sunnudagur, desember 10, 2006

10. desember 2006 – Lýðheilsustofnunin Stasi

Fyrir nokkrum árum síðan var sett á laggirnar stofnun á Íslandi sem á vinna í anda sumra þeirra verkefna sem Stasi í Austur-Þýskalandi sá um, það er eftirlit með því að alþýða landsins færi ekki framúr sjálfri sér, misþyrmdi hvorki börnum né dýrum, reykti ekki óhóflega og borðaði ekki óhollan mat. Mér skilst að þessi stofnun hafi hlotið heitið Lýðheilsustofnun og er einhver sá versti óskapnaður sem stofnaður hefur verið á Íslandi á eftir leyniþjónustu feðganna Bjarna og Björns.

Lýðheilsustofnun á að gæta þess að fólk reyki sig ekki í hel, borði ekki yfir sig og annað það sem þeim kemur ekkert við, eftirlitsstofnun um hegðun þegnanna. Tóbaksvarnarnefnd var innlimuð í Lýðheilsustofnun og ýmis afskiptasemi af hegðun þegnanna virðist vera innbyggð í þessa furðustofnun .

Nýjasta útspil Lýðheilsustofnunar er að ekki megi lækka gjöld á gosdrykki þar sem þeir eru óhollir. Þessi norsk/austur-þýska afskiptasemi er óþolandi. Ef fólk getur ekki sjálft ákveðið hvað þeim og börnum þeirra er fyrir bestu, er Lýðheilsustofnun enn verri eftirlitsaðili. Hún hefði betur aldrei verið stofnuð og úr því hún hefur verið stofnuð, er best að leggja hana niður hið bráðasta.

-----oOo-----

Hetjur vorar í Halifaxhreppi hafa verið að hrista af sér rykið að undanförnu og vaða nú upp kvenfélagsdeildina eftir að hver ósigurinn á fætur öðrum elti þær í haust. Sitja þær nú í 12. sæti deildarinnar eftir stórsigur á heilögu albínóunum 4-1.

Þá hefur heldur betur orðið viðsnúningur hjá köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps, því þeir hafa verið að tapa leikjum að undanförnu og nú síðast duttu þeir útúr rassvasabikarkeppninni eftir tap í framlengingu gegn einhverju liði af Miðhálendinu sem enginn kann að nefna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli