir fóru að sjást í sovétkommúnismanum og sem ungt fólk í Vestur-Evrópu fór í vaxandi mæli að hafna lífsgæðakapphlaupinu og alheimskapítalismanum. Þá var kreppa og rétt eins og þá þurfum við enn að fara í naflaskoðun og hafna gróðahyggjunni sem hefur leitt okkur á vonarvöl. Sjálf var ég að taka út þroska og síðustu daga ársins dundaði ég mér við æfingartíma því nú skyldi tekið ökupróf.

Það var að morgni þess 30. desember 1968 sem ég mætti í Borgartún 7 ásamt ökukennaranum mínum því hann vildi vera viðstaddur. Svo kom birtist ungur og snaggaralegur prófdómarinn í fullu úniformi bifreiðaeftirlitsmanns og settist farþegamegin inn í litlu Volkswagen bjölluna, ökukennarinn afturí og ég undir stýri. Það voru að sjálfsögðu engin öryggisbelti í bílnum því krafa um notkun öryggisbelta í ökuprófi tóku gildi tveimur dögum síðar.

Þetta var löng ökuferð. Það var þvælst um allan bæinn og ökukennarinn og prófdómarinn hnakkrifust um pólitík, enda ástandið í pólitíkinni álíka eldfimt og nú, Þorláksmessuslagurinn einungis vikugamall, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í viðreisnarstjórn sem hamaðist við að reka atkvæðin úr landi, til Svíþjóðar og Ástralíu.

Það var bakkað í stæði og gerðar fleiri skemmtilegar æfingar. Ég minnist þess þó að ég gerði eina villu í prófinu, en ég veit ekki hvort það var af völdum athyglisbrests prófdómarans sem var orðið heitt í hamsi í pólitískum umræðum, að hann minntist aldrei á villuna eða sá hana aldrei. Allavega hélt hann mikla lofræðu yfir ökuhæfni minni er komið var að nýju niður í Borgartún og fullyrti það að ef ökumenn ækju almennt eins og ég, yrðu fá slys í umferðinni. Um eftirmiðdaginn flýtti ég mér svo öðru sinni í Borgartún 7 og sótti ökuskírteinið mitt.

Þótt ég hafi ekið eins og ökuníðingur allar götur síðan, er ökuferilsskráin eins og hjá hverjum góðum hvítvoðung, en fyrstu sektina fékk ég 17 árum síðar og þá fyrir að vera einum kílómetra yfir sektarmörkum. Hin sektin var tuttugu árum eftir hina fyrri og lítið hærri. Þá hefi ég einu sinni valdið smátjóni á bíl með vinnubílnum, en þá bakkaði ég yfir vélahlífina á smábíl, en hann hafði stöðvað svo nálægt mér að ég sá hann ekki í speglum hins háfætta vinnubíls.

Kannski átti ég það skilið að ná bílprófinu fyrir 40 árum.

Um leið og ég óska sjálfri mér til hamingju með ökuprófsafmælið, vil ég óska öllum hinum afmælisbörnum dagsins einnig til hamingju með afmælið, þar á meðal Albert frænda mínum hjá Hitaveitu Suðurnesja sem er sextugur, og Rannveigu konu hans sem er mörgum árum yngri og svo að sjálfsögðu Tiger litla Woods sem er kylfusláttumaður vestur í Bandaríkjunum. Svo má nefna að fjórum dögum eftir að ég tók ökuprófið, fæddist næsti afburðaökumaður í Þýskalandi, en sá heitir Michael Schumacher og er kominn á eftirlaun fyrir fáeinum árum.

laugardagur, desember 27, 2008

27. desember 2008 - Vitringarnir þrír

Þegar ég skrifaði pistilinn minn í gær reiknaði ég fastlega með þvi að tveir til þrír vitringar kæmu með gáfulegar athugasemdir á orð mín um Joseph Ratzinger. Vissulega skiluðu þrír vitringar sér (sjá Moggabloggið mitt), bara ekki þeir sem ég átti von á, nema auðvitað að ónefndur vinur minn, sem ég ber mikla virðingu fyrir á öðrum sviðum, sé farinn að skrifa gegn mér undir heitinu Efasemdir. En þrír voru þeir sem tóku að sér að verja ræfilstuskuna suður í Róm.

Það eru nokkrir vitringar sem telja sig vera með sérleyfi á trúmálum og þá sérstaklega orðum Biblíunnar. Verði þeim að góðu. Ég er ekki sérfræðingur í orðum Biblíunnar og þótt ég kannist við einstöku frasa úr þeirri bók, tek ég hæfilega mikið mark á henni, þó síður á gamla testamentinu sem er skrifað á margan hátt í anda úreldra samfélagsviðhorfa.

Einn vitringanna þriggja spurði hvort viðhorf mín væru komin úr hinni nýju þýðingu Biblíunnar. Svar mitt er einfalt. Það er nei. Viðhorf mín byggjast á almennri siðgæðisvitund um kærleika og fyrirgefningu í anda nýja testamentisins. Orð mín um það hvaða fólk sefur hjá hverjum er hinsvegar í anda nútímaviðhorfa sem eru að ná yfirhöndinni á vesturlöndum. Sumir kjósa samt að lifa í forneskju og anda gamla testamentisins.

Ég er að lesa sögu Harðar Torfasonar. Sumar af lýsingum hans þekki ég af eigin skinni frá fyrri árum, aðrar frá liðnum árum. Baráttunni er ekki lokið og henni lýkur seint á meðan karlar í hvítum kjólum á borð við Joseph Ratzinger halda áfram hatursáróðri sínum gegn minnihlutahópum í samfélaginu. Á meðan þurfum við að halda minningarvökur um tugi einstaklinga sem hafa látið lífið á hverju ári vegna fordóma, margir í kaþólskum ríkjum.

Með þessu langar mig að þakka þeim sem sjálfviljugir hafa haldið uppi vörnum fyrir mína hönd, þótt ég hafi kosið að þegja vegna blóðþrýstingsvandamála.

Svo ætla ég að klára Hörð Torfason ættingja minn með því að taka hann með mér í anda í rúmið í nótt.

föstudagur, desember 26, 2008

26. desember 2008 - Karl í hvítum kjól

Það ætti síst að vera mitt hlutverk að dæma karla sem ganga í kjólum, hvað þá hvítum kjólum, en einn er sá karlinn sem böðlast áfram suður í Róm og formælir öllum þeim sem gera slíkt hið sama, eða leggjast með öðrum körlum. Mér er að vísu ókunnugt um hvort Joseph Ratzinger páfi sé samkynhneigður, en samkvæmt opinberum gögnum hefur hann aldrei verið við kvenmann kenndur. Slíkur náungi sem að auki er klæðskiptingur, ætti að sleppa því að fordæma trans eða samkynhneigð.

Ég fékk fyrst að heyra af orðum mannsins gegn transfólki fyrir nokkrum dögum er ég fékk í hendurnar ræðu hans á ítölsku með úrdrætti á ensku þar sem hann talar um transfólk og síðar heyrði ég að hann hefði notað álíka gáfuleg ummæli um samkynhneigða. Í báðum tilfellum fannst mér hann höggva nærri sjálfum sér, gangandi um í kjól alla daga með karla í kringum sig jafnt daga sem nætur

Stundum efast ég um að við tilbiðjum sama Guð því almættið sem ég trúi á er uppfullt kærleika og fyrirgefningar á syndum mannanna. Það trúir á hið góða í hverri manneskju og er ekkert að skipta sér af því hvað fer fram í bólinu hjá fólki á meðan það er innan marka þess sem tvær fullorðnar manneskjur geta gert hvor annarri á meðan það er að vilja beggja.

Úrdráttur á ensku úr ræðu Josephs Ratzinger:

"... the Church (...) has a responsability for the creation and must endorse such responsability in the public sphere. By doing it, [the Church] must not only protect earth, water, air as gift of the creation belonging to everybody. It must protect mankind from self-distruction. something like "mankind ecology" is needed. The fact that the Church talks of the nature of the human being as man and woman and claims that this order of creation is respected is not obsolete metaphysics. In fact, this is about faith in the Creator and in listening to the word of the creation, whose contempt would be the self-distruction of mankind and, thus, the distruction of God's work itself. What it is often expressed and meant by the word "gender" is in fact mankind self-emancipation from the creation and the Creator. (...)"

Og svo ræðan öll á ítölsku:

http://www.vatican.va/holy_father/benedict_xvi/speeches/2008/december/documents/hf_ben-xvi_spe_20081222_curia-romana_it.html

fimmtudagur, desember 25, 2008

25. desember 2008 - Lífið var fjölbreytt fyrir 40 árum

Það skeði margt fyrir 40 árum ekki síður en nú, bæði gott og slæmt. Þá var kreppa eins og nú. Það voru miklar deilur í þjóðfélaginu og þegar Þorláksmessuslagurinn var í Bankastræti, var ég úti að aka með ökukennara. Mér lá á svo mér tækist að ná bílprófinu á afmælisdaginn. Í einhverjum bílskúr úti í bæ var Kobbi bróðir að skrúfa síðustu skrúfurnar í niðursetningu á nýuppgerðri vél í gömlum Ford árgerð 1955.

Á aðfangadag jóla árið 1968 var bíllinn tilbúinn og prófaður. Kobbi bróðir bauð mér með austur á Hvolsvöll, en systir okkar hafði náð sér í eiginmann úr Fljótshlíðinni og tilvalið að heimsækja þau yfir jólin. Systur okkar var tilkynnt að við ætluðum að vera komin austur klukkan fimm og svo var lagt af stað úr Reykjavík klukkan fjögur. Ekki þurfti bróðir að hafa áhyggjur af hraðanum því núverandi yfirvald á Selfossi var þá í jólaleyfi heima á Írafossi frá 3. bekk í MR.

Á þessum árum var að sjálfsögðu malarvegur alla leið og það var kalt, en ekki mikil hálka. Eins og áður sagði var bíllinn með nýuppgerða vél og ágætlega kraftmikill og bróðir lét gamminn geysa. Allt gekk vel í fyrstu og er við fórum í gegnum Selfoss sáum við fram á að verða ekki mikið á eftir áætlun. Nokkru austar komum við að bíl úti í vegkanti með vélarhlífina opna og bílstjórinn að bjástra eitthvað. Þetta var stór og gamall amerískur kaggi sem var meira en bróðir minn gat látið afskiptalaust og hann fór að aðstoða bílstjórann sem virtist á svipuðu reki og við, kannski lítið eldri.

Kannski var bensínstífla að hrjá kaggann, kannski frosið í leiðslum, en ekki fór hann í gang. Eftir heilmikið basl gáfust þeir upp á viðgerðinni og ákváðu að draga bílinn heim til stráksa lengst upp í Hreppa og gekk sú ferðin ágætlega. Eftir að hafa skilað honum heim á hlað, var haldið áfram austur á Hvolsvöll og er þangað var komið, var klukkan um níu á aðfangadagskvöld jóla. Voru systir mín og mágur þá farin að óttast um okkur og mágur minn að gera sig kláran að hafa samband við björgunarsveitina á Hvolsvelli þar sem hann var sjálfur meðlimur.

Það má svo fylgja sögunni að er við héldum áleiðis til Reykjavíkur á annan dag jóla, komst bíllinn með nýuppgerða vélina aldrei lengra en upp í Kambana en þar gaf hann upp öndina með kolúrbrædda vél.

Á aðfangadagskvöld jóla 2008, fjörtíu árum síðar, mætti ég á réttum tíma í mat til systur minnar og mágs sem nú eru ein eftir í kotinu sem nú er í Kópvogi og tilvalið að rifja upp gamlar minningar.


Með þessum orðum óska ég öllum áframhaldandi gleðilegra jóla.

miðvikudagur, desember 24, 2008

24. desember 2008 - Úti að aka á aðfangadag

Ég fór út að aka eftir hádegi á aðfangadag. Ekki þurfti ég að aka í miklum æsingi, aðeins að skreppa með jólagjöf til handa ungum og upprennandi KRing í vesturbænum, aðra gjöf til Jóns á Völlunum og þá þriðju til heimsætu ofan snjólínu í Breiðholti og fjölskyldna þeirra. Semsagt allt í samræmi við hefðir jólanna.

Þegar ég nálgaðist vesturbæinn, kom fyrsta hindrunin, fólk á leið í kirkjugarðinn og vildi njóta síðustu mínútnanna ofanjarðar. Engin alvarleg hindrun það. Umferðinni framhjá Fossvogskirkjugarði var stjórnað af vöskum lögregluþjónum og var það vel.

Umferðin suður í Hafnarfjörð var hræðileg. Sumir voru að flýta sér en aðrir óku eins og þetta væri þeirra síðasti dagur sem ætti að njóta til fullnustu. Ég hitti fjölskylduna á Völlunum og afhenti þeim pakkana sína. Á leiðinni þaðan lenti ég fyrir aftan einn á 30 km hraða á Reykjanesbrautinni og hann var sennilega á leiðinni FRÁ kirkjugarðinum og ég fór að óttast að ég næði ekki jólabaðinu fyrir klukkan sex.

En heim komst ég að lokum og í jólabaðið.

-----oOo-----

Ég vil óska þessum fáu lesendum mínum sem eftir eru sem og öllu öðru góðu fólki gleðilegrar hátíðar í Guðs friði.

24. desember 2008 - Snillingur kveður

Í morgun lést sænski listamaðurinn Alf Robertsson einungis 67 ára að aldri. Það sem ég held að hafi hrifið flest það fólk sem hlustaði á hann, var meðferð hans á laginu við sænska þjóðsönginn og hvernig hann tengdi sænskt hversdagslíf við þjóðsönginn með nýjum upplesnum texta þar sem lagið við þjóðsönginn var spilað undir.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í að tala um ævi og störf Alf Robertsson, en hann var meðal fremstu sona Gautaborgar, en vísa til fréttar um hann í Dagens nyheter, en einnig þessarar snilldar sem finna má á http://www.youtube.com :

http://www.youtube.com/watch?v=-L4m6YTnbn8


http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2374&a=867557

þriðjudagur, desember 23, 2008

23. desember 2008 - Litli útrásarvíkingurinn

Eitt af skylduverkefnum Þorláksmessu ef tími leyfir, er að fara í friðargöngu. Hún leggur venjulega af stað frá Hlemmi klukkan 18.00 og gengið niður í bæ, í þetta sinn niður á Hallærisplan sem nú hefur hlotið hið virðulega heiti Ingólfstorg.

Veðurmáttarvöldin voru okkur náðug í þetta sinn. Þrátt fyrir regnskúr rátt fyrir gönguna stytti upp og hélst þurrt þar til göngunni og útifundinum var lokið, en þar hélt hin síunga Birna Þórðardóttir aðalræðuna þótt Hamrahlíðarkórinn væri auðvitað í aðalhlutverkinu, syngjandi jólasálma alla leiðina og skapaði þannig stemmninguna sem hæfir deginum fyrir stærstu hátíð ársins.

Það sem vakti helst athygli mína í göngunni var ekki einvörðungu fagur söngur Hamrahlíðarkórsins, heldur dularfullur skeggjaður maður sem gekk á móti friðargöngunni rétt eins og þriðji síðasti Framsóknarmaðurinn fyrir tveimur árum. Maðurinn, sem var eitthvað kunnuglegur þrátt fyrir skeggið, læddist með veggjum og lét lítið fara fyrir sér og það var því ekki fyrr en ég mætti honum og horfði beint í augu hans sem ég áttaði mig á því hver hann var. Þarna var þá Litli útrásarvíkingurinn mættur ljóslifandi í eigin persónu.

Af því að ég var í friðargöngu, sagði ég engum frá að sinni og lofaði honum að fara í friði.

23. desember 2008 - Af rýrnun lífeyrissjóðs

Ég skrapp á fund hjá Lífeyrissjóðnum Kili á mánudag. Ekki var við miklu að búast því bæði er framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins sá hinn sami sem fjárfest hafði dyggilega í helstu þjófafyrirtækjum Íslandssögunnar fyrir hönd Íslenska lífeyrissjóðsins með hrikalegri rýrnun í kjölfarið, en einnig kann það aldrei góðri lukku að stýra að halda fund tveimur dögum fyrir jól.

Það var ekki liðinn langur tími af fundinum þegar ljóst var að ekki átti að segja allan sannleikann. Endurskoðandinn sem játaði að starfa hjá KPMG, neitaði að gefa upp hjá hvaða fyrirtækjum lífeyrissjóðurinn hefði fjárfest hjá, en stjórnarformaðurinn hélt því fram að það væru engin fjárglæfrafyrirtæki á listanum. Það er nú gott til þess að vita að Baugur, Stoðir og Exista svo nokkur séu nefnd, eru ekki fjárglæfrafyrirtæki með vafasama starfsemi. Þessi fyrirtæki og mörg önnur í svipuðum dúr komu nefnilega við sögu á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins fyrir sex dögum síðan sbr. færslu mína hér að neðan..

Á fundinum kom fram að að rýrnun lífeyrissjóðsins Kjalar hefði verið um 15% að nafnverði á ellefu mánaða tímabili. Á sama tíma var verðbólgan um 18% sem segir að raunrýrnunin var í reynd nærri þriðjungur. Þegar hér var komið á fundinum voru gömlu mennirnir sem höfðu lagt ævistarf sitt í sölurnar í vinnu fyrir Eimskip komnir í reiðiham og fundurinn leystist nánast upp fyrir bragðið.

Ég skil þá félaga alveg mætavel, enda get ég ekki leikið sama leikinn með lífeyrissjóðinn Kjöl og ég gerði á dögunum með Íslenska lífeyrissjóðinn og flutt allt mitt með mér á öruggari stað.

http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/747154/

-----oOo-----

Ég vona að lífeyrisþegar Lífeyrissjóðsins Kjalar fái að njóta rausnar Ketkróks í nótt.

mánudagur, desember 22, 2008

22. desember 2008 - Nú er illt í efni, Gáttaþefur á leiðinni!

Það er orðið svo langt síðan ég framkvæmdi jólahreingerninguna að ég þarf að taka til aftur fyrir jól. Þá er ekki sniðugt að Gáttaþefur skuli vera á ferðinni.

Það er ótrúlegt hve hann er duglegur að þefa upp minnstu rykagnir í bókahillunum og ofan á myndarömmum. Þá er hann alveg sérstaklega viðkvæmur fyrir kattaklósettum og þau eru tvö á þessu heimili og bæði komin inn í stofu vegna válegs veðurútlits og varnaðarorða veðurfræðings fjölskyldunnar.

Ég get víst gleymt því að nokkur gefi mér í skóinn í fyrramálið

sunnudagur, desember 21, 2008

21. desember 2008 – Uppáhaldsjólaveinninn minn

Eins og fólk veit, leynist örlítill perri í okkur öllum. Perrinn getur verið af ýmsum ástæðum, fólk kveikir á leðri eða latexi, fagurlimuðum pústurrörum eða reiðhjólum.

Sjálf hefi ég ekki farið varhluta af grunsemdum í þessa veru. Ef ég horfði út um svefnherbergisgluggann minn á árum áður, sá ég beint inn um stofugluggann hjá nágrannakonu minni og þurfti ekki einu sinni að kaupa mér sjónvarp með risaflatskjá, mér nægði bara að fara á sex mánaða námskeið í varalestri til að átta mig á öllu sem fram fór á flatskjánum hinum megin við bílastæðin. Að endingu þoldi nágrannakonan ekki við lengur, seldi flatskjáinn sinn og keypti sér fiskabúr í staðinn.

Ef ég horfi út um stofugluggana eða af svölunum sé ég ágætlega inn í eldhúsið þar sem önnur nágrannakona mín bloggar af miklum móð. Þar sem umrædd nágrannakona er laus við athyglissýki, hefur hún hótað mér að kaupa sér þykkar eldhúsgardínur ef ég horfi yfir til hennar aftur, en ég held að það sé ekkert að marka orð hennar. Allavega tókst mér að draga hana með á tónleika á föstudagskvöldið sem sjá má af síðustu færslu.

Ástæða þess að ég get þessara þátta hér og nú er einföld. Uppáhaldsjólasveinninn minn, hann Gluggagægir, ætlar að stunda peepshow í nótt. Ég þori því ekki öðru en að klæðast mest kynþokkafulla náttfatnaðinum mínum í nótt því ég veit að ég hefi verið góð stelpa og fæ kannski eitthvað flott og sexí í háhælaskóinn minn í nótt.

laugardagur, desember 20, 2008

20. desember 2008 - Illa farið með Dúu dásamlegu!

Á föstudagskvöldið fórum ég og nágranni minn í næsta húsi, á tónleika á Café Rosenberg. Við höfðum mjög jöfn skipti á skemmtuninni, hún keyrði og ég drakk öl.

þegar inn var komið fengum við pláss í sófa við átta manna borð og var nú ekki annað en að vona að Dúa fyndi sér framtíðarprinsinn þarna inni. Ekki leið á löngu uns Kata yfirgöngustjóri frá Gay Pride mætti á staðinn og vantaði sæti fyrir sig og þrjár samkynhneigðar vinkonur sínar og eðlilegt að þær fengju sæti hjá mér. Þá voru einungis tvö sæti laus og leið ekki á löngu uns tveir fjallmyndarlegir karlmenn létu sjá sig og gripu lausu sætin tvö. Þeir reyndust vera Felix og Baldur. Þar með var vesalings Dúa umvafin samkynhneigðu fólki á alla kanta.

Tónleikarnir voru algjör snilld, en þar fóru Borgardætur með jólatónleika sína í troðfullum sal, en tónleikarnir voru teknir upp til útsendingar á Rás 2 um jólin. Að sjálfsögðu skemmti ég mér hið besta, en ég er ekki jafnviss um skemmtunina hjá Dúu þótt hún héldi því fram að hún hefði skemmt sér ágætlega. Það var allavega ekkert hægt að setja út á tónleika Borgardætra sem stóðu sig sem aldrei fyrr og kannski aðeins betur en það.

föstudagur, desember 19, 2008

19. desember 2008 - Enn í jólafríi

Merkilegt hve miklu er hægt að koma í verk á einum degi. Mér tókst að ná í jólagjöfina mína, versla bækur til jólagjafa og kaupa tvö sett af brunavarnarefnum til handa börnum mínum og barnabörnum. Takk Landsbjörg, Ágústa og Jón Ingi. 

Það er full ástæða til að geta undraefnisins Burn Free enn og aftur. Ég þekki reynsluna af þessu undraefni og tel að það eigi að vera til á hverju heimili, auk sumarbústaða og eigi að vera með í útilegum að sumri til. Þá skilst mér að þetta sé náttúruefni og því fátt um ofnæmisviðbrögð við slíku efni. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig frekar um efnið, en læt örstutt myndband fylgja með um ótrúlega hraðan bruna. Ekki veitir af svona nokkrum dögum fyrir jól. Þess ber að geta að umrætt tré er greinilega orðið of þurrt og við að fella barrið þegar eldurinn verður því að aldurtila.

http://www.guzer.com/videos/christmas_tree_fire.php

Með þessu nota ég tækifærið og hugsa hlýlega til Sigríðar Sigurðardóttir sem var nátengd fjölskyldu minni og lést á Hrafnistu í fyrradag 89 ára að aldri.

fimmtudagur, desember 18, 2008

18. desember 2008 - Burn Free björgunarsett

Þótt það sé vika til jóla er ég komin í jólafrí. Einhverntímann hefði ég verið á leið út á sjó á þessum árstíma, en það er liðin tíð. Núna eyddi ég síðasta vinnudeginum fyrir jól á fundi um öryggismál í vinnunni.

Fundurinn minnti mig á annað atriði sem ástæða er til að velta fyrir sér nokkrum dögum fyrir jól. Það eru brunaslys. Eitthvert það sorglegasta sem hægt er að hugsa sér eru brunaslys í kringum jólin. Þá er ég ekki aðeins að hugsa um skaða á heimili, heldur og líkamstjón vegna bruna.

Fyrir nokkrum árum þurfti að sinna bilun í dælu. Við endurræsingu mótors varð sprenging í honum og eldtunga sleikti andlitið á vinnufélaga mínum. Ég var með efni í bílnum hjá mér sem heitir Burn Free og náði í efnið. Vinnufélaginn makaði þessu efni í andlitið á sér áður en hann hélt upp á Slysadeild til skoðunar. Daginn eftir var hann kominn til vinnu að nýju, án allra brunasára en jafnframt án andlitshára þeim megin sem eldtungan hafði sleikt hann. Síðan þá höfum við haft tröllatrú á þessu ágæta efni sem fæst hjá Landsbjörgu.

Það er kannski óvitlaust að gefa barnafólki fjölskyldunnar Burn Free björgunarsett í jólagjöf.

þriðjudagur, desember 16, 2008

17. desember 2008 - Verðbréfadrengir

Þegar spilaborg bankanna hrundi stóð ég í þeirri trú að ég hefði ekki tapað neinu vitandi að ég hafði fært helming séreignarsjóðsins míns frá hlutabréfabraski yfir í það sem ég hélt vera verðtryggt. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa af hinum helmingnum því hann var sannanlega að fullu verðtryggður. Um mánaðarmótin okt/nóv stóð ég enn í þeirri trú að leið 4 í Íslenska lífeyrissjóðnum hjá Landsbréfum/Landsbanka væri á góðri siglingu verðtryggingar og væri lagður af stað í átt að þriðju milljóninni.

Um daginn fékk ég bréf frá Landsbankanum. Samkvæmt bréfinu hafði öruggasta ávöxtunarleiðin í séreignarsparnaði, ekki aðeins rýrnað, heldur rýrnað mest allra sparnaðarleiða í bankanum eða um þriðjung að raunvirði. Vegna þessa sá ég ástæðu til að mæta á fund í Íslenska lífeyrissjóðnum á þriðjudagskvöldið þar sem verðbréfadrengirnir héldu uppi vörnum fyrir sig og verk sín. Hið einasta sem var ánægjulegt við fundinn var að þarna hitti ég allnokkurn hóp gamalla skipsfélaga og annars fólks sem ég þekki frá fyrri árum og drakk kaffi með þeim um leið og hlustað var á afsakanir drengja sem eru vart vaxnir upp úr stuttbuxunum og hvernig þeir gömbluðu með peningana okkar á blóðugu fórnaraltari Jóns Ásgeirs, Hannesar Smárasonar og tengdra félaga.

Í dag fékk ég annað bréf frá einum þeirra lífeyrissjóða sem ég hafði greitt í háar upphæðir á margra ára tímabili. Þar er ástæða til enn meiri ótta, því þeir boða fund með eigendum sjóðsins tveimur dögum fyrir jól.

Þess má geta að framkvæmdastjóri þess sjóðs er sami verðbréfadrengur og var að afsaka sig á fundi Íslenska lífeyrissjóðsins.

Er nema von að maður hafi áhyggjur fyrir jólin?

16. desember 2008 - Ég nenni ekki að blogga

Ég er algjörlega tóm í höfðinu. Ég nenni ekki að blogga þessa dagana. Ég er búin að fá upp í kok af efnahagsþrengingum og pólitík og einustu jákvæðu hlutirnir sem ég man þessa stundina er írakskur fréttamaður sem sýndi af sér djörfung og hetjudáð á blaðamannafundi sem og tilnefning Obama á nýjum orkumálaráðherra sem hlotið hefur Nobelverðlaun í eðlisfræði.

Svo er ég búin að skrifa á jólakortin til útlanda og einungis Íslandskortin eftir. Síðan get ég farið að ljúka jólahreingerningum og pakka inn jólagjöfum.

Jú eitt enn. Fyrir þá sem muna eftir Gylfa Pústmann, þá á sá tryggi vinur minn 66 ára afmæli í dag. Til hamingju.

mánudagur, desember 15, 2008

15. desember 2008 - Jólakortin

Einn af mínum föstu liðum fyrir hver jól er jólakortaritun. Ég geri ekkert endilega eins og algengt var á árum áður og margir gera enn, að safna kortunum frá því í fyrra og svara þeim, heldur reyndi ég fremur að miða við þá reglu að senda kort til þeirra sem ég hafði samskipti við á síðustu árum.

Þetta árið voru samskipti mín við útlönd aðeins minni en árin á undan sem leiðir af sér að jólakortum til útlanda fækkar talsvert á sama tíma og fjöldi jólakorta innanlands stendur nokkurn veginn í stað. Á hverju ári lofa ég mér því að byrja fyrr á korunum og á hverju ári gleymi ég mér þar til um miðjan desember og skrifa kortin á lokasprettinum. Núna skrifaði ég kortin til landa innan og utan Evrópu í gærkvöldi og tók góða rispu í kortum innan Norðurlandanna. Ég ætti því að vera búin með allann pakkann á þriðjudagskvöldið og get þá farið að kaupa afganginn af jólagjöfunum og lesa þessar bækur sem mér hafa áskotnast síðustu dagana.

sunnudagur, desember 14, 2008

14. desember 2008 - Af læknisheimsóknum

Á föstudag átti ég tíma hjá heimilislækninum mínum. Vegna ótta míns um eigið heilsufar, ákvað hann að senda mig til sérfræðings og fékk tíma fyrir mig hjá sérfræðingnum strax eftir áramótin.

Eftir að heim var komið, fletti ég upp á sérfræðingnum í læknatali og hann reyndist vera.............dýralæknir.

-----oOo-----

Á laugardag, eftir bréfamaraþon Íslandsdeildar Amnesty, kom ég við á Aðventugleði Samfylkingarinnar. Hún var nánast eins og Gay Pride því þau tvö sem lásu upp úr bókum sínum voru vinir mínir Hörður Torfason og Margrét Pála Ólafsdóttir.

Bæði eru þau góðir upplesarar og stóðu sig vel sem slík, en það var hrein unun að hlusta á Möggu Pálu segja frá fremur en að lesa úr bók sinni. Ég hlakka til að lesa báðar bækur þeirra sem komnar eru hingað heim.

-----oOo-----

Mér er ókunnugt um hvort kona að nafni Guðlaug og móðir tveggja frændsystkina minna lesi blogg mitt, enda hefi ég ekki heyrt hana né séð í áratugi. En hvort heldur er, fær hún hjartanlegar hamingjuóskir með stórafmælið sitt.

laugardagur, desember 13, 2008

13. desember 2008 - Um Melódíur minninganna

Það er fjöldi fólks sem setur samasem merki á milli Bíldudals og Jóns Kr. Ólafssonar söngvara með meiru, þessa manns sem hefur verið trúr sínum bæ frá fæðingu og fram á þennan dag. Því varð ég að komast yfir æviminningar Jóns Kr. Ólafssonar á Bíldudal á dögunum, enda hefur Jón Kr. frá mörgu að segja á löngum lífsferli þá ekki síst af samferðamönnum sínum lífs og liðnum.

Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með bókina. Skrásetjari hennar er annar góður Bílddælingur, Hafliði Magnússon sem gert hefur lífinu á nýsköpunartogurum góð skil og þeim ýmsu skemmtilegu karakterum sem þar störfuðu og því bjóst ég við fjörlegri lýsingum á mönnum og málefnum. Það rættist þó ekki því bókin reyndist of mikið bundin við söngferil Jóns og minningar hans af prestum staðarins og safnaðarstarfi, en alls ekki farið mikið í minningar hans af samferðamönnum sínum á Bíldudal fyrr og síðar.

Það er alveg ljóst að ævi Jóns og saga Bíldudals á seinni tímum eru samofin órjúfanlegum böndum, svo órjúfanlegum að ekki er hægt að minnast á sögu annars öðruvísi en að skrifa rækilega um hinn í leiðinni. Þetta vantar að miklu leyti í bókina. Í tilraunum til að hvítþvo allt og alla af einkennum sínum eru æskuminningar kappans afgreiddar í örfáum orðum.

Það er vissulega aðeins getið stöku merkismanns eins og Bjarna senjórs og Ingólfs bróður hans, en alls ekki nóg, enda mikil tengsl á milli Jóns Kr. og þeirra bræðra og náfrænda þeirra Inga Rafns sem hvergi er getið. Annarra er í engu getið, hvergi er nefndur Sigurður frá Uppsölum í Selárdal, bróðir Gísla og Jóns vinar hans í Valhöll er einungis minnst á einni mynd.Þá er fátt sagt af fóstra Jóns Kr., Hallgrími Ottóssyni. Það er ástæða til að nefna þetta því það virtist mikil og góð vinátta á milli þessa fólks og Jóns Kr. og fékk ég á tilfinninguna að sumt þetta fólk héldi hlífiskildi yfir honum er hann var ungur og óreyndur í lífsins ólgusjó og jafnvel fordæmdur af fólki utan síns nánasta umhverfis.

Þessa fólks og fjölda annarra er kannski minnst annars staðar, en það birtist okkur kannski í minningarbrotum þó síðar verði, enda af nógu að taka.

föstudagur, desember 12, 2008

12. desember 2008 - Nákvæmur veðurfræðingur

Á fimmtudag var ég að hlusta á viðtal á einhverri útvarpsstöðinni við einhvern veðurfræðing sem var að vara við miklu hvassviðri á fimmtudagskvöldið. „Veðrið verður mjög slæmt til klukkan ellefu, en þá snýst vindurinn og lægir.“

Ég sat hér heima um kvöldið og rétt fyrir klukkan ellefu um kvöldið vorum ég og Tárhildur grátkisa að fylgjast með ljósastaurunum sem svignuðu í rokinu fyrir utan gluggann. Síðan rölti ég inn í stofu og heyrði þá ekkert í veðrinu. Ég rölti þá aftur inn í herbergi og þá hafði veðrinu slotað. Þá var klukkan rétt orðin ellefu.

Því miður lagði ég ekki á mig nafn umrædds veðurfræðings, en svona nákvæmir menn eru gulls ígildi.

fimmtudagur, desember 11, 2008

11. desember 2008 - Nej, jag blir inte statsmininster!

Þessa rúmu tvo mánuði sem liðið hafa frá því kreppan skall á íslensku þjóðinni hefur ráðmönnum helst verið legið á hálsi fyrir aðgerðarleysi og fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann um ástand mála.

Í gær flutti Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar erindi þar sem hann lagði áherslu á opna umræðu í kreppunni. Hann ætti að hafa reynsluna. Honum er reyndar ætlað að hafa meiri reynslu en efni standa til því hann var skolminister (menntamálaráðherra, ekki menningarmálaráðherra) þegar kreppan skall á Svíþjóð árið 1991. Skömmu síðar féll ríkisstjórn sósíaldemókrata og hægri stjórn tók við völdum og ríkti í þrjú ár.

Þegar hinn geðþekki Ingvar Carlsson tók aftur við forsætisráðuneytinu haustið 1994 var Göran Persson gerður að fjármálaráðherra. Þá þegar höfðu flest skítverkin í kreppunni þegar verið unnin og aðeins eftir að sópa upp leifunum af kreppunni sem lenti í höndunum á Göran Persson. Það var síðan í mars 1996 að Ingvar Carlsson ákvað að segja af sér ráðherraembætti og allir vissu hver væri krónprinsinn, ekki síst eftir að Mona Sahlin hafði þá þegar orðið að segja af sér embætti eftir kaup á Toblerone í fríhöfninni. Krónprinsinn var Göran Persson.

Þegar Göran Persson gekk inn á lokaðan fund þar sem ákveða skyldi hver tæki við stjórn Socialdemokraterna af Ingvar Carlsson í mars 1996, var hann spurður af fréttamönnum hvort hann yrði forsætisráðherra? Svarið var stutt og laggott. Nej, jag blir inte statsminister! svarði Göran Persson með þykkjuþunga.

45 mínútum síðar kom hann út sem væntanlegur formaður flokksins og forsætisráðherra. Þá missti ég allt álit mitt á manninum sem aldrei hafði komið heiðarlega fram við fólk. Ég tók heldur ekkert mark á honum í morgun, ekki frekar en á árum áður.

Göran Persson hefur aldrei getað sagt sannleikann án þess að roðna.

miðvikudagur, desember 10, 2008

10. desember 2008 - Þögnin

Á dögunum komst ég yfir bókina Talað út, sem kom út fyrir ári hjá Sölku og innihélt pistla eftir Jónínu Leósdóttur, pistla sem flestir höfðu birst áður í Nýju lífi er hún starfaði þar sem ritstjórnarfulltrúi. Þessir pistlar voru oftast tímalausir og eiga margir fullt erindi til fólks löngu eftir að þeir birtust í blaðinu, en þó var einn pistillinn sem mér fannst áhugaverðari en aðrir, en hann fjallaði um þögnina og það sífellda áreiti sem nútímahávaðinn hefur á fólk.

Þegar ég las þennan pistil, rifjaðist upp fyrir mér er ég var einhverju sinni stödd á göngu nærri Selvogsgötunni, fjarri mannabyggðum. Þetta var síðsumars, engar mannaferðir sjáanlegar. Það var ekkert sem truflaði og þegar komið var í yfir fjögur metra hæð var jafnvel lítið af fuglasöng. Það var algjör kyrrð.

Þessi djúpa þögn sem helltist yfir mig þar sem ég var alein í óbyggðum er kannski það sem helst situr í mér meira en ári síðar, þessi þögn sem er orðin svo sjaldgæf í nútímaþjóðfélaginu.

Hið fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom í bílinn við Kaldársel eftir tíu tíma göngu var að rjúfa þögnina með því að kveikja á útvarpinu.

-----oOo-----

Mig langar til að minna á Amnesty tónleikana í Hafnarhúsinu í kvöld í tilefni af 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

þriðjudagur, desember 09, 2008

9. desember 2008 – Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott fyrir Geir.

Þessi orð sem heyrðust á sínum tíma í dægurlagatexta áttu vel við forsætisráðherra Íslands á Alþingi á mánudag eftir að einhver ungmenni gerðu atlögu að háttvirtu Alþingi með hrópum og köllum af þingpöllum. Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra fyrir þá sem stóðu fyrir hávaðanum, enda fór svo að sum ungmennin voru borin út í lögreglubíl, ekið á lögreglustöð, yfirheyrð og sleppt.

Bloggheimar fylltust samstundis af vandlætingu þeirra sem vita hvernig á að haga sér á þingpöllum og Geir getur þakkað ungmennunum í hjarta sínu fyrir stuðninginn við ríkisstjórnina, því slíkar uppákomur gera ekkert annað en að draga úr áhuga fjölda fólks á þátttöku í frekari mótmælum gegn sökudólgunum í hruni efnahagskerfis þjóðarinnar.

sunnudagur, desember 07, 2008

8. desember 2008 - Símastæði

Það mun vera komið kerfi þar sem nóg er að hringja þegar búið er að leggja bílnum í gjaldskylt bílastæði niður í bæ og hringja svo aftur þegar farið er og þá er kostnaðurinn við bílastæðið dregið af reikningi ökumannsins eða þá dregið af kreditkortareikningi viðkomandi.

Snemma í haust skráði ég mig inn hjá bílastæðafyrirtæki sem mun heita Góðar lausnir ehf og greiddi einhverja upphæð inn á reikning hjá þeim til að ekki þyrfti að draga nokkrar krónur í hvert sinn af kreditkortinu mínu Þetta gekk sæmilega til að byrja með. Ég þurfti að skreppa niður á Hallveigarstíg að degi til og lagði í bílastæði, hringdi svo í uppgefið símanúmer og skráði inn bílinn. Ég þurfti að vísu að fá hjálp frá næsta stöðumælaverði vegna óþolinmæði minnar við að bíða eftir allri romsunni hjá röddinni í símanum. Þetta gekk þó allt og sömuleiðis gekk vel að skrá mig úr bílastæðinu.

Ég endurtók leikinn tvisvar eða þrisvar næsta mánuðinn og allt gekk vel. En svo var ég einhverju sinni nýskriðin heim eftir næturvaktina og rétt komin á koddann þegar ég fékk sms. Ég leit á símann og við mér blöstu skilaboð frá bílastæðafyrirtækinu:

Tilkynning fra Simastaedi. Thvi midur hefur bilastaedagreidslukerfinu verid lokad fra og med fostudeginum 21. november 2008. Virdingafyllst Godar launir ehf“.

Veit einhver hvað varð um þetta fyrirtæki og þá hvað varð um inneignina sem þegar hafði verið lögð inn? Eða var þetta símastæðakerfi þá bara í plati?

Spyr ein sem ekki veit.

laugardagur, desember 06, 2008

7. desember 2008 - Þess vegna er ég hætt að mæta á Austurvöll

Í óstöðugu efnahagskerfi með ónýtan gjaldmiðil er nauðsynlegt að tryggja rétta skiptingu fjármagns með verðtryggingu. Eftir meila rússíbanareið íslenska krónuræfilsins á síðustu fimm áratugum reyndist nauðsynlegt að verðtryggja lán til þess að þeir sem skulduðu borguðu það til baka sem þeir skulduðu og lítið umfram það. Með verðtryggingunni árið 1979 komst loksins á jafnvægi á milli lánardrottna og skuldunauta sem ekki hafði verið áður, að lánardrottnarnir sem í mörgum tilfellum voru lífeyrissjóðirnir sem eiga að heita í eigu almennings í þessu landi, hættu að tapa stórfé á útlánum og fengu það til baka sem þeir lánuðu, en skuldararnir hættu að græða á að fá lánað og borguðu lánið til baka.

Þrátt fyrir verðtrygginguna fóru fáir á hausinn í óðaverðbólgunni á níunda áratugnum þar sem verðbólgan fór upp í 80% (ekki í 130% eins og staðhæft var). Á sama hátt munu fáir fara á hausinn í 17-25% verðbólgunni í dag með ívilnunum hins opinbera á greiðslunum.

Þessa dagana gerast háværar kröfur um að nota lífeyrissjóðina í eitthvað skynsamlegt, byggja upp atvinnuvegina að nýju, niðurgreiða lánin og allt á minn kostnað sem ætla á eftirlaun eftir rúman áratug. Svar mitt er einfalt. Ég vil ekki lána ykkur á þeim kjörum sem þið viljið borga. Ég vil ekki heldur gambla með lífeyrissjóðinn minn í áhættufjárfestingar.

Á meðan við búum við núverandi hagkerfi með núverandi gjaldmiðil, mun ég berjast með öllum ráðum gegn afnámi verðtryggingarinnar. Ég er þó reiðubúin að endurskoða afstöðu mína þegar við verðum komin með nýtt hagkerfi og nýjan gjaldmiðil. Þess vegna get ég ekki tekið undir orð vörubílstjórans sem talaði á Austurvelli á laugardag né heldur orð þeirra sem munu krefjast afnáms verðtryggingar á fundi í Háskólabíó á mánudag.

Reynið svo að halda ykkur við baráttu gegn þeim sem báru sökina á efnahagshruninu, en hættið að berjast gegn okkur almúgafólkinu með lífeyrissjóðinn okkar. Ef þið teljið okkur bera sökina, þá komið hreint út með þær kröfur gegn okkur. Annars skuluð þið krefjast annarra aðgerða til að létta undir með ykkur greiðslubyrðina eða gegn sökudólgunum í efnahagshruninu.

föstudagur, desember 05, 2008

6. desember 2008 - Heimastjórnarflokkurinn?

Í fréttum á föstudagskvöldið var sýnt frá umræðum á Alþingi þar sem ónefnd þingkona trúði orðum Davíðs Oddssonar frá því á fimmtudag eins og nýju neti og ég fór að velta því fyrir mér hvort Davíð ætti afturkvæmt í Sjálfstæðisflokkinn á ný.

Þarna var komin manneskja sem trúir öllu sem Davíð segir, kona sem er ekki hrifin af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, baráttumanneskja gegn samstarfi Evrópuþjóða og gegn upptöku alvöru gjaldmiðils. Hún og flokksfélagar hennar virðast hafa tekið ástfólstri við Davíð og samsæriskenningar hans gegn Geir og Sollu.

Þarna er kannski lausnin fyrir Davíð úr Seðlabankanum, að stofna þjóðernissinnaðan Heimastjórnarflokk ásamt Álfheiði Ingadóttur og Framsóknarmönnunum Guðna og Bjarna. Ég er viss um að þau nái óánægjufylginu frá Frjálslynda flokknum til sín sem og skuldsettu útgerðarauðvaldi og harðasta kjarna bændastéttarinnar.

Ég get um leið fullvissað Álfheiði um að ást hennar á Davíð og sannleika hans eykur ekkert álit mitt á skoðunum hennar.

5. desember 2008 - Fólk er fífl!

Einhver bloggari lýsti samfélaginu svo á dögunum að allir hinir ábyrgu væru í því þessa dagana að firra sjálfa sig ábyrgð svo að á endanum yrði íslensku þjóðinni kennt um allt sem aflaga hefði farið og og hún ein yrði að taka á sig sökina fyrir því hvernig ástandið er orðið.

Þetta er alveg rétt! Efnahagshrunið á Íslandi í haust er íslensku þjóðinni að kenna. Ég ætla ekki að kenna íslenskum almenningi um að hafa lifað umfram efni því miðað við landsframleiðsluna eru til næg verðmæti í landinu til mjög góðra lífskjara og stærstur hluti íslensku þjóðarinnar hefur ekki gert annað en að þiggja sinn bita af stórri kökunni. Sum okkar hafa ekki einu sinni fengið sinn réttláta skerf af kökunni en þurfa samt að bera ábyrgð á hruninu. Það er heldur ekki þar sem sökin liggur.

Ágætur fyrrum samstarfsmaður minn í gamla daga sem síðar gerðist millistjórnandi og kom talsvert við sögu í frægu olíusamráði orðaði hlutina á einfaldan hátt því í tölvuskeyti til einhvers annars millistjórnanda sagði hann hlutina hreint út: Fólk er fífl!

Það er nákvæmlega þar sem sökin liggur. Fólk er fífl! Við getum endalaust kastað eggjum og banönum í Alþingishús og Svörtuloft, stjórnarráð og glæsivillur kapítalistanna sem höfðu okkur að fíflum, en sökin verður áfram sem hingað til okkar sjálfra því við erum fíflin sem millistjórnandinn talaði um.

Það má halda því fram að sökin sé mismikil. Sjálf kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum af því að ég vildi breytingar. Ég vildi samstarf Evrópuþjóða og ég vildi vopnlausan frið við allar þjóðir og ég vildi afturhvarf frá þeirri nýfrjálshyggju sem hafði verið skefjalaust rekin á Íslandi á undanförnum árum. Um leið axlaði ég ábyrgð á stjórnarathöfnum núverandi ríkisstjórnar með atkvæði mínu. Fjöldi fólks, nálægt helmingi atkvæðisbærra Íslendinga, kaus þáverandi stjórnarflokka og lýsti þar með yfir stuðningi sínum við áframhald nýfrjálshyggjunnar.

Það er ekki eins og að þetta hefði átt að koma fólki á óvart. Það er alveg sama hversu illa Sjálfstæðisflokkurinn leikur íslensku þjóðina, hann á sitt fasta fylgi og þótt mælt fylgið sé nú í sögulegu lágmarki, munu flestir gömlu kjósendurnir rata heim á básinn sinn við næstu kosningar alveg eins og við síðustu kosningar og þar áður og í gamla daga og í kreppunni 1967 og löngu áður.

Vegna þessa sauðsháttar hæstvirtra kjósenda komast yfirvöld upp með hvað sem er, ráðast inn í fjarlæg ríki, styðja hersetu í landinu, styðja einkaher Björns Bjarnasonar, styðja nýfrjálshyggju, styðja með atkvæði sínu ómengaðan kapítalismann, sérlífeyri ráðamanna, fullveðsettan eignarkvóta og lagalausa útrás í stað heftrar útrásar, allt í nafni nýfrjálshyggjunnar.

Íslenska þjóðin kaus þetta og íslenska þjóðin fékk að kenna á atkvæði sínu, því fólk er fífl! Þetta veit Davíð Oddsson og því getur hann sagt hvaða bull sem er og allir sauðirnir hlaupa á básinn sinn og rymja í kór til stuðnings kreppunni því..

...Fólk er fífl!

fimmtudagur, desember 04, 2008

4. desember 2008 - Að reisa sér hurðarás um öxl

Þegar fólk kaupir sér íbúð er hugmyndin venjulega sú að komast í tryggt húsnæði þar til annað hvort að skipt verði yfir í stærri íbúð með stærri fjölskyldu eða þá betri með bættum efnahag.Það má líka hugsa sér fólk sem velur að minnka við sig af einhverjum ástæðum eða hreinlega vegna þess að fjölskyldan minnkar eða tekjurnar rýrna.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var dálítið slegin yfir viðtali í Kastljósi sjónvarpsins við mann sem ætlar að hætta að greiða af íbúðinni sinni. Ekki lengur, því þegar ég sá hvaða leik hann var að spinna, missti ég samúðina með honum. Hann segist hafa sett íbúðina sína á sölu á 36,9 milljónir krónuræfla í ágúst, en þá skuldaði hann 28 milljónir. Núna eftir efnahagshrunið hefur lánið aukist í rúma 31 milljón og þá vill hann skyndilega að bankinn (veðhafinn) leysi til sín lánið. Hann segist reikna með því að íbúðin geti farið á 25 milljónir á uppboði. Ef honum er svo mikið í mun að losna við ibúðina sína, af hverju reyndi hann þá ekki að selja hana strax í ágúst á 28 milljónir í staðinn fyrir 36,9 milljónir. Hann hefði þá örugglega átt auðveldar með að losna við íbúðina heldur en í dag.

Eftir að ég hafði horft á Kastljósið tvisvar varð mér ljóst að maðurinn var að flytja leikrit, væntanlega í þeim tilgangi að sýna fram á gagnsleysi verðtryggingar lána. Ef hann hefði verið kominn í svo slæma stöðu að hann hefði ekki getað greitt af láninu sínu, hefði hann hegðað sér allt öðruvísi í stað þess að krefjast afsláttar af lánunum sínum eins og það fólk er að gera sem hefur hæst í dag í þeim tilgangi að ná lífeyrissjóðnum mínum til sín á silfurfati.

Sjálf sit ég í svipuðum sporum og sá sem var í viðtalinu, þó að því fráskildu að ég held áfram að greiða af láninu mínu og að ég hefi ekki tekið ný lán út á hækkandi markaðsverð íbúðarinnar eins og viðmælandinn virðist hafa gert í tvígang. Ég keypti íbúðina mína 2004 og lenti fljótlega í umfangsmiklum framkvæmdum sem nú eru uppgreiddar. Þótt lánin hafi vissulega hækkað um þrjár milljónir á þessum árum og markaðsverð íbúðarinnar hækkað helmingi meira, þá eru þetta bara tölur á blaði fyrir mig sem ætla að búa hér áfram. Þannig reikna ég fastlega með því að lánin verði búin að ná markaðsverði íbúðarinnar á næsta ári sem segir mér að verðmæti lánsins verði orðið meira en verðmæti íbúðarinnar. Það gerir ekkert til því ég er ekkert á leiðinni að selja íbúðina á næstu árum og ég vona að verðmætin verði farin að stíga talsvert áður en ég verð svo gömul að ég geti ekki lengur búið í íbúðinni eftir kannski aldarfjórðung.

Löngu áður en að því kemur, verður afar mikilvægt að ungir piltar verði ekki búnir að ræna mig lífeyrissjóðnum mínum með leikriti í Kastljósinu, svo ég neyðist ekki til að selja íbúðina fyrir mat og öðrum brýnum nauðsynjum.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431268/0

miðvikudagur, desember 03, 2008

3. desember 2008 - Jólin mín byrja í desember!


Fyrir rúmum tveimur árum, nánar tiltekið í júlí 2006, var ég stödd nærri Hábungu Esjunnar er ég mætti jólasvein í sínu náttúrulega umhverfi. Jólasveinn sá sem reyndist vera Skyrgámur, var að vísu í sumarfatnaði og með sumarklippt skegg, í gallabuxum og vettlingalaus, en samt í rauðum jakka, en með léttari rauða húfu en á vetrum og snéri hún öfug á kollinum í blíðviðrinu.

Skyrgámur reyndist ákaflega geðþekkur eins og jólasveina er siður. Ég spurði Skyrgám hvort hann stundaði mikið IKEA í október og nóvember, en þá hnussaði í honum og sagði mér í trúnaði að enginn þeirra bræðra léti sjá sig í verslanamiðstöðvum fyrr en þeirra rétti tími væri kominn og sjálfur myndi hann mæta til byggða 19. desember að venju og byrja á því að færa góðum börnum eitthvað gott í skóinn að morgni þess dags.

Undanfarin tvö ár hefi ég verið með banner á blogginu mínu þar sem áminnt er um að jólin mín byrji í desember. Þetta var þörf áminning því ég þoli ekki jólaauglýsingar í nóvember, hvað þá í október.

Þetta árið hafa þeir bræður og blessunin hún móðir þeirra verið ákaflega hógvær. Verð ég að viðurkenna að ég hefi vart heyrt jólasöngva í ár. Þá hefi ég verið blessunarlega laus við Heimsumból í Kringlunni og VætKristmas í Smáralind, en tekið stóran sveig framhjá IKEA og Rúmfatalagernum.

En nú er kominn desember og sjálfsagt að athuga hvað er til af jólalögum í plötuskápnum og Borgardætur og Dolly Parton hljóma sem aldrei fyrr.

þriðjudagur, desember 02, 2008

´2. desember 2008 - Merkisdagar

1. desember hefur löngum þótt mikill merkisdagur. Ekki er það eingöngu vegna minningar um fullveldisdag þjóðar sem glataði fullveldi sínu nokkrum dögum áður en hún hélt upp á 90 ára fullveldi sitt eða alnæmisdagsins, heldur og miklu fremur af persónulegum ástæðum. Í gær voru nefnilega komin tólf ár frá því er ég hóf formlega störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur, en af því að daginn bar upp á sunnudag, var fyrsti starfsdagurinn 2. desember

Ekki ætla ég að fjölyrða mikið um ráðningu mína. Það breytir ekki því að ég er enn við svipuð störf og fyrir tólf árum, þ.e. við stýringu og eftirlit með framleiðslu og dreifingu á heitu vatni þótt verkefnin hafi aukist verulega á þeim árum sem liðin eru frá því ég hóf störf hjá Hitaveitunni.

Það er eðlilegt að ég sæktist eftir slíku starfi eftir heimkomu mína til Íslands árið 1996. Ég hafði unnið við svipuð störf í Stokkhólmi í nokkur ár áður en heim var komið og líkað vel.

Ef allt fer að óskum, mun ég geta haldið áfram störfum hjá Orkuveitunni, sem stofnuð var fyrir tæpum áratug úr Hitaveitu og Rafmagnsveitu og síðar einnig Vatnsveitu, í tíu til tólf ár til viðbótar áður en farið verður á eftirlaun. Ég hefi ekki áhuga fyrir að skipta um starf og tel að ég sé best niðurkomin á þessum stað þar til starfsævinni lýkur.

Ég viðurkenni alveg að stundum togar sjórinn aðeins í mig. Um leið geri ég mér grein fyrir því að á mínum aldri fer maður ekki á sjóinn til framtíðarstarfa. Þeim hluta ævinnar er lokið. Ég get þó vel hugsað mér að skreppa einstöku ferðir á sjóinn til afleysninga og viðhalds þekkingar.

mánudagur, desember 01, 2008

1. desember 2008 - Fésbókarástir!

Ónefndur, en fráskilinn kunningi minn hefur enn ekki lært að meta hið jákvæða við einlífið og er talsvert upp á kvenhöndina, fer oft út á lífið í von um að finna sér nýjan lífsförunaut, en því miður helst honum illa á konum.

Einhverju sinni hóf hann að stunda hestamennsku af miklum móð. Það var ljóst að það var ekki einvörðungu hrifning á hestum sem rak hann áfram, heldur lá eitthvað meira á bakvið. Hann stundaði hestamennskuna af miklum móð um nokkurra mánaða skeið, en þá vildi svo til að hann féll af baki og slasaðist nokkuð. Um svipað leyti kulnuðu ástir kunningjans og óþekktrar hestakonu og hefur hann ekki minnst á hesta aftur í mín eyru.

Fljótlega eftir þetta hóf hann að hlaupa á fjöll af miklum móð. Ekki var hann í gönguhóp með mér, enda hefði ég ekki haft roð við honum því hann tók fjöllin sömu tökum og hestana áður. Esjan var meðal þess fyrsta sem féll fyrir fótum hans, síðan komu önnur fjöll og firnindi, Laugavegurinn, Fimmvörðuháls, Snæfellsjökull, Hvannadalshnjúkur. Svo virtist ákafinn kulna jafnskjótt og hann hófst. Ekki veit ég af hverju.

Að undanförnu hefur Fésbókin átt hug og hjörtu þjóðarinnar. Sagt er að nærri fjórði hver Íslendingur sé kominn á Fésbók og einhverjir eru þeir sem hafa náð sér í sína heittelskuðu á því ágæta vefsvæði. Kunningi minn kynntist Fésbókinni og hóf að safna kvenkyns vinkonum út um alla jörð. Um daginn kom ég að honum þar sem hann sat fyrir framan tölvuna sína og hlustaði á Youtube vefinn. Þrátt fyrir fremur lítinn áhuga mannsins á sígildri tónlist, veitti ég því athygli að hann var að hlusta á eitthvert kórverk eftir Mozart. Það fór ekkert á milli mála að ástin hafði bankað á dyr kunningjans einu sinni enn, en spurningin er nú hvort ein kona nægi honum lengur, því umrætt kórverk var að sjálfsögðu flutt af heilum kvennakór!