miðvikudagur, desember 03, 2008

3. desember 2008 - Jólin mín byrja í desember!


Fyrir rúmum tveimur árum, nánar tiltekið í júlí 2006, var ég stödd nærri Hábungu Esjunnar er ég mætti jólasvein í sínu náttúrulega umhverfi. Jólasveinn sá sem reyndist vera Skyrgámur, var að vísu í sumarfatnaði og með sumarklippt skegg, í gallabuxum og vettlingalaus, en samt í rauðum jakka, en með léttari rauða húfu en á vetrum og snéri hún öfug á kollinum í blíðviðrinu.

Skyrgámur reyndist ákaflega geðþekkur eins og jólasveina er siður. Ég spurði Skyrgám hvort hann stundaði mikið IKEA í október og nóvember, en þá hnussaði í honum og sagði mér í trúnaði að enginn þeirra bræðra léti sjá sig í verslanamiðstöðvum fyrr en þeirra rétti tími væri kominn og sjálfur myndi hann mæta til byggða 19. desember að venju og byrja á því að færa góðum börnum eitthvað gott í skóinn að morgni þess dags.

Undanfarin tvö ár hefi ég verið með banner á blogginu mínu þar sem áminnt er um að jólin mín byrji í desember. Þetta var þörf áminning því ég þoli ekki jólaauglýsingar í nóvember, hvað þá í október.

Þetta árið hafa þeir bræður og blessunin hún móðir þeirra verið ákaflega hógvær. Verð ég að viðurkenna að ég hefi vart heyrt jólasöngva í ár. Þá hefi ég verið blessunarlega laus við Heimsumból í Kringlunni og VætKristmas í Smáralind, en tekið stóran sveig framhjá IKEA og Rúmfatalagernum.

En nú er kominn desember og sjálfsagt að athuga hvað er til af jólalögum í plötuskápnum og Borgardætur og Dolly Parton hljóma sem aldrei fyrr.


0 ummæli:







Skrifa ummæli