Ég held að hið hræðilega lag í auglýsingu Orkuveitunnar hafi ekki verið neitt betra í útsetningu Áramótaskaupsins........
.........því miður.
en samt, Gleðilegt nýtt ár
sunnudagur, desember 31, 2006
31. desember 2006 - 3. kafli - Sörrý
31. desember 2006 - 2. kafli - 3000
Þótt vissulega sé ástæða til að óska Bush og Blair, Halldór og Davíð og Anders Fó Rasmussen til hamingju með árangur sinn í tilgangslausu stríði í Írak, þá ætla ég samt að fara hina leiðina og votta bandarísku þjóðinni samúð mína með að hafa misst 3000 hermenn í stríðinu þar í landi sama dag og Írakar beittu ofbeldi Villta vestursins gegn Saddam Hussein og hafa svokallaðir bandamenn því misst samtals 3595 menn í stríðinu gegn “hryðjuverkum” í Írak og Afganistan.
http://antiwar.com/casualties/
31. desember 2006 – Samantekt ársins 2006.
Það hefur löngum þótt góður siður á tímamótum að horfa um öxl og hugsa til þess ársins sem var að líða og endurnýja gömul heit, en eins og öllum ætti að vera kunnugt á þessari stundu, fara áramót og afmæli nánast saman svo einungis skakkar einum degi. Því slæ þessum tveimur stórviðburðum saman í einn og rifja hér með upp árið sem er að líða áður en kemur að völvuspánni fyrir árið 2007.
Árið 2006 hófst með því að ég gaf mér það áramótaheit að ná af mér tíu kílóum af spiki á árinu og því hóf ég að rölta Elliðaárdalinn í hægðum mínum, þó ekki bókstaflega, þegar í byrjun janúar. Eftir að hafa rölt um dalinn um skeið án teljandi árangurs fór mér að leiðast þófið, því engin hurfu kílóin. Fékk ég þó dygga aðstoð við göngurnar með því að Guðrún Helga veitti mér gjarnan aðstoð við labbið og var undirlendi allt á Stór-Kjalarnessvæðinu reiknað til gönguferða.
Einhverju sinni er við vorum á göngu suður í Hafnarfirði, benti Guðrún mér á hátt fjall og mæltist til að við klifum fjallið. Eftir mikið klifur og erfiðleika, svita og tár, tókst okkur loks að ná hæsta tindi þessa mikla fjalls, Ásfjallsins í Hafnarfirði sem er hvorki meira né minna en 127 metrar á hæð. Eftir það var ekki aftur snúið, samin ný gönguáætlun hinna tólf tinda og byrjað að ganga hóla og hæðir og stóð það yfir allt sumarið, Esjan tvisvar, tvö Helgafell, þar af annað þeirra tvisvar, Vífilsfell, Grímannsfell, Hengill, Keilir, Fanntófell, Strútur, Skálafell, Þorbjörn og fleiri fjöll. Þá má ekki gleyma leitinni að Eyktarási, en með hjálp Þórðar sjóara tókst að finna hann í ágústmánuði. Smám saman runnu af mér þessi tíu kíló sem ég hafði sett á áætlun og var ég rétt að verða komin á áætlun er síðasta tindi var náð. Síðan hefi ég ekki hreyft mig nema til að ganga í vinnuna og búin að bæta á mig þessum tíu kílóum að nýju.
Það var eitthvað um fjölgun í stórfjölskyldunni á árinu, en ekkert í nánasta umhverfi. Það urðu fjórar jarðarfarir á árinu þar af einn móðurbróðir kominn yfir áttrætt og er hans sárt saknað. Að auki skrópaði ég í tveimur jarðarförum.
Ég fór í þrjár utanlandsferðir á árinu, allt samkvæmt þeirri áætlun sem samin var um síðustu áramót, hin fyrsta í mars til Genfar í Sviss með viðkomu í Danmörku og Svíþjóð, þá til Mannshestahrepps og Halifaxhrepps í Englandi í byrjun júlí og loks til Ítalíu með viðkomu í Englandi í nóvember. Þá tók ég þátt í hópferð til Kárahnjúka í september og var hún fremur misheppnuð. Næst fer ég á eigin vegum. Þá varð ekkert úr ætlaðri ferð minni til Selfoss á árinu 2006, en nokkrar ferðir upp á Hellisheiði og til Borgarness. Mesta menningarsjokkið sem ég varð fyrir á árinu var þegar við sátum á fundi í Genf og Rosanna vinkona mín frá Ítalíu fór að kvarta yfir hlýindunum í Sviss.
Ha, hlýindum? Ekki fannst mér neitt hlýtt, enda nýkomin frá útsynningi og rigningu á Íslandi, annað en Rosanna sem hafði eytt öllum vetrinum í kulda og trekk suður á Ítalíu.
Þá átti ég í eilífðarbasli í fjármálum, tókst ekki að skipta um fataskápa eins og ætlað var, en eyddi stórfé í að skipta um þak. Spurningin er nú hvaða utanhússframkvæmdir koma í veg fyrir að ég skipti um fataskápa á árinu 2007.
Ég var ekki rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins á árinu, en það hlýtur að bresta á mjög fljótlega, enda er ég alltof ung fyrir slíkan félagsskap. Það er þá eitthvað annað í stjórn TGEU, en aldur kom til tals á einum stjórnarfundinum. Kom þá í ljós að ég var elst í stjórninni, þó einungis árinu eldri en Jane Thomas og rúmum þremur árum eldri en Stephen Whittle , en hann má einnig sjá hér.
Flest það í ytri málefnum sem ég spáði í gegnum mína fínu kristalskúlu stóðst á árinu, það var skipt um borgarstjóra, heimsmethafinn geðþekki hætti í góðakstri og ríkisstjórnin situr enn flestum til ama og leiðinda. Eitt brást þó, en ég hafði spáð því að Halifaxhreppur myndi komast upp um deild á árinu, en eins og öllum ætti að vera kunnugt, töpuðu hetjurnar í framlengingu í leik um sæti um langneðstu deild.
Samkvæmt ofansögðu gekk allt sinn vanagang á árinu 2006 og er ekki ástæða til að ætla stærri breytingar á nýju ári.
laugardagur, desember 30, 2006
30. desember 2006 – 2. kafli – Að kvöldi afmælisdags
Það þarf víst engum að koma á óvart að ég er mjög svo ósátt við nýjustu aðgerðir Bush og undirsáta hans suður í Írak á afmælisdegi mínum. Ég ætla þó ekki að koma með hástemdar yfirlýsingar um athæfið, en vísa þess heldur í orð framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International í fjölmiðlum sem og orða frænda míns frá Leirvogstungu sem segja allt sem segja þarf.
-----oOo-----
Um jólin bölsótaðist ég út í óþekktan bílstjóra sem hafði lagt í einkastæðið mitt á aðfangadag og hreyfði ekki bílinn fyrr en á jóladagseftirmiðdaginn. Er ég var á leiðinni á vaktina á föstudagskvöldið, sá ég sama bíl í einkastæðinu hennar nágrannakonu minnar sem býr í blokkinni hinum megin við bílastæðin. Ég hoppaði af bræði. Svona lagað gengur sko ekki og það þarf að ræða við þennan bíleiganda áður en hann heldur áfram að hrella hina góðu og guðhræddu íbúa hverfisins með því að herja svona á bílastæði þeirra.
Er ég kom í vinnuna fór ég beint í bílaskrána og kannaði hver væri eigandi umræddrar bifreiðar og við mér blasti að nágrannakonan hinum megin við bílastæðin, hafði fengið sér fólksbíl til viðbótar við jeppann og var sjálf eigandi bílsins. Ég ét stóru orðin gegn óþekkta bílstjóranum aftur ofan í mig.
-----oOo-----
Mínir menn í Sameiningu Mannshestahrepps bættu aðeins stöðu sína í toppslag efstu Vestfjarðadeildar er þeir burstuðu Newcastle Town með 5 mörkum gegn einu og eru nú aftur komnir á toppinn þótt þeir séu með fjóra leiki til góða.
Öllu verr gengur hjá hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi í kvenfélagsdeildinni sem sýndu enn og aftur ólympískan anda með því að tapa naumlega fyrir Daghömstrunum á Rauðubrú .
-----oOo-----
Loks þakka ég haminguóskir, gjafir og heimsóknir þær sem hafa borist mér í dag og geri væntanlega upp árið í næsta pistli.
30. desember 2006 – Manneskja ársins
Að undanförnu hefur mikill fjöldi fólks verið dreginn fram í kastljósið og gert að manni ársins eða konu ársins eða einhverju öðru ársins af misstórum dómnefndum eða tilmælum. Dorrit var valin sem kona ársins vegna þess hve góð hún hefur verið við hann Óla sinn og Róbert Wessmann var valinn maður ársins af því að hann græddi svo mikla peninga og Villi Vill var valinn maður ársins af inhverri útvarpsstöð. Ung stúlka var valin Íslendingur ársins fyrir einstaklega kjarkmikla baráttu sína fyrir fjölskyldu sinni þrátt fyrir erfitt krabbamein (og mættu aðrir taka hana sér til fyrirmyndar) og í dag heyrði ég ungan mann tilnefna afa sinn sem mann ársins á Rás 2.
Tímaritið Time valdi þig sem mann ársins og er þá fátt orðið um fína drætti og vafalaust er önnur hver bloggsíða búin að tilnefna eða velja einhvern sem mann eða konu ársins rétt eins og blöðin og ljósvakafjölmiðlarnir. Sjálf get ég ekki verið minni en allt hitt fólkið og af því að þú hefur verið valinn maður ársins hjá Time, er ekki nema sjálfsagt að ég velji mig, þó ekki væri nema vegna þess að ég á afmæli í dag.
Lofgjörð sú sem ég flutti mér til heiðurs fyrir einu ári verður ekki endurtekin, en ef aðdáendur mínir vilja endilega njóta hennar, er hana að finna hér. Að þessu sinni vil ég fremur birta lítt breytta lofgjörð um mig sem ég skrifaði fyrir tveimur árum, ef einhverjir lesenda minna skyldu hafa gleymt henni:
Það var á þessum degi fyrir 55 árum síðan, að lítið barn sá dagsins ljós í litlu koti við suður í Reykjavíkurkaupstað. Þrátt fyrir stöku áföll fyrstu æviárin var framtíðin björt og í litla dalnum þar sem barnið ólst upp að miklu leyti, var talið víst að það tæki við prestakallinu þegar fram liðu stundir. Aldrei fór þó svo, því ævintýraþráin kallaði og dalurinn yfirgefinn, björt framtíð skilin eftir að baki og haldið til Reykjavíkur og síðar til sjós og framandi stranda.
Þessi ómerkilega snift tók bílpróf á sautján ára afmælisdaginn, fjórum dögum áður en heimsmethafinn geðþekki í góðakstri fæddist og hefur það komið fram í aksturslagi hennar. Hún virðist halda að hraðamælisnálin eigi alltaf að vísa til hægri í hægri umferð og fáir þora að ferðast í bifreið með henni og enginn oftar en einu sinni. Þetta þykir þess merkilegra að ekkert hefur gengið að fá hana til að feta hægri stigu í þjóðmálum og telst hún enn vera vinstri rauð.
Félagsmálin kölluðu og ákaft prédikað úr ræðustól á félagsfundum í skólafélaginu. Það var barist gegn hernum og NATÓ, setnir sellufundir og farnar Keflavíkurgöngur og haldnar messur á torgum á 1. maí gegn auðvaldi og arðráni. Það var gengið í heilagt hjónaband, en hún reyndist óþolandi í hjónabandi og því var henni skilað aftur. Börnin urðu þrjú og voru þau skírð og fermd. Síðar bættust við nokkur barnabörn og hlutu þau sömu örlög. Það nægir af fjölskyldumálum afmælisbarnsins. Það var flúið til útlanda og starfað þar um nokkurra ára skeið og það var flutt aftur til fósturjarðarinnar og sest að efst á Breiðholtsjökli, en síðar flutt niður í Árbæjarhverfið
Það vantaði vinnu og afmælisbarnið fór til starfa við að vitja dælustöðva og borhola í dalnum góða neðan við Víghólinn fræga þar sem aldraður Egill er sagður hafa banað þrælum sínum og andspænis kirkjunni sem var reist fyrir erfðafé Stefáns hreppstjóra Þorlákssonar. Eftir nokkurra ára störf í dalnum og nágrannasveitarfélögum, var loks ljóst að lítið gagn væri að kellu og var henni þá komið fyrir í kjallaranum í Royal Alfreð Hall (nafnið á víst ekki við lengur, en ætli Sviðastaðir þættu móðgandi?) þar sem hún eyðir vinnustundunum í dag við að bora í nefið og naga neglurnar.
Þetta voru helstu æviatriði þessarar vesælu persónu sem á afmæli í dag og fáu hægt að bæta við um lífshlaupið. Það er þó ljóst að þar hefur mikil og vegleg ævi farið fyrir lítið. Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að senda kerlingarhróið í Prestaskólann og láta hana síðan sækja um prestakallið góða í æskudalnum?
Ætli þessi ævisaga myndi gefa ævisögu Hannesar Hólmsteins eftir?
Aðdáendur þessarar merku persónu, þ.e. aðdáendur mínir, munu halda flugeldasýningu mér til heiðurs og verður hún um gjörvalla Reykjavík á sunnudagskvöld klukkan 24.00.
-----oOo-----
P.s. Ég og sumir aðstandendur Moggabloggs höfum náð mjúkri lendingu í þrætum okkar og ekki orð um það meir.
föstudagur, desember 29, 2006
29. desember 2006 – Þægur samstarfsflokkur
Í viðtali sem Arna Schram blaðamaður átti við Davíð Oddsson fyrir Nordisk tidskrift, sá Davíð ástæðu til að hnippa í fyrrum samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn, Alþýðuflokkinn sáluga og kvartaði yfir endalausum leka úr ríkisstjórninni á meðan þeir voru saman í sæng á árunum 1991-1995, eða eins og Davíð segir í viðtalinu: „Þetta var að mörgu leyti skemmtilegur tími, en þessi ólga alltaf innan þessa litla flokks, og endalausar deilur og reyndar endalaus leki út úr ríkisstjórninni, sem hvarf eins og dögg fyrir sólu er þeir fóru út úr ríkisstjórninni.”Ekki versnaði ástandið þegar íhaldið fór í hjónaband með Framsóknarmaddömunni. Eftir það hefur slefan ekki slitnað á milli þeirra og hefur Framsóknarflokkurinin gert allt sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beðið hann um, jafnvel farið í stríð fyrir hönd Davíðs og ekki sagt orð til að spilla ekki "samstarfinu". Það er nú ekki lekinn þegar tryggja þarf flokksbundnum Framsóknarmönnum valdastöður. Ætli sama staða sé uppi í borgarstjórn?
-----oOo-----
Í þýsku bílaborginni Stuttgart munu eigendur gamalla bíla ekki fá náðuga daga eftir 1. júlí 2007, en þá taka nýjar reglur gildi sem hamla verulega notkun eldri bifreiða. Nýju reglurnar ganga út á að bílar fá merki í bílrúðurnar þar sem heimild er gefin til aksturs innan borgarmarka og þá eftir tegund þeirra. Gamlir díeselbílar, bílar án hvarfakúta eða þá með hvarfakúta frá því fyrir 1992 fá engan slíkan miða í framrúðuna og verða því gerðir brottrækir úr borginni. Samkvæmt Dagens nyheter mun sjöundi hver bíll í Þýskalandi lenda í banni með þessari nýju reglugerð.
Allt er þetta gott og blessað, en hvernig myndi þetta virka í Noregi sem er með bílaflota sem er verulega eldri en gengur og gerist í mörgum löndum Evrópu?
-----oOo-----
Síðustu dagana hafa tilkynningar frá ÁTVR dunið á landslýð þess efnis að vínbúðir verði opnar á laugardaginn klukkan 11.00 til 18.00. Þetta eru góð tíðindi. Þessi dagur, 30. desember, hefur löngum þótt vera einn söluhæsti dagur ársins í Ríkinu hafi hann borið upp á virkan dag. Það eru því gleðitíðindi að stjórn fyrirtækisins skuli vilja viðhalda þessari góðu hefð mér til heiðurs ;)
fimmtudagur, desember 28, 2006
28. desember 2006 – If you can´t beat them, join them
Ég hefi verið að velta fyrir mér ástæðum þess að Stefán Pálsson hefur hafið harðan áróður gegn Moggabloggi að undanförnu. Lengi vel veitti ég áróðri hans ekki athygli sökum þess að netþjónninn sem Stefán notaðist við, lá niðri oft á tíðum og stundum dögum saman. Ekki var það til að bæta úr að auk skráðra bloggvina á síðunni minni, notaðist ég talsvert við Mikka vef til að skoða skemmtilegar bloggsíður, en Mikki vefur hefur nú verið í lamasessi í nokkrar vikur. Á sama tíma hefur vefútgáfa Morgunblaðsins hafið að birta valdar bloggfærslur sem blómstra eins og púkinn á fjósbitanum.
Ég fór að skoða þessar bloggfærslur af Moggabloggi sem birtust á vefMogga og varð fljótt ljóst að þar komu saman sérstakir góðvinir Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Að vísu brá fyrir stöku aðila sem ekki var í flokknum eins og Birni Inga og Guðmundi Steingrímssyni en munurinn á þeim og íhaldinu er næfurþunnur, eða eins og ónefndur aðili sagði, eins og munurinn á kúk og skít. Þannig er ljóst að sumir vinstrimenn sem halda úti mjög vinsælu bloggi, menn eins og Páll Ásgeir, bræðurnir Jakobsson og Stefán Pálsson eru aldrei nefndir í vefMogganum. Ég fæ á tilfinninguna að Morgunblaðið sé með birtingu Moggabloggs, að byggja upp hægrisinnað kerfisblogg sem andstöðu við grasrótina sem einkennt hefur bloggheiminn öðru fremur. Allavega fæ ég lítið út úr Moggabloggi þar sem sem Heimdellingarnir og aðrir íhaldsmenn (þar með talinn Björn Ingi fyrrverandi ættingi minn) eru að skrifa sama pistilinn með lítt breyttu orðalagi.
Það er ljóst að Mogginn hefur ákveðið að vinna með sínum bloggurum og reyna þannig að vinna blogglesendur á sitt band út frá gömlu reglunni: “If you can´t beat them, join them”. Í ljósi þessa get ég ekki annað en verið Stefáni sammála og mun sjálf halda áfram á blogspot sem hingað til, en einungis birta leiðinlegt blogg á Moggabloggi. Fyrir þá fáu lesendur mína sem halda að þeir missi af einhverju, vil ég taka fram, að allir pistlar sem ég set á Moggablogg, munu einnig birtast á mínu bloggi, þ.e.:
http://velstyran.blogspot.com
Að auki munu svo birtast pistlar hér sem ekki birtast á Moggabloggi.
miðvikudagur, desember 27, 2006
27. desember 2006 - 2. kafli - Lögregla 63% þjóðarinnar ...
...segir í stórri fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins í dag og mér blöskraði. Ekki það að mig hafði lengi grunað að Ísland væri lögregluríki, en þessi mikli fjöldi lögreglumanna er ótrúlegur og ég hóf að lesa greinina og létti stórum. Fyrirsögnin var röng og átti við að lögregla næði til 63% þjóðarinnar sem einnig mátti lesa úr fréttinni. Vesalings hin 37 prósentin sem ekki fá að njóta þjónustu lögreglunnar.
Þegar grannt var skoðað var verið að fjalla um skipulagsbreytingar hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, en 63% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu sem sumir vilja nefna Stór-Kjalarnessvæðið. Ég held að Morgunblaðið þurfi að hressa upp á fyrirsagnahöfunda sína.
þriðjudagur, desember 26, 2006
27. desember 2006 – Slappleiki
Það er búinn að vera einhver slappleiki í mér á annan jóladag. Ég hefi þó verið að vinna mína vakt, en sem betur fer var hún róleg. Því gat ég hvílt mig aðeins og lesið fyrstu blaðsíðurnar í bókinni um alla hina óvini ríkisins. Ég reyni að staulast áfram með bókina á morgun í þeirri veiku von að mér takist að ljúka henni fyrir áramót.
Ég hitti nokkrar helstu söguhetjurnar í friðargöngunni á Þorláksmessu og einn göngumanna lýsti bókinni þannig að í fyrri hlutanum væri höfundur að rakka niður íslenska vinstrimenn, en í seinnihlutanum reynir hann að afsaka fyrrihlutann, því það hafi ekki verið það sem hann meinti. Hvað veit ég, bara búin með 48 blaðsíður?
-----oOo-----
Sameining Mannshestahrepps átti í hinu mesta basli með Sameinaða hrútabossa í efstu Vestfjarðadeild enda fengitími þeirra síðarnefndu í fullum gangi þessa dagana og þeir kunna sér ekki læti sem eðlilegt er. Þegar 47 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 2:0 fyrir bossunum og var seinna markið sjálfsmark. Strákarnir okkar mörðu þetta nú samt á endanum og er það vel af sér vikið. Nú eru þeir þremur stigum á eftir efsta liði í deildinni, en eiga fjóra leiki til góða.
Af hetjunum fótfráu í Halifaxhreppi fer fáum sögum öðrum en þeim að framherjinn knái, Rögnvaldur frá Sogni, hélt upp á 26 ára afmælið í gær. Ekki veit ég hvort það er þess vegna sem engin úrslit berast af Shay Stadium og úr kvenfélagsdeildinni.
26. desember 2006 – 2. kafli – Fjöldi fallinna hermanna
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins er sagt frá því að nú hafi Bandaríkjamenn misst tveimur hermönnum fleiri en féllu í árásinni á tvíburaturnana árið 2001 (í fyrirsögn vefútgáfu 9/11 eða 9. nóvember).
Þessi frétt er vissulega rétt miðað við þrengstu opinberar tölur um fallna hermenn, en stjórnvöld ríkja sem eiga í stríði eru gjörn á að gefa upp mun færri fallna en raun ber vitni til að lama ekki baráttuþrek þjóðarinnar, en það eru einnig til fleiri tölur. Frá því stríðið gegn ætluðum hryðjuverkum hófst haustið 2001 hafa Bandaríkjamenn misst 2975 hermenn í Írak en 356 í Afganistan. Samtals gera þetta því 3331 hermaður. Hinir samseku hafa að auki misst 239 menn í Írak og því er heildarfjöldi fallinna hermanna svokallaðra bandamanna kominn upp í 3570 samkvæmt skýrslum hermálayfirvalda. Að auki hafa 22235 hermenn Bandaríkjamanna særst samkvæmt opinberum tölum en talið er að sú tala sé verulega hærri eða á milli 23000 og 100000 hermenn samkvæmt áætlunum Antiwar.com .
Það sem er þó grátlegra er að ástandið í Írak er í dag verra en nokkru sinni fyrr, blóðug borgarastyrjöld og engar friðarlíkur í augsýn.
Á myndinni sést er breskir hermenn í Basra í Írak fagna jólunum 2006 með því að sprengja eina litla lögreglustöð með innihaldi.
26. desember 2006 – Hið gleymda jólatré
Á jóladagskvöld var flutt frétt um gleymt jólatré við Reykjavíkurhöfn. “Ha, er búið að gleyma Hamborgarjólatrénu?” hugsaði ég og sperrti eyrun. Fréttin fjallaði um það að Íslendingar vissu ekki lengur hversvegna íbúar Hamborgar senda Íslendingum jólatré á hverju ári sem þeir hafa gert síðan 1965 og var síðan flutt viðtal við Unni Friþjófsdóttur útgerðarmanns á Patreksfirði, Ólafssonar Jóhannessonar, en eldgamlir sjóhundar muna vafalaust eftir nýsköpunartogara sem bar nafn Ólafs og einkennisstafina BA-77, en faðir Unnar var í hópi íslenskra útgerðarmanna og sjómanna sem blöskraði svo neyðin og fátæktin í þýskum hafnarborgum eftir lok seinni heimsstyrjaldar að þeir hófu matargjafir þangað. Það var svo 1965 sem félagsskapur fólks í Hamborg undir heitinu Wikingerrunde ákvað að þakka fyrir sig og í samráði við Hamborgarhöfn, hóf að senda árlega jólatré til hafnarstjórnar Reykjavíkur og var tréð lengstum reist framan við Hafnarbúðir.
Sjálf get ég ekki sagt að ég hafi gleymt tilefni þessa jólatrés, en með því að stór hluti hafnsækinnar starfsemi Reykvíkinga er farinn úr gömlu höfninni, verða erindin færri og færri niður á höfn með hverju árinu og smám saman gleymist að þarna er reist jólatré á hverju ári til minningar um vinarþel Íslendinga og þýsku þjóðarinnar.
Myndin er tekin af síðunni Togarar sjá http://www.togarar.homestead.com/bretog.html, en þar hefur Jóhann Jóhannsson unnið gott starf við að koma sögu íslenskrar útgerðar á netið.
-----oOo-----
Fyrir 22 árum síðan keypti ég mér hljómkassettu með jólasöngvum Dolly Parton og Kenny Rodger og hefi ég spilað þessa kassettu á hverju ári síðan þá og talið ómissandi í aðdraganda jóla og allt til þrettándans, þá sérstaklega þau ár sem ég hefi ekki verið í nálægð við íslenska jólatónlist. Í fyrra fannst mér tími til kominn að endurnýja þreytta kassettuna og keypti ég mér geisladisk með sama nafni og sömu flytjendum. Nú um jólin fór ég að undrast af hverju ég hefði ekki heyrt sum lögin þetta árið og fór að skoða geisladiskinn betur og viti menn. Enska útgáfan af Heimsumból (Silent night) var ekki á geisladiskinum, en eitthver brjóstsykursjól (Hard Candy Christmas) komin í staðinn. Gamla þreytta kassettan er nú komin á sinn stað, en geisladiskurinn ofan í skúffuna með jólaskrautinu frá Húsasmiðjunni.
-----oOo-----
Golfdruslan LN-131 er farin úr stæðinu mínu og ástæða til að fagna.
mánudagur, desember 25, 2006
25. desember 2006 – Af gömlu jólastressi
Sumarið 1981 lenti flutningaskipið Berglind sem var í rekstri hjá Eimskip, í árekstri við flutningaskipið Charm og sökk. Til þess að fylla það skarð sem Berglindin skyldi eftir sig, tók Eimskip danskt flutningaskip á leigu að nafni Junior Lotte. Skipið sigldi á Ameríku á móti Bakkafossi.
Ég var í landi veturinn 1981-1982 og sá um viðhald frystigáma. Junior Lotte var í höfn í Reykjavík tveimur dögum fyrir jól og gekk illa að lesta skipið í frostinu þessa daga fyrir jól. Það voru tveir kranar á skipinu og báðir dieselknúnir og þurfti að loka lúgum skipsins með hjálp krananna, en þeir fóru ekki í gang í frostinu. Þá var hringt í okkur í gámaeftirlitinu af tæknideildinni og við beðin um að aðstoða áhöfnina við að koma krönunum í gang. Mig grunaði strax að áhöfnin kærði sig ekkert um að fá kranana í gang svona rétt fyrir hátíðarnar og hefðu ætlað sér að sitja á þessari bilun þar til mesta jólahátíðin væri liðin. Valdi vinnufélagi minn, hin mesta hamhleypa til allra verka, var þó ekki á því að láta þessa menn komast upp með slóðaskapinn, greip Kosangaskút og óð um borð og hóf að hita vél annars kranans með hjálp Kosangass og þegar hann öskraði, ræsa, gaf ég vélinni start og við hurfum í reykmekki um leið og vél kranans fór í gang. Svo afgreiddum við hinn kranann á sama hátt og eftir það hafði áhöfn skipsins enga afsökun lengur fyrir því að loka lúgunum svo unnt væri að ljúka lestun skipsins og senda það af stað til Ameríku.
Áhöfn Junior Lotte sá enga ástæðu til að fagna þessu framtaki okkar. Þvert á móti fundu þeir atorku okkar allt til foráttu, en þeir neyddust samt til að halda úr höfn á Þorláksmessu, en íslenska þjóðin fór heim og hélt sín jól. Á aðfangadagskvöld jóla 1981 var flutningaskipið Junior Lotte á siglingu eigi fjarri suðurodda Grænlands, er yfirvélstjóri skipsins fékk skyndilega heiftarlega magakveisu og eftir alvarlegar þrautir í skamman tíma, lést hann í höndum skipsfélaga sinna án þess að neinni björgun yrði komið við. Líkinu var síðan komið fyrir í tómum frystigám, en nýr yfirvélstjóri kom svo um borð eftir að komið var til Norfolk í Virginíufylki.
Næstu árin á eftir var ég iðulega að ásaka sjálfa mig og Valda fyrir dugnaðinn. Ég veit auðvitað að við gátum ekkert að þessu gert og vorum einungis að sinna skyldustörfum, en hefðum við verið aðeins værukærari við að koma skipskrönum skipins í gang þennan örlagaríka dag ársins 1981, væri yfirvélstjórinn kannski lifandi enn í dag.
Með þessari sorgarsögu ítreka ég enn og aftur jólaóskir mínar til allra sem nenna að lesa bloggið mitt. Sömuleiðis fá allir bifreiðarstjórar sem gáfu okkur stefnuljós í jólagjöf á aðfangadag jólakveðjur. Að lokum ætla ég að fyllast kristilegum kærleiksanda og senda jólakveðjur bílstjóranum á gráu Golfdruslunni sem stalst til að leggja í stæðið mitt á aðfangadag og er enn með hræið sitt í stæðinu þegar þessi orð eru rituð.
sunnudagur, desember 24, 2006
24. desember 2006 – Gleðileg jól
Mig langar til að byrja á einni stuttri leiðréttingu því að sjálfsögðu geta mér orðið á lítil mistök rétt eins og Mogganum. Mér skilst að Dofri Hermannsson sé fastur Moggabloggari, en að sjálfsögðu setti hann upp hauspokann og læddist inn í friðargönguna á Þorláksmessu. Veri hann ávallt velkominn í Guðs friði sem og aðrir þeir sem velja friðinn framyfir hollustu við foringjann.
Þegar ég byrjaði til sjós og í mörg ár á eftir, var til siðs að flytja jólakveðjur til sjómanna á hafi úti, eftir hádegi á aðfangadag jóla. Í þau skipti sem hægt var að hlusta á íslenskt útvarp, voru jólakveðjurnar jafnframt það sem markaði þáttaskil á milli hversdagsleikans og jólahátíðar. Allir sem gátu komið því við, hlustuðu á jólakveðjurnar, oftast um leið og vistarverurnar um borð voru skreyttar og ilmurinn af jólasteikinni barst um skipið.
Þetta var oft mjög erfiður tími, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk. Það var erfitt að vera fjarverandi, að missa af sælubrosi barnanna á aðfangadagskvöld og hamingjunni sem skein úr andlitum þeirra, að þurfa að láta sér nægja að ímynda sér brosin á andlitum þeirra. Sjálf var ég ellefu jól á sjó eða á skipi í höfn erlendis af rúmlega tuttugu ára sjómennsku og taldi mig komast ágætlega frá þessu. Góður vinur minn lenti hinsvegar í að þurfa að leysa yfirvélstjórann af ár eftir ár og hafði ekki kjark í sér til að segja stopp, hingað og ekki lengra. Nú er komið að mér að fá frí ein jól. Í gamla daga fóru skipstjóri og yfirvélstjóri í frí um jólin og næstráðendur sigldu skipinu á meðan. Eftir að hafa verið á sjó í sautján jól nánast í röð, var þrek vinar míns búið og hann var keyrður beint á Vog er heim var komið úr jólatúr snemma í janúar. Þessi maður þarf ekki lengur að drekkja jólasorgum sínum í brennivíni. Hann er sjálfur þurr yfirvélstjóri í dag og stýrir sínu fólki af sanngirni og réttlæti, ekki eins og honum var stjórnað fyrr á árum.
Í dag eru fá skip á sjó á jólum, nánast engin fiskiskip, en fá önnur skip. Þá eru föst áhafnaskipti um borð og þess gætt að sem flestir fái sín jól með fjölskyldu sinni. Sjálf eyddi ég flestum mínum jólum á sjó um borð í flutningaskipum, en þó með tveimur undantekningum. Með fækkun skipa á sjó á jólum, hefur jólakveðjunum til sjómanna á hafi úti fækkað svo mjög, að jólakveðjurnar lögðust af. Þessari þróun ber að fagna.
-----oOo-----
Aðfangadagur jóla er dagur Kertasníkis, en rétt eins og Stekkjastaur er stýrimaðurinn í hópnum, er Kertasníkir sá sem veitir okkur birtu og yl (eins og ég) og heldur okkur að góðum verkum, drífur okkur áfram rétt eins og vélstjórinn kemur skipinu áfram með hjálp aflvéla skipsins.
Með þessu óska ég öllum þeim sem lesa bloggið mitt sem og öllum öðrum, gleðilegra jóla.
laugardagur, desember 23, 2006
23. desember 2006 – 2. kafli – Friðargangan
Ég fór í hina hefðbundnu Þorláksmessugöngu friðarhreyfinga í dag niður Laugaveginn. Þar var fullt af góðu fólki að venju, herstöðvaandstæðingar, ýmsir vinstrimenn og marga sá ég bloggarana í göngunni. Hinsvegar engan fastan Moggabloggara, enda stunda þeir ekki friðargöngur, eru sýnu hrifnari af að hylla foringjann. Óvinir ríkisins voru fjölmennir en hvorki Jón Baldvin né Árni Páll Árnason voru þarna, enda flokkast þeir varla sem óvinir ríkisins og sjálfir hluti af gömlu ríkisvaldi. Þá sá ég tvo Framsóknarmenn. Sigmar B. Hauksson læddist meðfram veggjum á móti göngunni, en hinn Framsóknarmaðurinn sem ég veit að er utan af landi, þvældist um eins og hann væri villtur. Þegar fundinum lauk á Lækjartorgi gekk ég til baka upp Bakarabrekkuna og Laugaveginn og sá þá ónefnda Framsóknarmanninn þar sem hann var enn að ráfa um Laugaveginn bláedrú. Ég þóttist vita að einhver myndi vísa honum réttu leiðina út til landsbyggðarþorpsins Kópavogs þar sem hann á heima og lét hann því eiga sig.
-----oOo-----
Nú er komin Þorláksmessa og gluggaseríurnar sem ég keypti í Húsasmiðjunni eru komnar í ruslið. Þá er ég farin að hengja jólaljós frá Bykó á litla glænýja ljósleiðarajólatréð mitt frá Húsasmiðjunni þar sem mótorinn sem knýr litaspjaldið snýst ekki nema með hjálp. Svo á ég hér ákaflega sæta ljósakúlu frá Húsasmiðjunni sem ég ætlaði að hengja í einn glugga, en þar sem það kviknar ekki á henni, fær hún að vera í kassa þessi jólin. Næsta ár ætla ég ekki að kaupa mér jólaskraut frá Húsasmiðjunni.
23. desember 2006 - Hvar hefur Sigurður Kári verið öll þessi ár?
Ég hlustaði á hluta af spjalli um fréttir vikunnar í síðdegisútvarpi Rásar 2, þar sem viðmælendurnir voru Sigurður Kári hinn flughræddi Kristjánsson alþingismaður og Árni Páll Árnason frambjóðandi. Vesalings Sigurður skyldi ekkert í því hverjar breytingar hefðu orðið á veðri síðan hann var að alast upp því þá hefði alltaf verið snjór og frost fyrir jólin. Ég þykist vita að Sigurður Kári hefur verið uppi á Grænlandsjökli veturinn 1976-1977. Allavega hefur hann ekki verið í Reykjavík, því það snjóaði varla allan veturinn. Sennilega hefur það verið einn snjóléttasti vetur tuttugustu aldar. Það sem af er þessum vetri hefur þegar snjóað miklu meira en allan þann vetur.
Hið vesæla veðurminni fólks er að vísu þekkt meðal veðurfræðinga og í bernskuminningunni snjóaði allan veturinn. Þetta minnir mig svo aftur á orð ágæts manns sem nú er látinn, en ól allan sinn aldur í dalnum góða, Mosfellsdalnum. Einhverju sinni var hann að rifja upp veðrið í gamla daga og öll skiptin sem það var nánast ófært úr dalnum góða. Ég reyndi hvað ég gat að rifja upp öll þessi skipti og man einungis eftir einu tilfelli sem skólabíllinn festist í skafli í Ásunum vestur af Mosfellsdalnum.
Þegar Sigurður Kári og Árni Páll hættu að ræða um veðrið og verið sammála um Byrgið (sem og ég), barst talið að strandi Wilson Muuga ex Selness á Hvalsnesi norðan við Stafnes. Missti þá Sigurður Kári út úr sér að hann skildi ekkert af hverju sjálfstýringin hefði verið á svona nærri landi. Orð hans segja mér það að annaðhvort hefur hann aldrei verið til sjós eða þá að hann hætti til sjós fyrir 1960. Mér finnst fyrri skýringin líklegri.
Sigurður Kári virðist halda að stýri í skipi sé eins og stýri í bíl eða þá svona gamaldags risastórt tréhjól þar sem maður stendur og stýrir 24 tíma á sólarhring á siglingu. Það er auðvitað ekki svo. Fyrstu sjálfstýringarnar frá því fyrir 1960 voru vissulega svo ófullkomnar að setja varð skipið á stefnuna áður en sjálfstýringin var sett á, en þær voru svo viðkvæmar að ef eitthvað var að veðri, fór skipið iðulega af stefnunni og þurfti þá að handstýra því inn á stefnuna að nýju eða kalla á vakt til að stýra skipinu. Selnesið er smíðað 1975 og þá voru löngu komnar mun fullkomnari sjálfstýringar þar sem einungis þurfti að snúa einum takka til að breyta stefnunni. Nýlegri skip eru búin með sjálfstýringar þar sem skipið beygir sjálft eftir GPS punktum eða öðrum staðarákvörðunarpunktum. Þetta vita lesendur mínir, að minnsta kosti þeir sem eru búnir með Stýrimannaskólann, þeir Siggi, Steini og Þórður. Það er hinsvegar eðlilegt að Sigurður Kári viti þetta ekki, enda er hann einungis með málflutningsréttindi og hefur sennilega aldrei dyfið hendinni í kalt vatn.
-----oOo-----
Ég ætlaði ekki að koma með nýja færslu fyrr en í morgunsárið, vitandi það að ég yrði á vakt um borð í Dettifossi í nótt. Áhöfn skipsins var hinsvegar kölluð til skips um miðnættið vegna mjög slæmrar veðurspár og þar með hafði ég ekkert frekar að gera um borð og flýtti mér heim.
föstudagur, desember 22, 2006
22. desember 2006 - 2. kafli - Eru stefnuljós bönnuð?
Ég er að velta því fyrir mér hvort búið sé að banna stefnuljós? Ég hefi verið úti að aka í gær og í dag og það heyrir til undantekninga að fólk gefi stefnuljós. Það væri svo sem allt í lagi ef fólk rétti út hendina út um gluggann áður en það beygir, en því er ekki heldur að heilsa. Verst er þó þegar fólk er að troða sér inn á milli bíla eða svína á náungann og ómögulegt er að henda reiður á hvað viðkomandi ætlar að gera.
Ég er ekki hrifin af refsigleði lögreglu og yfirvalda, en ég held að það sé kominn tími til að sekta fyrir stefnuljósasparnaðinn. Hrifnust er ég af því ef fólk gefur mér stefnuljós í jólagjöf, nema auðvitað Þórður sem á að senda mér pels í jóla- og afmælisgjöf :)
-----oOo-----
Það er engin færsla í kvöld og ekki fyrr en í fyrramálið, Þorláksmessu.
22. desember 2006 – Eitt ár hjá Blogspot
Fyrir ári síðan skipti ég um blogg, fór frá Blog.central og byrjaði að skrá vandamál mín á Blogspot.com. Ástæðurnar komu ekki af góðu. Þegar ég byrjaði að blogga á Blog.central voru engar auglýsingar þar, en þegar ég gafst upp tæpu hálfu öðru ári síðar, blikkaði auglýsingafárið eins og jólatré. Að auki var farið að innheimta gjald fyrir færslurnar og ýmsum atriðum miskunnarlaust ýtt til hliðar væri ekki nóg pláss á servernum. Blog central var einfaldlega orðið peningaplokk. Þá gafst ég upp og færði mig yfir á Blogspot.com.
Á þessum 365 dögum hefi ég sett inn sléttar 400 færslur og er þetta færsla númer 401. Á þessu ári hefi ég fengið 60740 heimsóknir inn á síðuna sem svarar til 166.4 heimsóknir á dag að jafnaði. Auk þeirra hafa sumir óvart villst inn á Blog.central, en um 15000 gestir hafa villst þangað inn á þessum tíma svo heildarfjöldinn þar er 76984 er þessi orð eru rituð. Ég hefi verið að prófa mig áfram með önnur blogg, en ekkert þeirra hefur enn náð að uppfylla væntingar mínar nægilega til að ég færi alfarið þangað yfir.
-----oOo-----
Ég eyddi fimmtudeginum í jólagjafakaup og jólagjafadreifingu og svo fór ég með bókina um Möggu til Þórunnar Hrefnu og fékk hana áritaða (Takk Tóta). Þrátt fyrir mikið stress í umferðinni tókst mér að komast allra minna ferða klakklaust. Ég viðurkenni þó þá hræðilegu yfirsjón að stela bílastæði frá manni á gömlum jeppa sem einnig ætlaði að leggja í sama stæðið við Sjóvá rétt hjá Kringlunni. Ég skammast mín alveg eins og kleina, en um leið verður að viðurkennast að maðurinn hikaði líka eins og hann biði þess að sjá hvað ég myndi gera. Ef hann skyldi lesa þessi orð mín, vil ég láta það koma fram að ég er uppfull iðrunar ;)
fimmtudagur, desember 21, 2006
21. desember 2006 - 2. kafli - Sorgarfréttir á Morgunblaðinu
Á liðnu hausti barst sú fregn út til allrar heimsbyggðarinnar, að heimsmethafinn geðþekki í kappakstri, hinn óumdeilanlega fremsti ökumaður allra tíma, hinn aldurhnigni Michael Schumacher, hygðist leggja stýrið á hilluna og taka upp heilnæmari og hógværari lífshætti. Þótt þessi tilkynning kæmi fáum á óvart, olli hún mikilli sorg, ekki einungis hjá okkur aðdáendum hans, en einnig og öllu frekar á íþróttadeild Morgunblaðsins þar sem íþróttafréttaritarinn og aðdáandi Schumachers númer eitt hefur síðan þetta var, ekki á heilum sér tekið. Vesalings Ágúst Ásgeirsson þarf nú risastóran afþurrkunarklút til að þerra tárin á sama tíma og við hin þurfum að leita að nýjum ökumanni sem getur hugsanlega hálffyllt það skarð sem Michael Schumacher skildi eftir sig.
Önnur sorgarfregn hefur nú borist okkur föstum lesendum Morgunblaðsins og sem veldur löngu sorgarferli á ritstjórnarskrifstofunum í Hádegismóunum hér í Árbæjarhverfinu. Turkmenbashi, faðir allra Turkmena er látinn, einungis 66 ára að aldri. Þessi maður sem sá til þess að brosviprum brá stöku sinnum fyrir á steinrunnum andlitum dyggra lesenda Morgunblaðsins er fallinn frá og ljóst að finna verður nýjan forseta til að hæðast að, svo ekki verði óbragð að jólamatnum. Sú leit ætti að vera mun auðveldari en leitin að arftaka Michaels Schumacher, enda einungis ein landamæri yfir að fara.
Nágranni og kollegi Turkmenbashi í Uzbekistan heitir Islam eða Islom Karimov. Hann komst til valda í lok Sovéttímans árið 1989 og fljótur að tileinka sér svipaðar lýðræðishugsjónir og nágranni hans í suðri og hefur barið niður alla andspyrnu af mikilli hörku. Öfugt við Turkmenbashi hefur Karimov áunnið sér virðingu meðal helstu hryðjuverkamanna þessa heims og hlotið mikinn stuðning þeirra. Sjálfur er hann flokkaður af tímaritinu Parade Magazine sem fimmti versti einræðisherra heims. Hann ætti því að vera kjörinn aðili fyrir Morgunblaðið að hæðast að í stað hins látna Turkmenbashi.
21. desember 2006 – Jólafrí
Samkvæmt vaktatöflunni minni er ég komin í jólafrí. Ég lauk síðustu vakt fyrir jól á miðvikudagsmorguninn og á ekki vakt aftur fyrr en á annandag jóla. Ég verð síðan á vakt þar til á afmælisdegi Tiger Woods og Alberts frænda míns, en þá fer ég aftur í frí til að fagna nýju ári. Þessi frí mín þýða þó ekki að ég muni taka mér langt frí frá bloggi, en ég lofa að ég muni sofa ágætlega næstu dagana.
-----oOo-----
Ég fór út að aka á miðvikudagskvöldið á mínum vinstrigræna eðalvagni og gaf stefnuljós til hægri og vinstri eftir því sem tækifæri gafst til slíkra aðgerða. Ekki veitti af því það var talsvert dimmviðri, hvassviðri og blautt. Því miður virtist sem ég væri ein um að gefa stefnuljós í Árbæjarhverfinu sem og víðar, en fleiri mættu þjálfa puttana með því að gefa oftar stefnuljós. Sú hreyfing er mjög holl og mannbætandi.
miðvikudagur, desember 20, 2006
20. desember 2006 – Endurtekið efni?
Þriðjudaginn 10. janúar síðastliðinn, fyrir tæpu ári síðan, birti DV mynd af þekktum kennara og rithöfundi á forsíðu ásamt fyrirsögn sem gekk út á að umræddur maður hefði verið kærður fyrir að nauðga piltum. Þetta hefði vafalaust getað orðið áhugavert dómsmál, en með hinni nýju fréttamennsku DV og umfjöllun blaðsins um þennan mann, tókst þeim að eyðileggja málið. Þegar kennarinn svipti sig lífi í kjölfar myndbirtingarinnar, var rannsókn málsins hætt, ritstjórar DV neyddust til að segja af sér og blaðið fór nánast á hausinn í kjölfarið og er nú eingöngu gefið út sem helgarblað.
Síðastliðinn sunnudag hóf Stöð 2 sama leikinn með því að ritstjórn fréttaskýringarþáttarins Kastljóss hóf að sakfella forstöðumann Byrgisins með svipuðum hætti og DV gerði í janúar síðastliðnum. Forstöðumaður Byrgisins hefur þó ekki farið sömu leið og kennarinn fyrir tæpu ári, heldur verst hann af hörku og er það vel.
Ég held að það sé alveg ljóst, að ef forstöðumaður Byrgisins hefði verið álíka langt niðri og kennarinn fyrir einu ári, þá væru Sigmundur Ernir Rúnarsson og Jóhannes Kristjánsson ritstjórar Kompáss atvinnulausir í dag. Þeir mega því þakka fyrir að Guðmundur í Byrginu er maður til að berjast af hörku á móti þeim.
Það er ekki mitt að leggja á það mat hvort forstöðumaðurinn eða kennarinn séu eða hafi verið sekir eða saklausir af þeim glæpum sem þeim eru bornar á brýn. Það er heldur ekki hlutverk Sigmundar Ernis Rúnarssonar, Jóhannesar Kristjánssonar, Jónasar Kristjánssonar eða Mikaels Torfasonar. Það er hlutverk dómstólanna að leggja á það mat hvort þessir menn hafi gerst sekir um glæp eður ei. Þangað til forstöðumaðurinn verður hugsanlega dæmdur sekur er hann saklaus maður og ber að umgangast hann með virðingu.
Sumir blaðamenn sem og almenningur gera háværar kröfur um að stjórnmálamenn axli ábyrgð á verkum sínum. Við verðum að gera sömu kröfur til blaðamanna, því annars er illa komið fyrir þessu þjóðfélagi okkar. Við skulum svo hafa í huga að í réttarríki verður látinn maður ekki dæmdur sekur. Maðurinn sem svipti sig lífi fyrir ári síðan lést því saklaus af þeim syndum sem á hann voru bornar.
þriðjudagur, desember 19, 2006
19. desember 2006 – Á Hlemmi
Það var vorið 1996. Ég hafði farið í umdeilda aðgerð árinu áður, en var ákveðin í að flytja heim aftur og hafði skroppið til Íslands í nokkra daga í þeim tilgangi að leita mér að vinnu á Íslandi. Þar sem ég var á gangi framhjá Hlemmi einn góðviðrisdag, rakst ég óvænt á gamlan kunningja sem ég hafði ekki séð síðan ég flutti af landi brott sjö árum áður. Kunninginn hafði það að atvinnu að aka strætisvagni og beið hann eftir vagninum sínum á vaktaskiptum er mig bar þar að.
Ég gekk auðvitað rakleitt að kunningjanum og heilsaði honum, en öfugt við það sem ég átti von á, muldraði hann eitthvað, svaraði fálega, leit undan eins og hann væri að leita að flóttaleið og hendur hans grófust djúpt í vasana eins og væri hann í vasabilljarð. Hann notaði síðan fyrsta mögulega tækifæri til að losna undan þessari pínlegu aðstöðu sem ég virtist hafa sett hann í með því að heilsa honum og hljóp inn í húsið, en ég hélt áfram göngu minni niður Laugaveginn. Ég hefi ekki séð ástæðu til að kasta á hann kveðju síðan þetta var og reyndar ekki séð hann nema einu sinni síðan og þá í nokkurri fjarlægð.
Verst þótti mér þó að hafa ekki getað laumað því að strætisvagnsstjóranum, að kynáttunarvandi væri atvinnusjúkdómur meðal þessarar ágætu stéttar, en í samtökum þeim sem ég veitti forystu um tveggja ára skeið, voru þrír strætisvagnsstjórar auk leigubílstjóra og eins lestarstjóra.
mánudagur, desember 18, 2006
18. desember 2006 – “Á Valhúsahæðinni ...
... er verið að krossfesta mann.”
Loksins, loksins, kom eitthvert safaríkt slúður. Stöð 2 hafði vissu fyrir ásökunum sínum og auglýsti vel og vandlega að maður yrði tekinn af lífi með krossfestingu klukkan 22.25. Til að gera málið enn forvitnilegra var þess vandlega getið að þátturinn yrði stranglega bannaður börnum.
“Og fólkið kaupir sér far með strætisvagninum til þess að horfa á hann.”
Löngu áður en þátturinn hefst, er fólk búið að koma sér fyrir í sjónvarpssófanum með popp og kók því það skyldi ekki missa af krossfestingu þessa villutrúarmanns. Börn jafnt sem gamalmenni troðast í sófann og velta fyrir sér hvort Gummi í Byrginu sé Mummi í Mótorsmiðjunni eða hvort hann sé djöfullinn uppmálaður. Hann sem má ekki vamm sitt vita, hefur gert sig legorðssekan og auk þess notað svipur og allskyns lostatæki.
“Það er sólskin og hiti og sjórinn er sléttur og blár.”
Ekki er það alveg sannleikanum samkvæmt. Úti er frost og nepja sem á betur við í landi sem drepið hefur heilu kynslóðirnar úr vosbúð og kulda og danskri áþján, en í næsta versi deilir enginn um sannleikann:
“Þetta er laglegur maður með mikið enni og mógult hár”
Í sjónvarpsþættinum er manninum gefinn kostur á að svara ásökunum áður en krossfestingin fer fram. Hann svarar röggsamlega og hiklaust. Hann hefur orðið fyrir röngum sakargiftum. Fólk hefur stolið frá honum og fólk hefur lætt dónaskap inn á tölvurnar hans. Sjálfur er hann vel kvæntur og á börn og enginn efast um að hann hefur bjargað margri sálinni frá glötun. En samt. Réttlætið hefur sinn gang og því er framfylgt með krossfestingu.
“Og stúlka með sægræn augu segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig?”
Þá höfum við heyrt páskaboðskap Stöðvar 2, en afsakið: Eru ekki að koma jól?
(Innan gæsalappa: Passíusálmur nr 51, eftir Stein Steinarr)
laugardagur, desember 16, 2006
17. desember 2006 – Skulu dæmdir af verkum sínum ....
..... voru orðin sem Jón Sigurðsson gaf árangri Framsóknarflokksins í landsmálunum síðustu 90 árin.
Þar sem ég var í vinnunni og fylgdist með fréttum af 90 ára afmæli Framsóknarflokksins, fóru í gegnum huga minn stuðningur fyrrum formanns Framsóknarflokksins við innrás og fjöldamorð í Írak. Sömuleiðis var mér hugsað til þeirra 80 Framsóknarmanna sem hafa fengið bitlinga hjá Reykjavíkurborg að sögn Björn Inga Hrafnssonar og þá sérstaklega þess þeirra sem Reykvíkingar höfnuðu en fékk samt feit embætti. Í gegnum hugann fór sú spilling í mannaráðningum og bitlingum sem Jónas frá Hriflu innleiddi hér á landi í árdaga Framsóknarflokksins og nú síðast, hvernig Framsóknarmenn hafa hreinlega keypt sér fylgi í síðustu tvennum kosningum.
Á afmælisfundi Framsóknarflokksins reigði sig formaður flokksins sjálfur Jón Sigurðsson eins og Gissur jarl Þorvaldsson á meðan utanríkisráðherrann virðist hafa verið í Noregi að semja við þarlent konungsvald um yfirtöku landsins rétt eins og Gissur jarl og Þórður kakali á þrettándu öld. Á mánudag ætlar kakalinn að gera víðreist og reyna að komast að samkomulagi við Dani, þið vitið, þjóðina sem hefur reynst okkur verst allra þjóða í gegnum aldirnar. Nú eiga þeir að taka að sér varnir þjóðar sem hvorki þarf á dönskum né norskum vörnum að halda. Við vitum hvernig slík svik enda. Hið einasta sem við þurfum á að halda, eru lítt eða ekki vopnuð varðskip, þyrlur og flugvélar sem halda uppi löggæslu og öryggisþjónustu sjófarenda á Norður-Atlantshafi sem og öryggisþjónustu við strendur og á hálendi Íslands, ekkert annað.
Ég hefi verið spurð að því, af hverju ég ræðst ekki að Sjálfstæðisflokknum af sama offorsi og ég ræðst gegn Framsóknarflokknum? Því er til að svara, að Sjálfstæðisflokkurinn er með stefnu, ákveðna stefnu sem er í algjörri andstöðu við lífsskoðanir mínar, en samt stefnu. Með andláti samvinnuhreyfingarinnar hefur Framsóknarflokkurinn enga raunverulega stefnu lengur aðra en það markmið að sitja að völdum og sitja sem lengst að völdum.
Af þessu tilefni og þrátt fyrir hamingjuóskir mínar í gær til þessarar ónefnu af flokki í tilefni af níræðisafmælinu, held ég að best sé fyrir alla aðila að þessi gjörspillti eiginhagsmunaflokkur fái að deyja í friði, saddur lífdaga.
-----oOo-----
Á föstudag rölti ég út á pósthús með nokkur jólakort sem ég hugði koma í póst til vina og vandamanna erlendis. Ofurkisan Hrafnhildur fylgdi mér niður stigana, en öfugt við venjuna þegar ég hleypi henni út garðmegin og fer svo sjálf út að framanverðu, fór ég með henni út í garð og rölti þá leiðina út í pósthús sem er jú örstutt frá heimilinu. Hrafnhildur ofurkisa átti ekki von á því að ég breytti útaf venjunni og rölti því með mér út í pósthús rétt eins og þegar hundur fylgir eiganda sínum. Hún beið svo róleg fyrir utan pósthúsið á meðan ég lauk erindum mínum þar inni og rölti svo með mér heim aftur.
Það er alveg á hreinu, að ekki þarf ég á hundi að halda, þegar ég á jafn húsbóndaholla kisu.
16. desember 2006 – Veðurfræðingar
Einn ágætur frændi minn, ákaflega geðþekkur og léttur í lundu, dæmigerður brandarakarl, lenti í þeirri aðstöðu fyrir einhverjum áratugum síðan, að þurfa að flytja veðurfregnir í sjónvarpi. Frændfólkið sat sem límt fyrir framan skjáinn fyrsta kvöldið sem hann lýsti veðrinu og beið þess að hann færi að reyta af sér brandarana fyrir framan alþjóð, en þvílík vonbrigði.
Þarna var hann á skjánum, ákaflega þurrlegur með samanbitnar varir og svitastorkið enni og þegar hann ætlaði að benda á einhver atriði á veðurkortinu, var erfitt að sjá hvort hann væri að benda á Langanes eða Reykjanes, svo skjálfhentur var hann. Frændinn lýsti svo veðrinu í sjónvarpi allra landsmanna í nokkur ár, en var aldrei eins og hann átti sér á meðan hann var á skjánum, en sem betur fer losnaði hann ávallt úr álögum í hvert sinn sem hann hvarf úr mynd.
Ástæða þess að ég nefni þetta hér, er að ég fæ á tilfinninguna að veðurfræðingum sé uppálagt að vera þurrir og leiðinlegir í sjónvarpi. Oft eru þeir með slíkan angistarsvip að ætla mætti að einhverri ólyfjan hafi verið þvingað ofan í þá og þeim síðan dyfið ofan í sýrubað til að þjáningin verði raunverulegri er þeir birtast á skjánum. Ég er ekki að tala um eitthvert einstakt tilfelli, heldur allan hópinn sem flytur veðurfregnir í Ríkissjónvarpinu, oft svo armæðufullur að maður leggst í þunglyndi yfir veðurspánni sem kannski hljómar upp á sól og blíðu.
Þá er nú munur að fylgjast með Sigga stormi er hann sést á Stöð 2, geislandi af gleði og segjandi brandara eins og honum væri borgað fyrir það (hann fær reyndar borgað fyrir það). Þá er fólkið sem segir veðrið með honum greinilega betur upplýst um góða framkomu í sjónvarpi og mættu veðurfræðingarnir á Ríkissjónvarpinu taka það sér til fyrirmyndar.
Ég skil ekkert í Páli Magnússyni útvarpsstjóra að hafa ekki lagað þennan þátt mála hjá Ríkissjónvarpinu fyrir löngu, þar sem hann hefur nú verið við störf sem útvarpsstjóri í rúmt ár.
-----oOo-----
Þegar fólk heldur upp á níræðisafmælið er oft stutt eftir og vafasamt hvort eigi að óska því til hamingju með afmælið ef það er komið að fótum fram sökum elli og lasleika, jafnvel lagst í kör. Þótt ekki sé hátt risið á Framsóknarflokknum þessa dagana og ýmis merki um ekki sé langt eftir, ætla ég samt að láta kurteisina ráða og óska flokknum til hamingju með níræðisafmælið í dag.
-----oOo-----
Loks er Pottaskefill kominn til byggða og veri hann velkominn eins og bræður hans. Það minnir mig svo aftur á ónefndan matsvein á nýsköpunartogara hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur sem var að segja nýjum aðstoðarmanni fyrir verkum í eldhúsinu. Þar sem nýi aðstoðarmatsveinninn var að hamast við að hreinsa súputarínuna (stór súpupottur sem súpan var framreidd í), benti gamli maðurinn honum ofan í tarínuna og sagði rólega en með sinni djúpu og hljómmiklu röddu svo vel heyrðist inn í borðsalinn:
“Þessa klessu þarftu ekki að þvo, hún er gömul”
föstudagur, desember 15, 2006
15. desember 2006 – Jólakortin og skörðótti bryggjukanturinn
Ég hefi setið allt fimmtudagskvöldið og skrifað á jólakort. Ekki get ég sagt að þeim hafi fækkað mikið frá því í fyrra þrátt fyrir fækkun vegna þess að tveir aðilar hafa látist síðasta árið. Á móti kemur að ég hefi eignast fullt af nýjum vinum sem nær undantekningarlaust búa úti í heimi og sjálfsagt að rækta sambandið við. Því verð ég trúlega að semja á jólakort fram eftir nóttu og svo það sem upp á vantar, á föstudag. Ekki veitir af, því kveðjurnar eru þegar farnar að berast mér úr öllum heimshornum.
-----oOo-----
Ég ætla svo að endurbirta athugasemd mína um þennan bryggjukant á Kleppsveginum í von um fleiri athugasemdir en hingað til hafa borist:
Það er búið að reisa heilmikinn bryggjukant á milli Kleppsvegar (íbúðagötunnar) og Sæbrautar (aðalbrautar). Eins og gefur að skilja þegar um gamalt bryggjujárn er að ræða, er hann haugryðgaður og að auki býsna skörðóttur. Ég efa það ekki að ætlunin með þessum bryggjukant langt uppi í landi er annars vegar að hindra börn frá því að fara út á umferðargötuna, hinsvegar minnka hávaðann í blokkunum við Kleppsveginn.
Spurningin er hinsvegar þessi:
Hvað finnst fólki um þennan bryggjukant á þessum stað, útlit hans og fegurðargildi? Ég vil gjarnan fá að heyra álit sem flestra á þessu!
-----oOo-----
Í nótt kemur sá jólasveinninn sem lætur minnst af sér og þolir ekki sviðsljósið, sjálfur Þvörusleikir.
miðvikudagur, desember 13, 2006
14. desember 2006 – Gísli Baldur Garðarsson ...
...hélt því fram í viðtali við fjölmiðla, að verið væri að láta undan háværum kröfum dómstóls götunnar með því að birta forstjórum olíufélaganna ákærur vegna margumrædds olíusamráðs. Vel mælt, enda hafa verið uppi háværar kröfur að draga höfuðpaura málsins fyrir lög og rétt og láta þá svara til saka fyrir afbrot sín.
En hver er þessi dómstóll götunnar? Ekki er það almenningur sem oft á tíðum hefur lítið lagt til málanna samanber margumrætt Baugsmál sem þó er flesta daga í sjónvarpinu, flestum til ama og leiðinda. Er dómstóll götunnar þá kannski Jón Steinar Gunnlaugsson sem tókst að kjafta sig inn á Hæstarétt með réttum samböndum auk allskyns yfirlýsinga á síðum Morgunblaðsins? Eða er það kannski Sveinn Andri Sveinsson sem hefur rekið hvert málið á fætur öðru á vettvangi götunnar með sífelldum yfirlýsingum í fjölmiðlum um sekt eða sakleysi skjólstæðinga sinna? Kannski Gestur Jónsson og fjandvinir hans Jón H.B. Snorrason og Haraldur Johannessen sem hafa rekið hið viðamikla Baugsmál að miklu leyti á skjánum? (Ég vil taka fram að ég hefi ekki séð sömu athyglissýkina hjá stráknum hans Magnúsar heitins á Grafarbakka, enda væri hann þá ekki sonur hins mjög svo hógværa föður síns)
Gísli Baldur Garðarsson hefur ekki verið vanur að reka mál fyrir fjölmiðlum, heldur hefur hann verið manna duglegastur að láta verkin tala sínu máli og verið fremur hógvær á ótímabærar yfirlýsingar. Því þykir mér skjóta skökku við er hann blandar sér skyndilega í hinn eina sanna dómstól götunnar, lögmannahópinn sem rekur mál sín í fjölmiðlum fremur en í réttarsalnum og fer að kveða dóma í sjónvarpi og útvarpi, löngu áður en dómur fellur.
-----oOo-----
Þá er Stúfur væntanlega kominn til byggða. Öfugt við bræður hans tvo sem komu af fjöllum, kom Stúfur frá Namibíu, nokkuð á undan áætlun hefi ég sannfrétt, en samt kominn og veri hann velkominn eins og andlegir bræður hans.
-----oOo-----
Ég vil endilega fá sem flest álit á bryggjukantinum við Kleppsveg samanber færsluna mína frá því 11. desember.
-----oOo-----
Loks fær þýðandi kvikmyndarinnar 100% menneske sem sýnd var í sjónvarpinu á miðvikudagskvöldið falleinkunn fyrir hörmulega þýðingu myndarinnar. Sjálf valdi ég betri söngva en glassúrvæmna ástarsöngva er ég var komin á skurðarborðið og sönglaði Goodbye Cruel World fyrir hjúkkurnar síðasta augnablikið áður en ég kvaddi gamla lífið.
13. desember 2006 – Óskar Bergsson og Framsóknarflokkurinn
Það er orðið langt síðan ég lagði Framsóknarflokkinn síðast í einelti. Kominn tími til að bæta úr því.
Í maí síðastliðnum voru haldnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Annað sæti Framsóknarflokksins vermdi Óskar Bergsson trésmiður eftir að Anna Kristinsdóttir hafði afþakkað sæti á framboðslista flokksins. Reykvíkingar höfnuðu Óskari Bergssyni. Með atkvæðum okkar létum við það heyrast svo ekki væri um villst að við höfnuðum þeim skoðunum sem Óskar Bergsson stóð fyrir, sem og því hvernig hann óð yfir bílastæði fatlaðra á skítugum EXBÉ herjeppanum sínum. Með atkvæðum okkar tilkynntum við stjórnvöldum að við treystum ekki þessum gerspillta stjórnmálaflokki sem var leiddur inn í kosningarnar af aðstoðarmanni manns sem studdi innrás og fjöldamorð í fjarlægu landi.
Það nægði ekki.
Hinn nýi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, dró Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og hlóð á hann bitlingum sem aldrei fyrr. Ekki einungis fékk aðstoðarmaðurinn fyrrverandi ótrúleg völd miðað við atkvæðamagn á bakvið sig, heldur fékk trésmiðurinn sem við höfnuðum algjörlega, tæpar 380 þúsundir í laun á mánuði fyrir setu í Framkvæmdaráði borgarinnar og skipulagsnefnd auk þess sem hann tók að sér skipulagsvinnu fyrir Faxaflóahafnir fyrir litlar 6500 krónur á tímann. Samtals eru þetta 770 þúsundir á mánuði. Var einhver að tala um spillingu?
Nú hanga þeir Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi ættingi minn og félagi hans Óskar Bergsson í pilsfaldi og þiggja völd að launum fyrir stuðning við Sjálfstæðisflokkinn, ef ekki pilsfaldinum hans Villa, þá í pilsfaldi Hönnu Birnu sem er nánast sú eina í borgarstjórnarmeirihlutanum sem hægt er að hanga í pilsfaldinum á. Ekki líst mér á stöðu mála.
-----oOo-----
Ekki get ég skorist undan ættartengslum við annan Framsóknarmann, sjálfa Valgerði Sverrisdóttur, en við erum sexmenningar í beinan kvenlegg, báðar komnar af Brigittu Þorvarðardóttur í Stíflisdal í Þingvallasveit, en slæmar þykja mér fréttirnar sem hún ber okkur af samningaviðræðum sínum við Dani um að þeir taki að sér varnir Íslands.
Við höfum ákaflega slæma reynslu af þeim aðilum sem hafa boðist til að vernda okkur. Sturlungar seldu varnir okkar til Noregs sem síðar framseldu samninginn til Danmerkur og allir vita hvað það kostaði okkur í möðkuðu mjöli. Í gær rakti ég lauslega hina vondu reynslu okkar af Dönum, en við má bæta að Bretar sem gerðu innrás á Ísland árið 1940 sendu síðar herskip á Íslandsmið í þeim tilgangi að knésetja íslensku þjóðina og hagsmunabaráttu hennar í fiskveiðistjórnunarmálum. Samkvæmt blaðinu sem ég las í gær, reyndu Framsóknarmenn að fá Dani til að gæta landhelgi Íslands á fjórða áratugnum, en það tókst ekki. Nú reynir Valgerður að fá þessa sömu bjórþambandi Bauna til að verja okkur. Af fenginni reynslu ber íslensku þjóðinni að hafna öllum tilraunum til að færa valdið yfir landinu og miðunum og loftinu fyrir ofan okkur í hendur þessari þjóð sem kúgaði okkur um margar aldir.
Kannski er kominn tími til að rifja upp orð þjóðhetju vorrar frá þjóðfundinum í gamla Latínuskólanum, er hann mælti: VÉR MÓTMÆLUM ALLIR.
-----oOo-----
Velkominn Giljagaur. Vegna ummæla um Stekkjarstaur en ekki Stekkjastaur í bloggfærslum og dagblöðum gærdagsins spyr ég sem sú sem ekki veit: Af hverju er Bolungarvík ávallt skrifuð sem Bolungarvík, en ekki Bolungavík? Ef ég man rétt, hefi ég ýmist séð nafnið Bolungavík á Ströndum skrifað sem Bolungavík eða Bolungarvík. Hvar eru íslenskufræðingarnir og hvar eru bæjarstjórahjónin í Bolungarvík?
þriðjudagur, desember 12, 2006
12. desember 2006 – Gamall Moggi
Orð Ástu Möller alþingismanns um menningu Íslendinga í "Íslandi í dag" urðu til þess á mánudagskvöldið að ég fór að fletta gömlum Mogga frá 1936 í tilraunum mínum til að finna dæmi um hina löngu bindindismenningu íslensku þjóðarinnar. Það leið ekki á löngu uns ég var komin á kaf í gamlar sögur sem nú endurtaka sig á síðum blaðanna þessa dagana.
Um mannvonsku ritstjóra Ekstrabladet gegn íslensku þjóðinni má lesa, ekki bara á síðum Fréttablaðsins síðustu mánuði, heldur og á síðum Morgunblaðsins og þá sérstaklega 5. júlí 1936 bls 3 auk sérstaks flugublaðs daginn áður sem dreift var um bæinn. Ég ætlaði mér að mynda síðuna, en fórst það illa úr hendi og læt mér því nægja að birta slóðina að greininni:
http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2
Valgerður Sverrisdóttir hefur verið að bera víurnar í dönsku ríkisstjórnina um samstarf í öryggismálum. Slíkt hefur einnig verið gert áður. Danir sáu um varnarmál Íslands í mörg hundruð ár og fórst það illa úr hendi. Voru þeir stundum duglegastir við að beina spjótum sínum að Íslendingum sjálfum sbr. Kópavogsfundinn 1662. Þá voru þeir hvergi nálægir á tímum Tyrkjaráns, þegar Jörundur tók hér völdin árið 1809 né þegar baráttan hófst að gagni um landhelgina um aldamótin 1900. Gengu þá dönsku varðskipin undir heitinu heimalningarnir þar sem þau lágu mest í höfn þegar enskir togarar voru að veiðum upp undir landssteinum.
Árið 1936 vildu ónefndir Framsóknarmenn fara í samstarf við Dani um gæslu landhelginnar og má lesa um það hér:
http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2
Ætli faxtæki með fyrirfram ákveðnum texta um uppgjöf, sömu gerðar og Mogens Glistrup lagði til að komið yrði fyrir á borðum dönsku ríkisstjórnarinnar, sé ekki nægilegt sem helsta landvarnartækið á Íslandi komi til innrásar?
Árið 1936 kom hópur þýskra ferðamanna til Íslands með þýska skemmtiferðaskipinu Milwaukee. Ferðamennirnir sendu frá sér kveðju til íslensku þjóðarinnar, þar sem einn ferðamannanna í hópnum, Gunnar Gunnarsson var hylltur. Þessa kveðju má lesa hér:
http://timarit.is/mbl/?issueID=407255&pageSelected=2
Ekki voru allir Íslendingar jafnhrifnir af þessum þýsku ferðamönnum, því einhverjir máluðu slagorð gegn nasistum utan á annan hafnargarðinn, eða eins og segir á bls 6 í þessu sama Morgunblaði: “Gestir Íslendinga svívirtir af kommúnistabullum”
Í fréttinni segir m.a.:
“Vjer vitum að hinn siðspilti þorparalýður sem sver sig undir blóðmerki kommúnismans svífst einskis til að svívirða foringja Þýskalands. Þótt lítilsigldri ríkisstjórn hafi ekki tekist að hefta þennan óaldarlýð, þá verður þó að krefjast þess að þeir geri ekki þjóðinni skömm með því að svívirða gesti vora.”
Ætli við þurfum nokkuð að efast um afstöðu Morgunblaðsins til heimsmálanna á þessum tíma?
Þess má geta að á þessum tíma sat hér ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks undir forystu Hermanns Jónassonar.
Það verður að smella á myndirnar til að sjá þær stærri.
-----oOo-----
Við getum alltjent fagnað innrás fyrsta jólasveinsins í nótt. Velkominn Stekkjarstaur :)
mánudagur, desember 11, 2006
11. desember 2006 – 2. kafli – Skörðóttur bryggjukantur langt frá sjó
Það er búið að reisa heilmikinn bryggjukant á milli Kleppsvegar (íbúðagötunnar) og Sæbrautar (aðalbrautar). Eins og gefur að skilja þegar um gamalt bryggjujárn er að ræða, er hann haugryðgaður og að auki býsna skörðóttur. Ég efa það ekki að ætlunin með þessum bryggjukant langt uppi í landi er annars vegar að hindra börn frá því að fara út á umferðargötuna, hinsvegar minnka hávaðann í blokkunum við Kleppsveginn.
Spurningin er hinsvegar þessi:
Hvað finnst fólki um þennan bryggjukant á þessum stað, útlit hans og fegurðargildi? Ég vil gjarnan fá að heyra álit sem flestra á þessu!
11. desember 2006 – Týndur sonur snýr heim
Það urðu fagnaðarfundir í Helvíti í gær þegar einn hinna virtustu og duglegustu sona Andskotans snéri heim úr langferð sinni til yfirborðs jarðarinnar. Það var líka talin ástæða til að fagna. Maðurinn hafði komið þúsundum íbúa Chile fyrir kattarnef, en fangelsað og pyntað tugi þúsunda til viðbótar. Í stað þess að gráta mikið örlög þessa manns, læt ég mér nægja að birta hér hluta pistils sem ég birti 11. september fyrir tveimur árum á gamla blogginu:
Ég er að horfa á gamla ljósmynd á netinu. Á myndinni eru þrír heimsþekktir einstaklingar. Einn þeirra er rithöfundurinn og Nobelsverðlaunahafinn Pablo Neruda. Annar er forseti Chile, Salvador Allende. Þriðji maðurinn er ljóðskáldið og söngvarinn Victor Jara. 11. september 1973 var örlagadagur fyrir þessa menn.
11. september gerði herinn uppreisn undir stjórn Augusto Pinochet og byrjaði í hafnarborginni Valpariso. Síðan voru gerðar loftárásir á höfuðborgina Santiago og herinn réðist inn í forsetahöllina þar sem forsetinn beið örlaga sinna. Hann var myrtur með köldu blóði.
Fjöldi fólks var myrtur af hernum á götum úti en öðrum var smalað ínn á íþróttaleikvang í borginni eins og fé í rétt. Þar var fólk pyntað og myrt eftir geðþótta herforingjanna. Meðal hinna handteknu var ljóðskáldið og söngvarinn Victor Jara. Til að tryggja að hann gæti ekki beitt gítarnum fyrir sig í söngvum sínum gegn fasistum, voru hendur hans mölbrotnar. Hann var svo myrtur af herforingjaklíkunni 17. september 1973. Svona verknaður yrði kallaður einbeittur brotavilji ef Augusto Pinochet væri fyrir íslenskum dómstól. Viku síðar lést Pablo Neruda úr hvítblæði þar sem hann var í útlegð. Talið er að morðin á vinum hans og baráttufélögum og hörmungarástandið í Chile þessa hræðilegu daga í september 1973 hafi flýtt fyrir dauða hans.
Í nærri tuttugu ár hélt Pinochet chileönsku þjóðinni í heljargreipum herforingjastjórnarinnar. Er lýðræðisleg stjórn komst aftur til valda reyndi Pinochet að tryggja sér áframhaldandi friðhelgi og gekk það um tíma, en með tímanum sást betur hve stjórnartíð hans hafði verið grimmúðleg og lamað andlegan þrótt þjóðarinnar og kröfur urðu sífellt háværari um að honum yrði refsað fyrir glæpi sína.
Spænskur rannsóknardómari gerði kröfu um framsal Pinochet er sá síðarnefndi var staddur í Englandi 1998. Dómarinn hafði undir höndum nöfn á fjórða þúsunda manna sem herforingjaklíka Pinochet hafði sannanlega myrt þessa örlagadaga 1973. Pinochet komst undan með hjálp enskra ráðamanna. Nú er loks verið að svipta hann friðhelgi svo hægt verði að draga hann fyrir dómarann fyrir ódæðisverk sín.
Í raun veit enginn hversu mörg mannslíf Pinochet hefur á samviskunni. Þau skipta kannski tugum þúsunda. Það verður þó að hafa í huga að Pinochet hefði aldrei getað myrt allan þennan fjölda og haldið landi sínu í helgreipum í áratugi nema fyrir það að hann átti sér trausta bakhjarla við fjöldamorðin. Bakhjarlarnir voru ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þeir hafa krafist þess að við vorkennum þeim hástöfum er þeir verða sjálfir fyrir hryðjuverkum.
Það skulum við gera. Bandaríska þjóðin á það skilið að við vorkennum henni. Henni er vorkunn.
sunnudagur, desember 10, 2006
10. desember 2006 – Lýðheilsustofnunin Stasi
Fyrir nokkrum árum síðan var sett á laggirnar stofnun á Íslandi sem á vinna í anda sumra þeirra verkefna sem Stasi í Austur-Þýskalandi sá um, það er eftirlit með því að alþýða landsins færi ekki framúr sjálfri sér, misþyrmdi hvorki börnum né dýrum, reykti ekki óhóflega og borðaði ekki óhollan mat. Mér skilst að þessi stofnun hafi hlotið heitið Lýðheilsustofnun og er einhver sá versti óskapnaður sem stofnaður hefur verið á Íslandi á eftir leyniþjónustu feðganna Bjarna og Björns.
Lýðheilsustofnun á að gæta þess að fólk reyki sig ekki í hel, borði ekki yfir sig og annað það sem þeim kemur ekkert við, eftirlitsstofnun um hegðun þegnanna. Tóbaksvarnarnefnd var innlimuð í Lýðheilsustofnun og ýmis afskiptasemi af hegðun þegnanna virðist vera innbyggð í þessa furðustofnun .
Nýjasta útspil Lýðheilsustofnunar er að ekki megi lækka gjöld á gosdrykki þar sem þeir eru óhollir. Þessi norsk/austur-þýska afskiptasemi er óþolandi. Ef fólk getur ekki sjálft ákveðið hvað þeim og börnum þeirra er fyrir bestu, er Lýðheilsustofnun enn verri eftirlitsaðili. Hún hefði betur aldrei verið stofnuð og úr því hún hefur verið stofnuð, er best að leggja hana niður hið bráðasta.
-----oOo-----
Hetjur vorar í Halifaxhreppi hafa verið að hrista af sér rykið að undanförnu og vaða nú upp kvenfélagsdeildina eftir að hver ósigurinn á fætur öðrum elti þær í haust. Sitja þær nú í 12. sæti deildarinnar eftir stórsigur á heilögu albínóunum 4-1.
Þá hefur heldur betur orðið viðsnúningur hjá köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps, því þeir hafa verið að tapa leikjum að undanförnu og nú síðast duttu þeir útúr rassvasabikarkeppninni eftir tap í framlengingu gegn einhverju liði af Miðhálendinu sem enginn kann að nefna.
laugardagur, desember 09, 2006
9. desember 2006 - Lífeyrisgreiðslur
Fyrir nokkrum árum síðan byrjaði eitthvert merkilegt æði í þjóðfélaginu. Allt í einu byrjaði þjóðin að spara í svokölluðum séreignarsjóðum. Með því að greiðslur sem námu 0.2 % af heildartekjum lögðust við 2% sem var framlag einstaklingsins og skattgreiðslum frestað af þessum aurum þar til við úttekt, myndaðist ákveðinn stofn sem átti að vera góður að grípa til þegar á þyrfti að halda í ellinni.
Kona ein hlýddi þessum góðu ráðum sem jakkafataklæddir ungir menn ráðlögðu henni og lagði fyrir í séreignarsparnað. Þegar hún var hætt að vinna og taldi sig þurfa á peningum að halda og ætlaði að taka út þessar 400.000 krónur sem hún átti inni, reyndust þær aðeins vera 9.000 krónur vegna tekjutengingarákvæða.
Ég skrifaði heilmikla drápu um þennan lífeyrissparnað um daginn, en birti ekki strax. Síðan það var, hefur verið ákveðið að gera nokkrar breytingar á séreignarlífeyri svo að þau mistök sem gerð voru, muni ekki endurtaka sig.
Ég er í hópi þess fólks sem lagði fyrir á þennan hátt og á nú rúmlega hálfa aðra milljón í séreignarsparnaði. Þrátt fyrir þessar nýju reglur sem á að setja, sýnist mér sem að það borgi sig fyrir mig að taka út allan lífeyrissparnaðinn um leið og ég næ sextugu og leggja inn á venjulegan bankareikning.
Eftir allt saman virðist sem lífeyristryggingin mín sem ég keypti hjá ónefndum tryggingasala og sem ég taldi mig stórtapa á í upphafi, sé sú eina sem ætlar að skila raunverulegum sparnaði til framtíðar.
Það er svo önnur saga að það var haldið kaffiboð fyrir eftirlaunafólk Orkuveitunnar á fimmtudag og öll bílastæðin fylltust af flottum jeppum.
-----oOo-----
Maggi mágur fær svo hjartanlega afmæliskveðjur með 62 ára afmælið. Karlkvölin þarf að fara til Jótlands um jólin ásamt systur minni að mála nýja húsið sem þau voru að kaupa og ætla að búa í á elliárunum. Þó kunna þau, held ég, ekki orð í dönsku. Flott hjá þeim.
-----oOo-----
Ekki mun fuglasöngur heyrast um himinhvolfin þessa helgina eins og áætlað var, en Christer Fuglasöngur (Fuglesang) frá Svíþjóð er á leið í sína fyrstu geimferð. Henni var frestað vegna veðurs.
föstudagur, desember 08, 2006
8. desember 2006 – Tilraun til leti
Ég ákvað í gær að taka mér nokkurra klukkustunda frí frá bloggi og setti því enga færslu inn á miðnætti eins og ég er vön. Það er skemmst frá að segja að engin kvörtun hefur enn borist og styður það tilgátu mína þess efnis að blogg mitt sé bæði hugmyndasnautt og leiðinlegt. Þetta gefur mér um leið tækifæri til að taka mér frí dag og dag, enda erfitt að halda úti daglegum bloggfærslum 365 daga á ári.
Orð mín má þó alls ekki túlka sem svo að til standi að hætta, heldur einungis að fækka bloggfærslum úr 31 í 30 á mánuði. Eða var ástæðan kannski sú að ég var á aukalegri næturvakt í nótt á stað þar sem enginn er veraldarvefurinn, bara veröldin sjálf?
miðvikudagur, desember 06, 2006
7. desember 2006 – Átthagafjötrar
Ég er enn í rusli eftir síðustu ferð mína til Evrópu. Ekki er það vegna þess að ferðin hafi verið neitt leiðinleg, langt í frá, né heldur að þjónustan hafi verið neitt slök. Hinsvegar finnst mér það fáránlegt að ferðin með “lággjaldafélaginu” Æsland Express skuli hafa verið helmingur kostnaðar við ferðina að áfengi og fríhafnarverslun frátalinni. Farmiðinn með Æsland Express kostaði með öðrum orðum jafnmikið og ferð með Ryan Air frá Englandi til Ítalíu og til baka aftur auk þriggja nótta á hóteli á Ítalíu og einnar nætur á hóteli í Stansted.
Það hefur verið rekinn vægðarlaus áróður gegn Ryan Air í löndum Evrópu á undanförnum árum, sumt kannski satt, en annað sem hljómar eins og neikvæður áróður samkeppnisaðila. Það er vissulega satt að ýmsar verklagsreglur félagsins og annarra slíkra, yrðu túlkaðar sem ákaflega neikvæðar útfrá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar. Ég neita hinsvegar að trúa því að þeir brjóti alvarlega gegn kjarasamningum og vinnuálagi, enda er Írland í Evrópusambandinu og slíkt yrði ekki liðið til langframa þar.
Þessa dagana hrynja inn allskyns jólatilboð frá Ryan Air inn á netfangið mitt sem og samstarfsfélögum þeirra, hótelum og bílaleigum þar sem allskyns jólatilboð eru í gangi auk ferða til flugvalla í mestallri Evrópu og Norður-Afríku fyrir innan við 5000 krónur báðar leiðir. Af reynslunni veit ég að þeim er alvara og að þessi tilboð eru ekkert grín. Sömuleiðis veit ég að margar vélarnar eru nýlegar og þokkalegar að innan og þjónustan ekkert síðri en hjá öðrum lággjaldafélögum og “lággjaldafélögum”. Vandamálið er bara að komast frá Íslandi og eitthvert þangað sem boðið er upp á ódýr fargjöld.
Með þessum orðum óska ég þjóðinni þess að Ryan Air byrji sem fyrst að fljúga til Íslands sem jólagjöf ársins og losi okkur undan vistarböndunum.
6. desember 2006 – Ekki stóð sælan lengi
Í fréttum á þriðjudagskvöldið kom Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og hélt því fram að nóg væri að gera svokallaðan tveir+einn veg austur að Selfossi og með dósaskera á milli akbrauta. Þar sem hann telst vera undirmaður samgönguráðherrans, er ég ekki í nokkrum vafa um að þessi framsetning hans er sett fram að undirlagi Sturla Böðvarssonar sem aldrei hefur ætlað sér að efna orð sín um tvöföldun Suðurlandsvegar. Með útreikningum sínum og gröfum sýndi hann svo ekki verður um villst, að tvöfaldur Suðurlandsvegur verður ekkert öruggari en fyrri tillaga hans með dósaskerann. Sjálf dundaði ég mér við að gera annað svona graf og sannfærðist um að eina lausnin er tvöfaldur vegurinn því hver sem er getur gert slíkt graf ef engar staðreyndir liggja á bakvið. Það er hinsvegar ljóst að alvarlegum slysum á Reykjanesbraut á milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur hefur stórfækkað með því að hluti vegarins var gerður tvöfaldur.
Það skiptir kannski litlu máli hvað ég eða almenningur í þessu landi krefst. Lestarstjórarnir eru risnir upp á afturlappirnar með Jón Rögnvaldsson í broddi fylkingar og sjá ekkert athugavert við tillögur hans og vilja jafnvel lækka umferðarhraðann enn frekar. Það er svo aftur umhugsunarefni hversu mjög fólk forðast að aka Suðurlandsveginn til Selfoss. Sjálf hefi ég átt erindi þangað í allt haust, en hefi ekki nennt að sitja í langri og hægfara bílalest á leiðinni og sleppi því frekar að fara austur þar til ég verð búin að safna svo mörgum erindum í eina ferð að ég geti eytt degi í að fara austur, ljúka erindum mínum og aka heim aftur. Þarna klikkar Rögnvaldsson þegar hann talar um umferðarþunga. Hann gerir ekki ráð fyrir hinni auknu umferð sem skapast af betra vegakerfi. Við þurfum ekki annað en að skoða þá miklu breytingu á lífsháttum Vestlendinga sem áttu sér stað með tilkomu Hvalfjarðarganga.
Af einhverjum ástæðum fóru afgamlar Zoëgabeygjur um huga minn. Geir G. Zoëga var vegamálastjóri á árunum 1917 – 1956 og á meðal vegaframkvæmda sem gerðar voru að hans undirlagi voru svonefndar Zoëgabeygjur, en í þeim tilgangi að draga úr umferðarhraða við brýr, voru jafnan hafðar beygjur að brúnum. Frægastar þeirra voru beygjurnar í ofanverðum Borgarfirði. Mest umtöluð var brú yfir Gljúfurá í Stafholtstungum sem var aflögð fyrir aðra nýrri haustið 1962. Hún var þó byggð fyrir tíð Zoëga vegamálastjóra. Í grein eftir Baldur Þór Þorvaldsson verkfræðing og brúahönnuð í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar bls 9, sést gjörla hverskonar manndrápsmannvirki var á þessum stað, en auðvelt var fyrir ókunnuga að villast á vegmerkingum og aka beint út í ána í stað þess að taka fjórar beygjur að og frá brúnni. Ef mig misminnir ekki, var lokaatriði kvikmyndarinnar 79 af Stöðinni tekið á þessum stað, en slæmt slys var þarna árið 1946 er áætlunarbifreið valt þarna og fimmtán manns slösuðust. Þá fórst hópur breskra hermanna er bifreið þeirra lenti ofan í ánni á stríðsárunum. Sjálf man ég vel eftir nokkrum brúm í ofanverðum Borgarfirði sem voru lítt betri, en aflagðar í lok áttunda áratugs tuttugustu aldar.
þriðjudagur, desember 05, 2006
5. desember 2006 – Það var eins og blessuð skepnan skildi
Í gær flutti ég hinn hatrammasta áróður gegn Sturla Böðvarssyni samgönguráðherra, en vart hafði ég sent þetta út á netið,er blessaður drengurinn dró í land svo eftir var tekið og benti á að hægt væri að tvöfalda Suðurlandsveg til Selfoss og Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum á næstu fjórum árum. Þegar haft er í huga að Vegagerðin hefur ekki heyrt af þessari nýju framkvæmdagleði samgönguráðherrans, verður spurningin sú hvort hann telji ekki nóg að hægt sé að tvöfalda umrædda vegi. Þannig verður hægt að nota þetta sem kosningaloforð við tvennar Alþingiskosningar.
Annað klúður samgönguráðherrans var í kvöldfréttum útvarpsins. Það var þrenging vikmarka við hraðakstur. Með því að þrengja vikmörkin niður í 5 km/h í stað 10km/h staðfesti þessi sami samgönguráðherra að honum væri skítsama um ofsaakstur, heldur væri tilgangurinn sá eini að auka tekjur Lögreglukórsins með fjölgun sekta þeirra sem telja sig aka á löglegum hraða eins og ég benti reyndar á fyrir nokkru hér á blogginu. Nú hefur Guðlaugur Jónasson rafmagnsverkfræðingur og sérfræðingur í mælitækni bæst í hóp þeirra sem mótmæla þessari þrengingu vikmarka. Sjálf mun ég ekki hika við að mótmæla kröfunni og senda í dóm, verði ég uppvís að því að aka rétt yfir hámarkshraða.
Sjálf held ég að einu Hólmararnir sem ekki munu óska þess að Sturla Böðvarsson verði sendur heim til föðurhúsanna vestur í Ólafsvík, séu bílhræddur faðir minn heitinn og Árni fyrrum símstöðvarstjóri.
-----oOo-----
Ég þurfti að skreppa með uppáhaldsvetrarstígvélin mín, þessi sem kennd eru við Pertti og voru fundin upp í Vetrarstríðinu forðum daga, í hressingu í gær og notaði tækifærið og bauð Hrafnhildi ofurkisu að fara út í garð á meðan ég væri í burtu. Þegar ég kom heim aftur var hún hvergi sjáanleg. Vinkona hennar í þarnæsta stigagangi var hinsvegar á vappi úti í garði og datt mér helst til hugar að Hrafnhildur væri að gæta kettlinganna á meðan.
Svo leið kvöldið og hvergi sást Hrafnhildur. Ég fór að hafa áhyggjur. Þegar klukkan var farin að ganga ellefu um kvöldið tók ég mig til og fór að hlusta öll skúmaskot í nágrenninu og heyrði þá ámáttlegt mjálm úr læstri hjólageymslunni í næsta stigagangi. Ég fékk einn nágrannann til að opna hjólageymsluna fyrir mig og sleppa Hrafnhildi úr prísundinni og hún reigði sig og strunsaði í burtu uppfull fyrirlitningar á björgunarfólki sínu. Núna harðneitar hún að leggjast hjá mér og dást að bloggfærslu minni eins og hún gerir venjulega.
mánudagur, desember 04, 2006
4. desember 2006 – 2. kafli – Glaumbær brann og fólkið fann ...
Þar sem ég lá hálfsofandi uppi í rúmi í morgun með útvarpið í gangi heyrði ég viðtal við Ástu Ragnheiði fyrrum plötusnúð í Glaumbæ í tilefni þess að liðin eru 35 ár frá því þessi frægasti skemmtistaður Íslandssögunnar brann og gamlar minningar rifjuðust upp frá unglingsárunum.
Ég kom nokkrum sinnum í Glaumbæ þegar ég var 18 og 19 ára, ekkert mjög oft, enda stundaði ég sjó á þessum aldri og sjaldan í landi um helgar. Aldurstakmarkið var 20 ár um helgar, en á fimmtudögum var öllu frjálslegra og miðaðist við 18 ár. Það breytti ekki því að Jón Hildiberg frændi minn vann í Glaumbæ og laumaði mér inn í gegnum eldhúsið þegar hann varð var við mig í biðröðinni í portinu að reyna að komast inn.
Sjálfri þótti mér staðurinn ekkert sérstakur af tískustað að vera. Mér þótti Klúbburinn við Borgartún öllu skemmtilegri þótt mun eldra fólk stundaði hann á þessum tíma. Og svo voru náttúrulega Röðull og Þórskaffi sem höfðuðu meira til þeirra sem stunduðu vinnu á óhefðbundnum tímum, sjómenn og vaktavinnufólk.
Veturinn 1971-1972 var ég langdvölum í millilandasiglingum og kom ekki heim nema dagspart tvisvar eða þrisvar allan veturinn. Því olli Glaumbæjarbruninn mér engum sérstökum sárindum eða nostalgíuminningum, nema þá helst fyrir það mig vantaði enn nokkra daga í að verða lögleg þar inni þegar hann brann. Það var því ekki fyrr en veturinn á eftir sem ég var komin á skólabekk að nýju sem ég varð fyrst fyrir áfalli vegna Glaumbæjarbrunans. Það var þegar ég uppgötvaði að það var komin alltof löng röð fyrir utan Klúbbinn sem nú var orðinn vinsælasti staðurinn í bænum og sem hann var næsta áratuginn á eftir.
Það er svo aftur önnur saga sem ég veitti litla eða enga athygli þegar risastóru diskótekin sungu sitt síðasta og tími litlu skemmtistaðanna tók við.
4. desember 2006 – Um tvöföldun Suðurlandsvegar
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag var rætt við Ágúst Mogensen sem vildi aðgreina bílaumferð í hvora átt á einföldum Suðurlandsveginumveginum. Um leið var þess getið að ekki væri á áætlun hjá Vegagerðinni að tvöfalda Vesturlandsveginn eða Suðurlandsveginn á næstu árum, en gera tveir+einn veg á nokkrum köflum á veginum. Þetta voru vond tíðindi, en þó ekki óvænt því í Samgönguráðuneytinu situr gamall karlfauskur sem berst hatrammlega gegn öllum samgöngubótum í nágrenni við Reykjavík.
Það er löngu kominn tími til að ráðast í Sundabraut og tvöföldun þjóðveganna frá Reykjavík til Borgarness og frá Reykjavík að Hellu. Fjöldi hagsmunaaðila hefur krafist þessara samgöngubóta og jafnvel boðist til að byrja framkvæmdir án þátttöku ríkisins. Það mun hinsvegar ekki ske á meðan Sturla Böðvarsson er samgönguráðherra. Því er nauðsynlegt að losna við hann sem fyrst. Vonandi losnar þjóðin við hann úr Samgönguráðuneytinu og ekki seinna en eftir Alþingiskosningarnar í vor.
Alfreð Þorsteinsson lagði til á sínum tíma, að vegurinn austur fyrir fjall verði lýstur upp, en talaði þar fyrir daufum eyrum samgönguyfirvalda sem og Vegagerðarinnar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt í ljósi þess að ljósastaur réðist á ónefndan sveitastjórnarmann á Suðurlandi þegar hann var á ferð í nágrenni við ljósastaur í Reykjavík á síðastliðnu vori. Þótt ljósastaurinn hafi einungis gert það í sjálfsvörn, finnst flokksbróður sveitastjórnarmannsins sem situr í Samgönguráðuneytinu óþarfi að auka á hættuna á fleiri slíkum árásum með fjölgun ljósastaura í framtíðinni.
Sjálf var ég á ferðinni í Borgarfjarðarsýslu á laugardagskvöldið og fannst orðið óþægilegt að aka um í myrkrinu vegna dimmviðris á leið sem ég þekkti lítið til, þ.e. frá Akranesi og út að þjóðveginum til Borgarness. Hin fjölförnu vegamót Akranesvegar við þjóðveg nr 1 sem og vegamót Hvalfjarðarstrandarvegar voru ljóslaus og í myrkri. Það ætti ekki að vera mikið mál að lýsa upp jafnmikilvæga punkta í umferðarkerfinu. Vonandi verður það gert um leið og við fáum nýjan samgönguráðherra.
-----oOo-----
Allt frá barnæsku hefi ég heyrt að jólasveinarnir séu þrettán og byrji að koma til byggða þrettán dögum fyrir jól. Mér finnst það góður siður svo ekki sé talað um þann sparnað sem slíkur siður hefur í för með sér fyrir foreldra, að þurfa ekki að leika jólasvein löngu áður en Stekkjastaur byrjar að gefa í skóinn.
Það er því hið versta mál að einhverjir gerfijólasveinar sem enn eru á fjöllum séu að syngja og tralla fyrir blessuð börnin fyrir framan Alþingishúsið heilli viku áður en sá fyrsti kemur til byggða. Það ætti að vera nóg að sýna Vilhjálm borgarstjóra og Sturlu samgönguráðherra svo blessuð börnin sannfærist um tilvist jólasveinanna.
sunnudagur, desember 03, 2006
3. desember 2006 – Afmæli
Kæru lesendur. Þið þurfið ekkert að óttast. Ég á ekki afmæli fyrr en eftir 27 daga og það er bara hálfur tugur svo þið þurfið ekki byrja að leggja í stóran söfnunarsjóð fyrir afmælisgjöfinni minni. En ég fór í afmæli í Borgarnesi á laugardagskvöldið. Vor ágæta bloggvinkona og göngufélagi Guðrún Vala var að halda upp á fertugsafmælið og að sjálfsögðu var ég þar. Líka Gurrí blaðakona, en ekki Gurrý, af Skipaskaga.
Það var vel veitt og ræður fluttar og af ræðuflutningi sannfærðist ég enn frekar um að Guðrún Vala er ekki bara úr Dölunum, heldur ofvirk að auki. Slík er atorkan og sífellt hungur í að læra meira og meira. Ekki teljumst við skyldar, en ættir okkar tengjast á dálítið óvenjulegan hátt. Ingveldur föðursystir Guðrúnar Völu var nefnilega ráðskona hjá Magnúsi ömmubróður mínum og átti með honum eina dóttur.
Þar sem setið var í góðu yfirlæti var einhver að spyrja mig um starf mitt hjá Orkuveitunni. Ég sagði eins og var að ég væri búin að starfa þar í tíu ár og varð svo að hugsa mig um því víst átti ég afmæli. Fyrsti starfsdagur minn hjá Hitaveitunni, síðar Orkuveitunni, var nefnilega mánudagurinn 2. desember 1996 og eru því komin tíu ár frá því ég hóf þar störf.
laugardagur, desember 02, 2006
2. desember 2006 – Í tilefni af símahlerunum...
Ég skrapp á Næstabar á föstudagskvöldið, hitti meðal annara Uppsaladömuna okkar, Þórdísi sem býr í Norðurmýri. Áður hafði ég rekist á mest hleruðu manneskju Íslandssögunnar, sjálfa vinkonu mína Birnu Þórðardóttur. Birna var þreytt enda alþjóðaalnæmisdagurinn að baki og á leið heim eftir erfiðan dag. Ég náði þó að spyrja hana um hleranir og Birna hló. Hún þurfti ekki að segja neitt, enda vafalaust vel kunnug hlerunum öll þessi ár. Sjálfri datt mér í hug ágæt saga sem mér barst á dögunum:
Gamall maður af arabískum ættum og sem búið hefur í Bandaríkjunum í áratugi ætlar að setja niður kartöflur í garðinn sinn eins og hann hefur gert í fjölda ára, en kemst þá að því að hann er orðinn of gamall og bakveikur til að standa í að plægja kartöflugarðinn sinn. Hann sest þá við tölvuna sína og sendir bréf í gegnum netið til Ahmeds sonar síns sem er við nám í Frakklandi:
“Kæri Ahmed!
Ég óttast að ég ráði ekki við að plægja kartöflugarðinn okkar til að setja niður kartöflur í hann. Ég er viss um að ef þú værir hér, þyrftum við ekki að hafa áhyggjur af þessu því þú gætir auðveldlega plægt garðinn áður en ég set niður kartöflurnar.”
Daginn eftir fær gamli maðurinn bréf í gegnum internetið:
“Elsku besti faðir minn.
Gerðu það fyrir mig, ekki plægja garðinn. Það er þar sem ég geymdi, þú veist.
Þinn trausti sonur Ahmed.”
Klukkan fjögur morguninn eftir mætir lögreglan í bænum á staðinn ásamt fulltrúum frá FBI, CIA, þjóðvarðliðinu og landgönguliðinu ásamt Steven Seagal, Sylvester Stallone, Clint Eastwood og Bruce Willis og þeir grafa og grafa og þeir snúa kartöflugarðinum upp og niður í leit að sprengiefni, skotfærum, vélbyssum og öðru hættulegu. Að lokum gefast þeir upp og hverfa á braut án þess að finna neitt.
Um kvöldið kemur nýtt bréf frá syninum:
“Elsku besti faðir minn.
Ég reikna með að kartöflugarðurinn sé núna tilbúinn fyrir útsæðið”
Þinn trausti sonur Ahmed”
föstudagur, desember 01, 2006
1. desember 2006 – Jólagjafalistinn
Það er dálítið snemmt að óska sér einhvers í jólagjöf, en ég ætla samt að gera það. Þá getur fólkið ákveðið í tíma hvernig það getur verslað bókina mína. Jólagjöf ársins í ár heitir Óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Svo langar mig líka í bókina um hana Rögnu á Laugabóli, enda algjör kjarnorkukerling sem hefur séð það versta í lífinu og samt haldið haus. Bara svo þið vitið af því.
Jú eitt enn. Mér áskotnaðist bókagjöf í dag, kannski ekki fyrir mig sjálfa sem á þessar ágætu bækur í safni mínu, en Ættfræðifélagið mun örugglega hafa gagn af þessum bókum til framtíðar. Af sérstökum ástæðum vil ég ekki nefna gefandann fyrr en síðar, en þær mæðgur munu njóta þakklætis í hugum þeirra sem munu grúska í bókasafni Ættfræðifélagsins.