laugardagur, desember 27, 2008

27. desember 2008 - Vitringarnir þrír

Þegar ég skrifaði pistilinn minn í gær reiknaði ég fastlega með þvi að tveir til þrír vitringar kæmu með gáfulegar athugasemdir á orð mín um Joseph Ratzinger. Vissulega skiluðu þrír vitringar sér (sjá Moggabloggið mitt), bara ekki þeir sem ég átti von á, nema auðvitað að ónefndur vinur minn, sem ég ber mikla virðingu fyrir á öðrum sviðum, sé farinn að skrifa gegn mér undir heitinu Efasemdir. En þrír voru þeir sem tóku að sér að verja ræfilstuskuna suður í Róm.

Það eru nokkrir vitringar sem telja sig vera með sérleyfi á trúmálum og þá sérstaklega orðum Biblíunnar. Verði þeim að góðu. Ég er ekki sérfræðingur í orðum Biblíunnar og þótt ég kannist við einstöku frasa úr þeirri bók, tek ég hæfilega mikið mark á henni, þó síður á gamla testamentinu sem er skrifað á margan hátt í anda úreldra samfélagsviðhorfa.

Einn vitringanna þriggja spurði hvort viðhorf mín væru komin úr hinni nýju þýðingu Biblíunnar. Svar mitt er einfalt. Það er nei. Viðhorf mín byggjast á almennri siðgæðisvitund um kærleika og fyrirgefningu í anda nýja testamentisins. Orð mín um það hvaða fólk sefur hjá hverjum er hinsvegar í anda nútímaviðhorfa sem eru að ná yfirhöndinni á vesturlöndum. Sumir kjósa samt að lifa í forneskju og anda gamla testamentisins.

Ég er að lesa sögu Harðar Torfasonar. Sumar af lýsingum hans þekki ég af eigin skinni frá fyrri árum, aðrar frá liðnum árum. Baráttunni er ekki lokið og henni lýkur seint á meðan karlar í hvítum kjólum á borð við Joseph Ratzinger halda áfram hatursáróðri sínum gegn minnihlutahópum í samfélaginu. Á meðan þurfum við að halda minningarvökur um tugi einstaklinga sem hafa látið lífið á hverju ári vegna fordóma, margir í kaþólskum ríkjum.

Með þessu langar mig að þakka þeim sem sjálfviljugir hafa haldið uppi vörnum fyrir mína hönd, þótt ég hafi kosið að þegja vegna blóðþrýstingsvandamála.

Svo ætla ég að klára Hörð Torfason ættingja minn með því að taka hann með mér í anda í rúmið í nótt.


0 ummæli:







Skrifa ummæli