fimmtudagur, desember 21, 2006

21. desember 2006 - 2. kafli - Sorgarfréttir á Morgunblaðinu

Á liðnu hausti barst sú fregn út til allrar heimsbyggðarinnar, að heimsmethafinn geðþekki í kappakstri, hinn óumdeilanlega fremsti ökumaður allra tíma, hinn aldurhnigni Michael Schumacher, hygðist leggja stýrið á hilluna og taka upp heilnæmari og hógværari lífshætti. Þótt þessi tilkynning kæmi fáum á óvart, olli hún mikilli sorg, ekki einungis hjá okkur aðdáendum hans, en einnig og öllu frekar á íþróttadeild Morgunblaðsins þar sem íþróttafréttaritarinn og aðdáandi Schumachers númer eitt hefur síðan þetta var, ekki á heilum sér tekið. Vesalings Ágúst Ásgeirsson þarf nú risastóran afþurrkunarklút til að þerra tárin á sama tíma og við hin þurfum að leita að nýjum ökumanni sem getur hugsanlega hálffyllt það skarð sem Michael Schumacher skildi eftir sig.


Önnur sorgarfregn hefur nú borist okkur föstum lesendum Morgunblaðsins og sem veldur löngu sorgarferli á ritstjórnarskrifstofunum í Hádegismóunum hér í Árbæjarhverfinu. Turkmenbashi, faðir allra Turkmena er látinn, einungis 66 ára að aldri. Þessi maður sem sá til þess að brosviprum brá stöku sinnum fyrir á steinrunnum andlitum dyggra lesenda Morgunblaðsins er fallinn frá og ljóst að finna verður nýjan forseta til að hæðast að, svo ekki verði óbragð að jólamatnum. Sú leit ætti að vera mun auðveldari en leitin að arftaka Michaels Schumacher, enda einungis ein landamæri yfir að fara.

Nágranni og kollegi Turkmenbashi í Uzbekistan heitir Islam eða Islom Karimov. Hann komst til valda í lok Sovéttímans árið 1989 og fljótur að tileinka sér svipaðar lýðræðishugsjónir og nágranni hans í suðri og hefur barið niður alla andspyrnu af mikilli hörku. Öfugt við Turkmenbashi hefur Karimov áunnið sér virðingu meðal helstu hryðjuverkamanna þessa heims og hlotið mikinn stuðning þeirra. Sjálfur er hann flokkaður af tímaritinu Parade Magazine sem fimmti versti einræðisherra heims. Hann ætti því að vera kjörinn aðili fyrir Morgunblaðið að hæðast að í stað hins látna Turkmenbashi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli