Það þarf víst engum að koma á óvart að ég er mjög svo ósátt við nýjustu aðgerðir Bush og undirsáta hans suður í Írak á afmælisdegi mínum. Ég ætla þó ekki að koma með hástemdar yfirlýsingar um athæfið, en vísa þess heldur í orð framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Amnesty International í fjölmiðlum sem og orða frænda míns frá Leirvogstungu sem segja allt sem segja þarf.
-----oOo-----
Um jólin bölsótaðist ég út í óþekktan bílstjóra sem hafði lagt í einkastæðið mitt á aðfangadag og hreyfði ekki bílinn fyrr en á jóladagseftirmiðdaginn. Er ég var á leiðinni á vaktina á föstudagskvöldið, sá ég sama bíl í einkastæðinu hennar nágrannakonu minnar sem býr í blokkinni hinum megin við bílastæðin. Ég hoppaði af bræði. Svona lagað gengur sko ekki og það þarf að ræða við þennan bíleiganda áður en hann heldur áfram að hrella hina góðu og guðhræddu íbúa hverfisins með því að herja svona á bílastæði þeirra.
Er ég kom í vinnuna fór ég beint í bílaskrána og kannaði hver væri eigandi umræddrar bifreiðar og við mér blasti að nágrannakonan hinum megin við bílastæðin, hafði fengið sér fólksbíl til viðbótar við jeppann og var sjálf eigandi bílsins. Ég ét stóru orðin gegn óþekkta bílstjóranum aftur ofan í mig.
-----oOo-----
Mínir menn í Sameiningu Mannshestahrepps bættu aðeins stöðu sína í toppslag efstu Vestfjarðadeildar er þeir burstuðu Newcastle Town með 5 mörkum gegn einu og eru nú aftur komnir á toppinn þótt þeir séu með fjóra leiki til góða.
Öllu verr gengur hjá hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi í kvenfélagsdeildinni sem sýndu enn og aftur ólympískan anda með því að tapa naumlega fyrir Daghömstrunum á Rauðubrú .
-----oOo-----
Loks þakka ég haminguóskir, gjafir og heimsóknir þær sem hafa borist mér í dag og geri væntanlega upp árið í næsta pistli.
laugardagur, desember 30, 2006
30. desember 2006 – 2. kafli – Að kvöldi afmælisdags
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:40
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli