föstudagur, desember 22, 2006

22. desember 2006 – Eitt ár hjá Blogspot

Fyrir ári síðan skipti ég um blogg, fór frá Blog.central og byrjaði að skrá vandamál mín á Blogspot.com. Ástæðurnar komu ekki af góðu. Þegar ég byrjaði að blogga á Blog.central voru engar auglýsingar þar, en þegar ég gafst upp tæpu hálfu öðru ári síðar, blikkaði auglýsingafárið eins og jólatré. Að auki var farið að innheimta gjald fyrir færslurnar og ýmsum atriðum miskunnarlaust ýtt til hliðar væri ekki nóg pláss á servernum. Blog central var einfaldlega orðið peningaplokk. Þá gafst ég upp og færði mig yfir á Blogspot.com.

Á þessum 365 dögum hefi ég sett inn sléttar 400 færslur og er þetta færsla númer 401. Á þessu ári hefi ég fengið 60740 heimsóknir inn á síðuna sem svarar til 166.4 heimsóknir á dag að jafnaði. Auk þeirra hafa sumir óvart villst inn á Blog.central, en um 15000 gestir hafa villst þangað inn á þessum tíma svo heildarfjöldinn þar er 76984 er þessi orð eru rituð. Ég hefi verið að prófa mig áfram með önnur blogg, en ekkert þeirra hefur enn náð að uppfylla væntingar mínar nægilega til að ég færi alfarið þangað yfir.

-----oOo-----

Ég eyddi fimmtudeginum í jólagjafakaup og jólagjafadreifingu og svo fór ég með bókina um Möggu til Þórunnar Hrefnu og fékk hana áritaða (Takk Tóta). Þrátt fyrir mikið stress í umferðinni tókst mér að komast allra minna ferða klakklaust. Ég viðurkenni þó þá hræðilegu yfirsjón að stela bílastæði frá manni á gömlum jeppa sem einnig ætlaði að leggja í sama stæðið við Sjóvá rétt hjá Kringlunni. Ég skammast mín alveg eins og kleina, en um leið verður að viðurkennast að maðurinn hikaði líka eins og hann biði þess að sjá hvað ég myndi gera. Ef hann skyldi lesa þessi orð mín, vil ég láta það koma fram að ég er uppfull iðrunar ;)


0 ummæli:







Skrifa ummæli