Einn ágætur frændi minn, ákaflega geðþekkur og léttur í lundu, dæmigerður brandarakarl, lenti í þeirri aðstöðu fyrir einhverjum áratugum síðan, að þurfa að flytja veðurfregnir í sjónvarpi. Frændfólkið sat sem límt fyrir framan skjáinn fyrsta kvöldið sem hann lýsti veðrinu og beið þess að hann færi að reyta af sér brandarana fyrir framan alþjóð, en þvílík vonbrigði.
Þarna var hann á skjánum, ákaflega þurrlegur með samanbitnar varir og svitastorkið enni og þegar hann ætlaði að benda á einhver atriði á veðurkortinu, var erfitt að sjá hvort hann væri að benda á Langanes eða Reykjanes, svo skjálfhentur var hann. Frændinn lýsti svo veðrinu í sjónvarpi allra landsmanna í nokkur ár, en var aldrei eins og hann átti sér á meðan hann var á skjánum, en sem betur fer losnaði hann ávallt úr álögum í hvert sinn sem hann hvarf úr mynd.
Ástæða þess að ég nefni þetta hér, er að ég fæ á tilfinninguna að veðurfræðingum sé uppálagt að vera þurrir og leiðinlegir í sjónvarpi. Oft eru þeir með slíkan angistarsvip að ætla mætti að einhverri ólyfjan hafi verið þvingað ofan í þá og þeim síðan dyfið ofan í sýrubað til að þjáningin verði raunverulegri er þeir birtast á skjánum. Ég er ekki að tala um eitthvert einstakt tilfelli, heldur allan hópinn sem flytur veðurfregnir í Ríkissjónvarpinu, oft svo armæðufullur að maður leggst í þunglyndi yfir veðurspánni sem kannski hljómar upp á sól og blíðu.
Þá er nú munur að fylgjast með Sigga stormi er hann sést á Stöð 2, geislandi af gleði og segjandi brandara eins og honum væri borgað fyrir það (hann fær reyndar borgað fyrir það). Þá er fólkið sem segir veðrið með honum greinilega betur upplýst um góða framkomu í sjónvarpi og mættu veðurfræðingarnir á Ríkissjónvarpinu taka það sér til fyrirmyndar.
Ég skil ekkert í Páli Magnússyni útvarpsstjóra að hafa ekki lagað þennan þátt mála hjá Ríkissjónvarpinu fyrir löngu, þar sem hann hefur nú verið við störf sem útvarpsstjóri í rúmt ár.
-----oOo-----
Þegar fólk heldur upp á níræðisafmælið er oft stutt eftir og vafasamt hvort eigi að óska því til hamingju með afmælið ef það er komið að fótum fram sökum elli og lasleika, jafnvel lagst í kör. Þótt ekki sé hátt risið á Framsóknarflokknum þessa dagana og ýmis merki um ekki sé langt eftir, ætla ég samt að láta kurteisina ráða og óska flokknum til hamingju með níræðisafmælið í dag.
-----oOo-----
Loks er Pottaskefill kominn til byggða og veri hann velkominn eins og bræður hans. Það minnir mig svo aftur á ónefndan matsvein á nýsköpunartogara hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur sem var að segja nýjum aðstoðarmanni fyrir verkum í eldhúsinu. Þar sem nýi aðstoðarmatsveinninn var að hamast við að hreinsa súputarínuna (stór súpupottur sem súpan var framreidd í), benti gamli maðurinn honum ofan í tarínuna og sagði rólega en með sinni djúpu og hljómmiklu röddu svo vel heyrðist inn í borðsalinn:
“Þessa klessu þarftu ekki að þvo, hún er gömul”
laugardagur, desember 16, 2006
16. desember 2006 – Veðurfræðingar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 03:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli