föstudagur, desember 15, 2006

15. desember 2006 – Jólakortin og skörðótti bryggjukanturinn

Ég hefi setið allt fimmtudagskvöldið og skrifað á jólakort. Ekki get ég sagt að þeim hafi fækkað mikið frá því í fyrra þrátt fyrir fækkun vegna þess að tveir aðilar hafa látist síðasta árið. Á móti kemur að ég hefi eignast fullt af nýjum vinum sem nær undantekningarlaust búa úti í heimi og sjálfsagt að rækta sambandið við. Því verð ég trúlega að semja á jólakort fram eftir nóttu og svo það sem upp á vantar, á föstudag. Ekki veitir af, því kveðjurnar eru þegar farnar að berast mér úr öllum heimshornum.

-----oOo-----

Ég ætla svo að endurbirta athugasemd mína um þennan bryggjukant á Kleppsveginum í von um fleiri athugasemdir en hingað til hafa borist:

Það er búið að reisa heilmikinn bryggjukant á milli Kleppsvegar (íbúðagötunnar) og Sæbrautar (aðalbrautar). Eins og gefur að skilja þegar um gamalt bryggjujárn er að ræða, er hann haugryðgaður og að auki býsna skörðóttur. Ég efa það ekki að ætlunin með þessum bryggjukant langt uppi í landi er annars vegar að hindra börn frá því að fara út á umferðargötuna, hinsvegar minnka hávaðann í blokkunum við Kleppsveginn.

Spurningin er hinsvegar þessi:
Hvað finnst fólki um þennan bryggjukant á þessum stað, útlit hans og fegurðargildi? Ég vil gjarnan fá að heyra álit sem flestra á þessu!

-----oOo-----

Í nótt kemur sá jólasveinninn sem lætur minnst af sér og þolir ekki sviðsljósið, sjálfur Þvörusleikir.


0 ummæli:







Skrifa ummæli