föstudagur, desember 05, 2008

5. desember 2008 - Fólk er fífl!

Einhver bloggari lýsti samfélaginu svo á dögunum að allir hinir ábyrgu væru í því þessa dagana að firra sjálfa sig ábyrgð svo að á endanum yrði íslensku þjóðinni kennt um allt sem aflaga hefði farið og og hún ein yrði að taka á sig sökina fyrir því hvernig ástandið er orðið.

Þetta er alveg rétt! Efnahagshrunið á Íslandi í haust er íslensku þjóðinni að kenna. Ég ætla ekki að kenna íslenskum almenningi um að hafa lifað umfram efni því miðað við landsframleiðsluna eru til næg verðmæti í landinu til mjög góðra lífskjara og stærstur hluti íslensku þjóðarinnar hefur ekki gert annað en að þiggja sinn bita af stórri kökunni. Sum okkar hafa ekki einu sinni fengið sinn réttláta skerf af kökunni en þurfa samt að bera ábyrgð á hruninu. Það er heldur ekki þar sem sökin liggur.

Ágætur fyrrum samstarfsmaður minn í gamla daga sem síðar gerðist millistjórnandi og kom talsvert við sögu í frægu olíusamráði orðaði hlutina á einfaldan hátt því í tölvuskeyti til einhvers annars millistjórnanda sagði hann hlutina hreint út: Fólk er fífl!

Það er nákvæmlega þar sem sökin liggur. Fólk er fífl! Við getum endalaust kastað eggjum og banönum í Alþingishús og Svörtuloft, stjórnarráð og glæsivillur kapítalistanna sem höfðu okkur að fíflum, en sökin verður áfram sem hingað til okkar sjálfra því við erum fíflin sem millistjórnandinn talaði um.

Það má halda því fram að sökin sé mismikil. Sjálf kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum af því að ég vildi breytingar. Ég vildi samstarf Evrópuþjóða og ég vildi vopnlausan frið við allar þjóðir og ég vildi afturhvarf frá þeirri nýfrjálshyggju sem hafði verið skefjalaust rekin á Íslandi á undanförnum árum. Um leið axlaði ég ábyrgð á stjórnarathöfnum núverandi ríkisstjórnar með atkvæði mínu. Fjöldi fólks, nálægt helmingi atkvæðisbærra Íslendinga, kaus þáverandi stjórnarflokka og lýsti þar með yfir stuðningi sínum við áframhald nýfrjálshyggjunnar.

Það er ekki eins og að þetta hefði átt að koma fólki á óvart. Það er alveg sama hversu illa Sjálfstæðisflokkurinn leikur íslensku þjóðina, hann á sitt fasta fylgi og þótt mælt fylgið sé nú í sögulegu lágmarki, munu flestir gömlu kjósendurnir rata heim á básinn sinn við næstu kosningar alveg eins og við síðustu kosningar og þar áður og í gamla daga og í kreppunni 1967 og löngu áður.

Vegna þessa sauðsháttar hæstvirtra kjósenda komast yfirvöld upp með hvað sem er, ráðast inn í fjarlæg ríki, styðja hersetu í landinu, styðja einkaher Björns Bjarnasonar, styðja nýfrjálshyggju, styðja með atkvæði sínu ómengaðan kapítalismann, sérlífeyri ráðamanna, fullveðsettan eignarkvóta og lagalausa útrás í stað heftrar útrásar, allt í nafni nýfrjálshyggjunnar.

Íslenska þjóðin kaus þetta og íslenska þjóðin fékk að kenna á atkvæði sínu, því fólk er fífl! Þetta veit Davíð Oddsson og því getur hann sagt hvaða bull sem er og allir sauðirnir hlaupa á básinn sinn og rymja í kór til stuðnings kreppunni því..

...Fólk er fífl!


0 ummæli:







Skrifa ummæli