miðvikudagur, desember 10, 2008

10. desember 2008 - Þögnin

Á dögunum komst ég yfir bókina Talað út, sem kom út fyrir ári hjá Sölku og innihélt pistla eftir Jónínu Leósdóttur, pistla sem flestir höfðu birst áður í Nýju lífi er hún starfaði þar sem ritstjórnarfulltrúi. Þessir pistlar voru oftast tímalausir og eiga margir fullt erindi til fólks löngu eftir að þeir birtust í blaðinu, en þó var einn pistillinn sem mér fannst áhugaverðari en aðrir, en hann fjallaði um þögnina og það sífellda áreiti sem nútímahávaðinn hefur á fólk.

Þegar ég las þennan pistil, rifjaðist upp fyrir mér er ég var einhverju sinni stödd á göngu nærri Selvogsgötunni, fjarri mannabyggðum. Þetta var síðsumars, engar mannaferðir sjáanlegar. Það var ekkert sem truflaði og þegar komið var í yfir fjögur metra hæð var jafnvel lítið af fuglasöng. Það var algjör kyrrð.

Þessi djúpa þögn sem helltist yfir mig þar sem ég var alein í óbyggðum er kannski það sem helst situr í mér meira en ári síðar, þessi þögn sem er orðin svo sjaldgæf í nútímaþjóðfélaginu.

Hið fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom í bílinn við Kaldársel eftir tíu tíma göngu var að rjúfa þögnina með því að kveikja á útvarpinu.

-----oOo-----

Mig langar til að minna á Amnesty tónleikana í Hafnarhúsinu í kvöld í tilefni af 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli