Eins og ég hefi margoft komið inn á í pistlum mínum á árinu 2008, var árið 1968 mikið tímamótaár, ekki aðeins fyrir mannkyn heldur einnig fyrir mig. Þetta var árið sem brestir fóru að sjást í sovétkommúnismanum og sem ungt fólk í Vestur-Evrópu fór í vaxandi mæli að hafna lífsgæðakapphlaupinu og alheimskapítalismanum. Þá var kreppa og rétt eins og þá þurfum við enn að fara í naflaskoðun og hafna gróðahyggjunni sem hefur leitt okkur á vonarvöl. Sjálf var ég að taka út þroska og síðustu daga ársins dundaði ég mér við æfingartíma því nú skyldi tekið ökupróf.
Það var að morgni þess 30. desember 1968 sem ég mætti í Borgartún 7 ásamt ökukennaranum mínum því hann vildi vera viðstaddur. Svo kom birtist ungur og snaggaralegur prófdómarinn í fullu úniformi bifreiðaeftirlitsmanns og settist farþegamegin inn í litlu Volkswagen bjölluna, ökukennarinn afturí og ég undir stýri. Það voru að sjálfsögðu engin öryggisbelti í bílnum því krafa um notkun öryggisbelta í ökuprófi tóku gildi tveimur dögum síðar.
Þetta var löng ökuferð. Það var þvælst um allan bæinn og ökukennarinn og prófdómarinn hnakkrifust um pólitík, enda ástandið í pólitíkinni álíka eldfimt og nú, Þorláksmessuslagurinn einungis vikugamall, en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í viðreisnarstjórn sem hamaðist við að reka atkvæðin úr landi, til Svíþjóðar og Ástralíu.
Það var bakkað í stæði og gerðar fleiri skemmtilegar æfingar. Ég minnist þess þó að ég gerði eina villu í prófinu, en ég veit ekki hvort það var af völdum athyglisbrests prófdómarans sem var orðið heitt í hamsi í pólitískum umræðum, að hann minntist aldrei á villuna eða sá hana aldrei. Allavega hélt hann mikla lofræðu yfir ökuhæfni minni er komið var að nýju niður í Borgartún og fullyrti það að ef ökumenn ækju almennt eins og ég, yrðu fá slys í umferðinni. Um eftirmiðdaginn flýtti ég mér svo öðru sinni í Borgartún 7 og sótti ökuskírteinið mitt.
Þótt ég hafi ekið eins og ökuníðingur allar götur síðan, er ökuferilsskráin eins og hjá hverjum góðum hvítvoðung, en fyrstu sektina fékk ég 17 árum síðar og þá fyrir að vera einum kílómetra yfir sektarmörkum. Hin sektin var tuttugu árum eftir hina fyrri og lítið hærri. Þá hefi ég einu sinni valdið smátjóni á bíl með vinnubílnum, en þá bakkaði ég yfir vélahlífina á smábíl, en hann hafði stöðvað svo nálægt mér að ég sá hann ekki í speglum hins háfætta vinnubíls.
Kannski átti ég það skilið að ná bílprófinu fyrir 40 árum.
Um leið og ég óska sjálfri mér til hamingju með ökuprófsafmælið, vil ég óska öllum hinum afmælisbörnum dagsins einnig til hamingju með afmælið, þar á meðal Albert frænda mínum hjá Hitaveitu Suðurnesja sem er sextugur, og Rannveigu konu hans sem er mörgum árum yngri og svo að sjálfsögðu Tiger litla Woods sem er kylfusláttumaður vestur í Bandaríkjunum. Svo má nefna að fjórum dögum eftir að ég tók ökuprófið, fæddist næsti afburðaökumaður í Þýskalandi, en sá heitir Michael Schumacher og er kominn á eftirlaun fyrir fáeinum árum.
mánudagur, desember 29, 2008
30. desember 2008 - Enn ein fertug sagan.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:16
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli