sunnudagur, desember 07, 2008

8. desember 2008 - Símastæði

Það mun vera komið kerfi þar sem nóg er að hringja þegar búið er að leggja bílnum í gjaldskylt bílastæði niður í bæ og hringja svo aftur þegar farið er og þá er kostnaðurinn við bílastæðið dregið af reikningi ökumannsins eða þá dregið af kreditkortareikningi viðkomandi.

Snemma í haust skráði ég mig inn hjá bílastæðafyrirtæki sem mun heita Góðar lausnir ehf og greiddi einhverja upphæð inn á reikning hjá þeim til að ekki þyrfti að draga nokkrar krónur í hvert sinn af kreditkortinu mínu Þetta gekk sæmilega til að byrja með. Ég þurfti að skreppa niður á Hallveigarstíg að degi til og lagði í bílastæði, hringdi svo í uppgefið símanúmer og skráði inn bílinn. Ég þurfti að vísu að fá hjálp frá næsta stöðumælaverði vegna óþolinmæði minnar við að bíða eftir allri romsunni hjá röddinni í símanum. Þetta gekk þó allt og sömuleiðis gekk vel að skrá mig úr bílastæðinu.

Ég endurtók leikinn tvisvar eða þrisvar næsta mánuðinn og allt gekk vel. En svo var ég einhverju sinni nýskriðin heim eftir næturvaktina og rétt komin á koddann þegar ég fékk sms. Ég leit á símann og við mér blöstu skilaboð frá bílastæðafyrirtækinu:

Tilkynning fra Simastaedi. Thvi midur hefur bilastaedagreidslukerfinu verid lokad fra og med fostudeginum 21. november 2008. Virdingafyllst Godar launir ehf“.

Veit einhver hvað varð um þetta fyrirtæki og þá hvað varð um inneignina sem þegar hafði verið lögð inn? Eða var þetta símastæðakerfi þá bara í plati?

Spyr ein sem ekki veit.


0 ummæli:







Skrifa ummæli