Eitt af skylduverkefnum Þorláksmessu ef tími leyfir, er að fara í friðargöngu. Hún leggur venjulega af stað frá Hlemmi klukkan 18.00 og gengið niður í bæ, í þetta sinn niður á Hallærisplan sem nú hefur hlotið hið virðulega heiti Ingólfstorg.
Veðurmáttarvöldin voru okkur náðug í þetta sinn. Þrátt fyrir regnskúr rátt fyrir gönguna stytti upp og hélst þurrt þar til göngunni og útifundinum var lokið, en þar hélt hin síunga Birna Þórðardóttir aðalræðuna þótt Hamrahlíðarkórinn væri auðvitað í aðalhlutverkinu, syngjandi jólasálma alla leiðina og skapaði þannig stemmninguna sem hæfir deginum fyrir stærstu hátíð ársins.
Það sem vakti helst athygli mína í göngunni var ekki einvörðungu fagur söngur Hamrahlíðarkórsins, heldur dularfullur skeggjaður maður sem gekk á móti friðargöngunni rétt eins og þriðji síðasti Framsóknarmaðurinn fyrir tveimur árum. Maðurinn, sem var eitthvað kunnuglegur þrátt fyrir skeggið, læddist með veggjum og lét lítið fara fyrir sér og það var því ekki fyrr en ég mætti honum og horfði beint í augu hans sem ég áttaði mig á því hver hann var. Þarna var þá Litli útrásarvíkingurinn mættur ljóslifandi í eigin persónu.
Af því að ég var í friðargöngu, sagði ég engum frá að sinni og lofaði honum að fara í friði.
þriðjudagur, desember 23, 2008
23. desember 2008 - Litli útrásarvíkingurinn
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 21:29
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli