fimmtudagur, desember 28, 2006

28. desember 2006 – If you can´t beat them, join them

Ég hefi verið að velta fyrir mér ástæðum þess að Stefán Pálsson hefur hafið harðan áróður gegn Moggabloggi að undanförnu. Lengi vel veitti ég áróðri hans ekki athygli sökum þess að netþjónninn sem Stefán notaðist við, lá niðri oft á tíðum og stundum dögum saman. Ekki var það til að bæta úr að auk skráðra bloggvina á síðunni minni, notaðist ég talsvert við Mikka vef til að skoða skemmtilegar bloggsíður, en Mikki vefur hefur nú verið í lamasessi í nokkrar vikur. Á sama tíma hefur vefútgáfa Morgunblaðsins hafið að birta valdar bloggfærslur sem blómstra eins og púkinn á fjósbitanum.

Ég fór að skoða þessar bloggfærslur af Moggabloggi sem birtust á vefMogga og varð fljótt ljóst að þar komu saman sérstakir góðvinir Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins. Að vísu brá fyrir stöku aðila sem ekki var í flokknum eins og Birni Inga og Guðmundi Steingrímssyni en munurinn á þeim og íhaldinu er næfurþunnur, eða eins og ónefndur aðili sagði, eins og munurinn á kúk og skít. Þannig er ljóst að sumir vinstrimenn sem halda úti mjög vinsælu bloggi, menn eins og Páll Ásgeir, bræðurnir Jakobsson og Stefán Pálsson eru aldrei nefndir í vefMogganum. Ég fæ á tilfinninguna að Morgunblaðið sé með birtingu Moggabloggs, að byggja upp hægrisinnað kerfisblogg sem andstöðu við grasrótina sem einkennt hefur bloggheiminn öðru fremur. Allavega fæ ég lítið út úr Moggabloggi þar sem sem Heimdellingarnir og aðrir íhaldsmenn (þar með talinn Björn Ingi fyrrverandi ættingi minn) eru að skrifa sama pistilinn með lítt breyttu orðalagi.

Það er ljóst að Mogginn hefur ákveðið að vinna með sínum bloggurum og reyna þannig að vinna blogglesendur á sitt band út frá gömlu reglunni: “If you can´t beat them, join them”. Í ljósi þessa get ég ekki annað en verið Stefáni sammála og mun sjálf halda áfram á blogspot sem hingað til, en einungis birta leiðinlegt blogg á Moggabloggi. Fyrir þá fáu lesendur mína sem halda að þeir missi af einhverju, vil ég taka fram, að allir pistlar sem ég set á Moggablogg, munu einnig birtast á mínu bloggi, þ.e.:

http://velstyran.blogspot.com

Að auki munu svo birtast pistlar hér sem ekki birtast á Moggabloggi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli