Það urðu fagnaðarfundir í Helvíti í gær þegar einn hinna virtustu og duglegustu sona Andskotans snéri heim úr langferð sinni til yfirborðs jarðarinnar. Það var líka talin ástæða til að fagna. Maðurinn hafði komið þúsundum íbúa Chile fyrir kattarnef, en fangelsað og pyntað tugi þúsunda til viðbótar. Í stað þess að gráta mikið örlög þessa manns, læt ég mér nægja að birta hér hluta pistils sem ég birti 11. september fyrir tveimur árum á gamla blogginu:
Ég er að horfa á gamla ljósmynd á netinu. Á myndinni eru þrír heimsþekktir einstaklingar. Einn þeirra er rithöfundurinn og Nobelsverðlaunahafinn Pablo Neruda. Annar er forseti Chile, Salvador Allende. Þriðji maðurinn er ljóðskáldið og söngvarinn Victor Jara. 11. september 1973 var örlagadagur fyrir þessa menn.
11. september gerði herinn uppreisn undir stjórn Augusto Pinochet og byrjaði í hafnarborginni Valpariso. Síðan voru gerðar loftárásir á höfuðborgina Santiago og herinn réðist inn í forsetahöllina þar sem forsetinn beið örlaga sinna. Hann var myrtur með köldu blóði.
Fjöldi fólks var myrtur af hernum á götum úti en öðrum var smalað ínn á íþróttaleikvang í borginni eins og fé í rétt. Þar var fólk pyntað og myrt eftir geðþótta herforingjanna. Meðal hinna handteknu var ljóðskáldið og söngvarinn Victor Jara. Til að tryggja að hann gæti ekki beitt gítarnum fyrir sig í söngvum sínum gegn fasistum, voru hendur hans mölbrotnar. Hann var svo myrtur af herforingjaklíkunni 17. september 1973. Svona verknaður yrði kallaður einbeittur brotavilji ef Augusto Pinochet væri fyrir íslenskum dómstól. Viku síðar lést Pablo Neruda úr hvítblæði þar sem hann var í útlegð. Talið er að morðin á vinum hans og baráttufélögum og hörmungarástandið í Chile þessa hræðilegu daga í september 1973 hafi flýtt fyrir dauða hans.
Í nærri tuttugu ár hélt Pinochet chileönsku þjóðinni í heljargreipum herforingjastjórnarinnar. Er lýðræðisleg stjórn komst aftur til valda reyndi Pinochet að tryggja sér áframhaldandi friðhelgi og gekk það um tíma, en með tímanum sást betur hve stjórnartíð hans hafði verið grimmúðleg og lamað andlegan þrótt þjóðarinnar og kröfur urðu sífellt háværari um að honum yrði refsað fyrir glæpi sína.
Spænskur rannsóknardómari gerði kröfu um framsal Pinochet er sá síðarnefndi var staddur í Englandi 1998. Dómarinn hafði undir höndum nöfn á fjórða þúsunda manna sem herforingjaklíka Pinochet hafði sannanlega myrt þessa örlagadaga 1973. Pinochet komst undan með hjálp enskra ráðamanna. Nú er loks verið að svipta hann friðhelgi svo hægt verði að draga hann fyrir dómarann fyrir ódæðisverk sín.
Í raun veit enginn hversu mörg mannslíf Pinochet hefur á samviskunni. Þau skipta kannski tugum þúsunda. Það verður þó að hafa í huga að Pinochet hefði aldrei getað myrt allan þennan fjölda og haldið landi sínu í helgreipum í áratugi nema fyrir það að hann átti sér trausta bakhjarla við fjöldamorðin. Bakhjarlarnir voru ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þeir hafa krafist þess að við vorkennum þeim hástöfum er þeir verða sjálfir fyrir hryðjuverkum.
Það skulum við gera. Bandaríska þjóðin á það skilið að við vorkennum henni. Henni er vorkunn.
mánudagur, desember 11, 2006
11. desember 2006 – Týndur sonur snýr heim
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli