Þessa rúmu tvo mánuði sem liðið hafa frá því kreppan skall á íslensku þjóðinni hefur ráðmönnum helst verið legið á hálsi fyrir aðgerðarleysi og fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann um ástand mála.
Í gær flutti Göran Persson fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar erindi þar sem hann lagði áherslu á opna umræðu í kreppunni. Hann ætti að hafa reynsluna. Honum er reyndar ætlað að hafa meiri reynslu en efni standa til því hann var skolminister (menntamálaráðherra, ekki menningarmálaráðherra) þegar kreppan skall á Svíþjóð árið 1991. Skömmu síðar féll ríkisstjórn sósíaldemókrata og hægri stjórn tók við völdum og ríkti í þrjú ár.
Þegar hinn geðþekki Ingvar Carlsson tók aftur við forsætisráðuneytinu haustið 1994 var Göran Persson gerður að fjármálaráðherra. Þá þegar höfðu flest skítverkin í kreppunni þegar verið unnin og aðeins eftir að sópa upp leifunum af kreppunni sem lenti í höndunum á Göran Persson. Það var síðan í mars 1996 að Ingvar Carlsson ákvað að segja af sér ráðherraembætti og allir vissu hver væri krónprinsinn, ekki síst eftir að Mona Sahlin hafði þá þegar orðið að segja af sér embætti eftir kaup á Toblerone í fríhöfninni. Krónprinsinn var Göran Persson.
Þegar Göran Persson gekk inn á lokaðan fund þar sem ákveða skyldi hver tæki við stjórn Socialdemokraterna af Ingvar Carlsson í mars 1996, var hann spurður af fréttamönnum hvort hann yrði forsætisráðherra? Svarið var stutt og laggott. Nej, jag blir inte statsminister! svarði Göran Persson með þykkjuþunga.
45 mínútum síðar kom hann út sem væntanlegur formaður flokksins og forsætisráðherra. Þá missti ég allt álit mitt á manninum sem aldrei hafði komið heiðarlega fram við fólk. Ég tók heldur ekkert mark á honum í morgun, ekki frekar en á árum áður.
Göran Persson hefur aldrei getað sagt sannleikann án þess að roðna.
fimmtudagur, desember 11, 2008
11. desember 2008 - Nej, jag blir inte statsmininster!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli