þriðjudagur, desember 26, 2006

27. desember 2006 – Slappleiki

Það er búinn að vera einhver slappleiki í mér á annan jóladag. Ég hefi þó verið að vinna mína vakt, en sem betur fer var hún róleg. Því gat ég hvílt mig aðeins og lesið fyrstu blaðsíðurnar í bókinni um alla hina óvini ríkisins. Ég reyni að staulast áfram með bókina á morgun í þeirri veiku von að mér takist að ljúka henni fyrir áramót.

Ég hitti nokkrar helstu söguhetjurnar í friðargöngunni á Þorláksmessu og einn göngumanna lýsti bókinni þannig að í fyrri hlutanum væri höfundur að rakka niður íslenska vinstrimenn, en í seinnihlutanum reynir hann að afsaka fyrrihlutann, því það hafi ekki verið það sem hann meinti. Hvað veit ég, bara búin með 48 blaðsíður?

-----oOo-----

Sameining Mannshestahrepps átti í hinu mesta basli með Sameinaða hrútabossa í efstu Vestfjarðadeild enda fengitími þeirra síðarnefndu í fullum gangi þessa dagana og þeir kunna sér ekki læti sem eðlilegt er. Þegar 47 mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 2:0 fyrir bossunum og var seinna markið sjálfsmark. Strákarnir okkar mörðu þetta nú samt á endanum og er það vel af sér vikið. Nú eru þeir þremur stigum á eftir efsta liði í deildinni, en eiga fjóra leiki til góða.

Af hetjunum fótfráu í Halifaxhreppi fer fáum sögum öðrum en þeim að framherjinn knái, Rögnvaldur frá Sogni, hélt upp á 26 ára afmælið í gær. Ekki veit ég hvort það er þess vegna sem engin úrslit berast af Shay Stadium og úr kvenfélagsdeildinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli