Ég fór út að aka eftir hádegi á aðfangadag. Ekki þurfti ég að aka í miklum æsingi, aðeins að skreppa með jólagjöf til handa ungum og upprennandi KRing í vesturbænum, aðra gjöf til Jóns á Völlunum og þá þriðju til heimsætu ofan snjólínu í Breiðholti og fjölskyldna þeirra. Semsagt allt í samræmi við hefðir jólanna.
Þegar ég nálgaðist vesturbæinn, kom fyrsta hindrunin, fólk á leið í kirkjugarðinn og vildi njóta síðustu mínútnanna ofanjarðar. Engin alvarleg hindrun það. Umferðinni framhjá Fossvogskirkjugarði var stjórnað af vöskum lögregluþjónum og var það vel.
Umferðin suður í Hafnarfjörð var hræðileg. Sumir voru að flýta sér en aðrir óku eins og þetta væri þeirra síðasti dagur sem ætti að njóta til fullnustu. Ég hitti fjölskylduna á Völlunum og afhenti þeim pakkana sína. Á leiðinni þaðan lenti ég fyrir aftan einn á 30 km hraða á Reykjanesbrautinni og hann var sennilega á leiðinni FRÁ kirkjugarðinum og ég fór að óttast að ég næði ekki jólabaðinu fyrir klukkan sex.
En heim komst ég að lokum og í jólabaðið.
-----oOo-----
Ég vil óska þessum fáu lesendum mínum sem eftir eru sem og öllu öðru góðu fólki gleðilegrar hátíðar í Guðs friði.
miðvikudagur, desember 24, 2008
24. desember 2008 - Úti að aka á aðfangadag
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 16:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli