sunnudagur, desember 21, 2008

21. desember 2008 – Uppáhaldsjólaveinninn minn

Eins og fólk veit, leynist örlítill perri í okkur öllum. Perrinn getur verið af ýmsum ástæðum, fólk kveikir á leðri eða latexi, fagurlimuðum pústurrörum eða reiðhjólum.

Sjálf hefi ég ekki farið varhluta af grunsemdum í þessa veru. Ef ég horfði út um svefnherbergisgluggann minn á árum áður, sá ég beint inn um stofugluggann hjá nágrannakonu minni og þurfti ekki einu sinni að kaupa mér sjónvarp með risaflatskjá, mér nægði bara að fara á sex mánaða námskeið í varalestri til að átta mig á öllu sem fram fór á flatskjánum hinum megin við bílastæðin. Að endingu þoldi nágrannakonan ekki við lengur, seldi flatskjáinn sinn og keypti sér fiskabúr í staðinn.

Ef ég horfi út um stofugluggana eða af svölunum sé ég ágætlega inn í eldhúsið þar sem önnur nágrannakona mín bloggar af miklum móð. Þar sem umrædd nágrannakona er laus við athyglissýki, hefur hún hótað mér að kaupa sér þykkar eldhúsgardínur ef ég horfi yfir til hennar aftur, en ég held að það sé ekkert að marka orð hennar. Allavega tókst mér að draga hana með á tónleika á föstudagskvöldið sem sjá má af síðustu færslu.

Ástæða þess að ég get þessara þátta hér og nú er einföld. Uppáhaldsjólasveinninn minn, hann Gluggagægir, ætlar að stunda peepshow í nótt. Ég þori því ekki öðru en að klæðast mest kynþokkafulla náttfatnaðinum mínum í nótt því ég veit að ég hefi verið góð stelpa og fæ kannski eitthvað flott og sexí í háhælaskóinn minn í nótt.


0 ummæli:







Skrifa ummæli